Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hlýðir á erindi um skógræktarmál í Valaskjálf.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hlýðir á erindi um skógræktarmál í Valaskjálf.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra í viðtali við Austurgluggann

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir það hafa verið gæfuspor fyrir íslenska skógrækt að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins skyldu vera færðar austur á Hérað árið 1990. Þær verði ekki færðar á næstunni. Til stendur að auka framlög til skógræktar á ný á næstu árum en þau voru dregin saman eftir hrun. Þetta kemur fram í viðtali við Sigrúnu sem birtist í héraðsfréttablaðinu Austurglugganum í kjölfar nýafstaðinnar skógræktarráðstefnu á Egilsstöðum.

Grein blaðsins er á þessa leið:

Talsmenn skógræktar hafa frá hruni bent á mikinn samdrátt í gróðursetningu sem komið geti niður á greininni til lengri tíma litið, ef skógarnir geti skyndilega ekki annað eftirspurn eftir hráefni og hvatt til þess að framlög til skógræktar verði aukin. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 eru tæpar 750 milljónir færðar á liðinn skógræktarmál en voru tæpar 680 milljónir fyrir árið 2014. Upphæðin hækkaði um tíu milljónir í fyrra og um sextíu nú. Framlagið á að nýtast til framleiðslu og gróðursetningar tjáplantna.

Til að standa við skuldbindingar íslenska ríkisins í loftslagsmálum eftir Parísarsamkomulagið, sem gert var í nóvember, lagði ríkisstjórnin fram sóknaráætlun í loftslagsmálum. Til stendur til að setja 250 milljónir í aðgerðir og segir Sigrún von á að það verði aukið á næstu árum. „Þetta er í fyrsta sinn sem sérstakt fjármagn er sett til loftslagsmála á Íslandi. Ég sé fyrir mér að það þurfi að gera meira á næsta ári. Uppbygging í skógrækt verður að vera jöfn og góð. Ríkisstjórnin hefur samþykkt þessa áætlun til þriggja ára svo það er ljóst að það verður áframhaldandi peningur næstu þrjú ár.“

Af hækkuninni í ár eru 32 milljónir ætlaðar í sóknaráætlun í loftslagsáætlun. Ekki er lokið við að skipta fjármagninu nákvæmlega en fjármunirnir fara bæði til Skógræktarinnar sjálfrar og svo landshlutaverkefnanna í skógrækt.

Mikið verk að sameina skógræktarfólk

Á árinu stendur til að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnin. Það hefur ekki verið staðfest með lögum en verður væntanlega gert á vorþingi. Eins er von á nýjum skógræktarlögum í vor en Sigrún segir vinnu við hvort tveggja „á lokametrunum“.

Vinnan er þegar hafin og var verkefni sérstaklega tiltekið þegar auglýst var eftir nýjum skógræktarstjóra í haust. Þröstur Eysteinsson tók við embættinu um áramót. „Það er margt jákvætt að gerast í skógræktinni en það er ekki þannig að Þröstur taki við öllu sléttu og felldu. Hann tekur við vaxandi grein sem gerir miklar kröfur. Við stefnum á að auka skógarþekju landsins úr 2% upp í 5% og til þess þarf að planta heilmiklu. Þröstur stendur því frammi fyrir heilmiklu verki við að samhæfa krafta manna til að stuðla að þessu.“

Vildu ekki í deilur um höfuðstöðvarnar

Áður en ákveðið var að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnin í hina nýju stofnun sem einfaldlega heitir Skógræktin var rætt um að sameina Skógræktina og Landgræðsluna sem er með höfuðstöðvar sínar í Gunnarsholti.

„Það er rétt að það var spurning um að sameina þessar tvær stofnanir en við vildum fyrst taka þetta skref, líka til að halda í að höfuðstöðvar beggja stofnana gætu áfram verið á sínum stöðum. Við vildum ekki taka deilu um hvar höfuðstöðvarnar skyldu verða.

Við erum líka að reyna að fela hvorri stofnun um sig stærri og veigameiri verkefni þannig að það var eðlilegra að halda þessu svona.

Ég hef heyrt það hér og áður að menn eru mjög hrifnir af því að hafa fengið þessar höfuðstöðvar. Í mínum huga finnst mér Austurland vera miðstöð skógræktar og hér hafa mestu framfarirnar verið. Við erum ekki þar með að loka á aðra. Starfið hér á að flæða á aðra staði og skógræktarstarfið hefur víða verið öflugt, til dæmis á vegum Hekluskóga.

Mér sýnist hins vegar á öllu að það hafi verið gott skref þegar skógrækin var flutt enda héldum við fast í það þegar nýr skógræktarstjóri var ráðinn að búseta hans yrði hér fyrir austan.“

- Var það aldrei nein spurning?

„Ég bara setti þá línu.“

Á tíma Jóns hafa skógarnir orðið að auðlind

Höfuðstöðvarnar komu austur árið 1990 og um leið tók Jón Loftsson við starfi skógræktarstjóra. Hann lét af því starfi um áramót en hann varð sjötugur í byrjun desember. Sigrún var meðal gesta á ráðstefnunni Tímavélin hans Jóns sem haldin var honum til heiðurs á Egilsstöðum í síðustu viku.

„Það er skemmtilegt hve margir miða við árið 1990 í skógræktinni, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Á heimsvísu er binding gróðurhúsalofttegunda í skógi og losun ríkja miðuð við þetta ár en hér heima er talað um að stærð skóganna hafi verið í sögulegu lágmarki. Um 1990 sáu menn að þróunin gat ekki haldið áfram og þrátt fyrir öfluga frumkvöðla og skógræktarstarf, allt frá stofnun Skógræktar ríkisins og fyrstu skógræktarlögunum, er eins og þjóðin hafi ekki tekið við sér fyrr en skógræktin fluttist austur og Jón Loftsson tók við.“

Sigrún segir að Jón geti litið sáttur yfir sinn tíma í embætti. „Það er einstakt fyrir hann að hverfa frá og sjá að í fyrsta sinn frá landnámi hefur íslenski birkiskógurinn vaxið að umfangi. Okkur finnst mörgum birkið vera hið íslenska tré, það er það sem hefur hjálpað okkur með eldivið og annað sem við höfum þurft í gegnum aldirnar.

Miðað við þau súlurit sem við sáum á ráðstefnunni hefur verið mikill uppgangur frá 1990 þótt aftur hafi farið niður á við í kreppunni. Við sjáum samt marga sprota. Gróðurþekjan er að aukast og ungur skógarbóndi flutti erindi þar sem hún lýsti öllum þeim möguleikum sem henni fannst blasa við skógarbændum.

Þessir skógræktarstjórar hafa allir verið merkilegir og margt gerst á tíma hvers og eins en á tíma Jóns fóru skógarnir að breytast yfir í að vera auðlind. Nú sjáum við nýjan atvinnuveg verða til sem getur orðið styrk stoð um allt land.“

GG