Óskað hefur verið eftir umsögnum innan Evrópusambandsins um tillögu að nýrri skóga- og skógræktarstefnu fyrir sambandslöndin. Þar er leitað jafnvægis milli verndunar og nýtingar en einnig viðurkennt það mikilvæga hlutverk sem skógar og skógrækt hefur á tímum loftslagsbreytinga og í uppbyggingu á grænu, sjálfbæru hringrásarhagkerfi í stað ósjálfbærs hagkerfis sem byggist á einstefnunýtingu auðlinda jarðarinnar.

Skógastefna Evrópusambandsins er vegvísir um friðun-, nýtingu og útbreiðslu skóga í löndum sambandsins.  Stefnan er mótuð í samstarfi Evrópuráðsins við aðildarlönd ESB og hagsmunaaðila.

Í tengslum við svokallað grænt samkomulag Evrópu, European Green Deal, kvað Evrópuráðið á um að ný skógarstefna ESB skyldi mótuð. Hún skyldi byggð á stefnu sambandsins um líffjölbreytni, ná til allrar hringrásar skógarins og draga fram alla þá fjölbreyttu virkni, afurða og þjónustu sem skógarnir veita. Markmið með stefnunni á að vera að tryggja heilbrigða og þrautseiga skóga sem leggja sitt til líffjölbreytni, loftslagsmarkmiða og öruggrar afkomu fólks um leið og þeir styðja við hringrásarhagkerfið. Í stefnunni á að leggja áherslu á vernd skóga í löndum Evrópusambandsins, endurútbreiðslu skóga og sjálfbæra skógrækt og skógarnytjar. Sömuleiðis er stefnunni ætlað að horfa til skóga vítt og breitt um heiminn sem ekki njóta verndar eða sjálfbærni. Þannig vill Evrópusambandið að aðildarlöndin hafi með samskiptum sínum og viðskiptum við önnur lönd jákvæð áhrif á skóga heimsins en ekki neikvæð.

Áhugavert er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með þessari stefnumótun Evrópusambandsins. Þar er leitað jafnvægis milli verndunar og nýtingar. Jafnframt er viðurkennt það mikilvæga hlutverk sem skógar og skógrækt hefur á tímum loftslagsbreytinga og í uppbyggingu á grænu, sjálfbæru hringrásarhagkerfi í stað ósjálfbærs hagkerfis sem byggist á einstefnunýtingu auðlinda jarðarinnar. Hérlendis er nú unnið að Landsáætlun í skógrækt sem tekur í stórum dráttum á sömu atriðum og fjallað er um í skógastefnu ESB.

Stefnan til umsagnar

Samráðsferli um nýja skógastefnu Evrópusambandsins hófst 25. janúar þegar opnað var fyrir umsagnir á vef Evrópuráðsins. Þar er hægt að sjá umsagnir sem þegar hafa borist. Opið verður fyrir umsagnir fram til 20. apríl og stefnt er að innleiðingu stefnunnar fljótlega í kjölfarið.

Hér að neðan má sjá helstu áhersluatriðin í stefnunni nýju. Áhugavert er að sjá það jafnvægi sem þarna hefur náðst milli friðunar- og nýtingarsjónarmiða. Viðurkennt er í stefnunni að horfa þurfi til þeirra loftslagsbreytinga sem eru hafnar og þeirra afleiðinga sem vænta má að breytingarnar hafi á skóga álfunnar. Hjálpa þurfi skógunum að laga sig að þessum breytingum, meðal annars með vali á því erfðaefni sem líklegast er til að byggja upp viðnámsþrótt skóganna og flýta fyrir aðlögun þeirra að breytingunum. Hlutverki skóga til að tryggja líffjölbreytni en um leið afkomu fólks, uppbyggingu á grænu hringrásarhagkerfi og sjálfbæru samfélagi er líka gert hátt undir höfði í stefnunni.

Meginatriði nýrrar skógastefnu ESB

Til að hlúa að núverandi skógum skal stuðlað að því með skógastefnu ESB að:

  • Efla skógvernd og endurútbreiðslu skóga til að uppfylla markmið ESB um líffjölbreytni og loftslag og til að hamla gegn því að skóglendi í álfunni minnki. Um leið skal tryggð vernd allra villtra og gamalgróinna skóga í löndum sambandsins.
  • Viðhalda timburmagni í skógum ESB og auka bindingu kolefnis í skógum, jarðvegi skóga og afurðum sem búnar eru til úr trjáviði.
  • Auka varnir gegn hamförum og skemmdum á skógum, draga úr eldhættu og efla mótstöðuafl skóganna við eldsvoðum og öðrum náttúrlegum ógnum. Tryggja skal góða skógarheilsu með því að taka tillit til breyttra vaxtarskilyrða vegna loftslagsbreytinga og hnignunar umhverfis.
  • Styðja endurhæfingu spilltra svæða og hnignaðra vistkerfa með tilliti til væntanlegra breytinga á loftslagi.
  • Tryggja sjálfbæra umhirðu og nytjar allra skóga í Evrópusambandinu svo að öll þau gæði sem skógarnir leiða af sér verði í hámarki um leið og séð verður til þess að framleiðni skóganna viðhaldist.

Til framtíðar er skógastefnu ESB ætlað að ýta undir:

  • Áætlun um aukna nýskógrækt og gróðursetningu trjáa sem nemur að minnsta kosti þremur milljörðum trjáplantna fram til ársins 2030 í samræmi við áætlun sambandsins um líffjölbreytni fyrir sama tímabil. Þetta skal gera með fullu tilliti til vistfræðilegra viðmiða. Tilgangurinn er að ná kolefnisjafnvægi og um leið að byggja upp bæði hringrásarhagkerfi og líffjölbreytni.
  • Aðlögun skóga að loftslagsbreytingum og aukið mótstöðuafl þeirra við þeim ögrunum sem eru í augsýn. Þetta á bæði að gera með aukinni vernd og með því að efla erfðafræðilegan fjölbreytileika trjáa.
  • Ný tækifæri til menntunar, færni og starfa sem endurspegla fjölbreytilega virkni og þjónustu skóganna.
  • Byggðaþróun í dreifbýli þar sem m.a. verður litið til framtaks í heimabyggð og staðbundinna virðiskeðja með vísan í fjölbreytilegrar  virkni, afurða og þjónustu skóganna.
  • frumleika og nýsköpun í þjónustu og framleiðslu sem byggð er á því sem skógurinn gefur. Þar er átt við verkefni sem hafa lítið umhverfisspor og leysa af hólmi verkefni sem byggjast á notkun jarðefnaeldsneytis.
  • skýrar línur um rannsóknir og nýsköpun til að auka þekkingu okkar á skógum og til að samsetning þeirra verði sem best, stjórnsýslan skilvirkust og nýtingin sömuleiðis, meðal annars fyrir lífhagkerfið.

 

Texti: Pétur Halldórsson