22052013-(2)Síðastliðið sumar var gerð tilraun með kögglun á lerki og stafafuru. Þessi tilraun var gerð í tengslum við verkefni sem gengur út á að kanna hagkvæmni þess að kynda byggðina í Grímsey með viðarkögglum eða kurli sem unnið væri úr grisjunarvið, aðallega úr fyrstu grisjunum.

Grisjunarviðurinn var höggvinn á vormánuðuð 2012. Samtals voru grisjaðir um 6-7 m³ fast af við og kurlaðir um 5 m³ sem gáfu um 12-14 m³ af kurli. Kurlið var þurrkað á Grund í Eyjafjarðarsveit í þurrkaðstöðu (fyrir korn) sem er í eigu Guðjóns Þ. Sigfússonar. Þurrkað var með nokkurskonar súgþurrkun þar sem heitu lofti er blásið upp um ristar á gólfi og í gegnum kurlið. Samtals voru þurrkaðir um 9,2 m³ af kurli úr þrennskonar hráefni eins og áður hefur komið fram.

Kögglunartilraunin var gerð í júní mánuði 2012 á Akri hjá Hlyni Þórssyni sem aðstoðaði okkur við þessa tilraun. Stefán í Teigi stjórnaði og stýrði tilrauninni. Einhverjar breytingar þurfti að gera á kögglunnarverksmiðjunni fyrir þessa tilraun en þær sneru aðallega að möluninni á kurlinu og þá þannig að það næðist að mala það nægjanlega smátt fyrir kögglunina niður í 3-4 mm að stærð.


Fjallað verður um tilraunina og niðurstöður hennar í Ársriti Skógræktar ríkisins sem kemur út í júní.


Texti og myndir: Rúnar Ísleifsson