Rætt við Þorberg Hjalta Jónsson í Bændablaðinu
Tvöfalt til fimmfalt meiri skóg þarf að rækta á landinu en nú er gert ef mæta á með íslenskum viði þeirri þörf fyrir iðnvið sem líklegt er að verði á þessari öld. Hátt landverð, í öðru lagi kostnaður, tafir og áhætta vegna opinberra leyfa og í þriðja lagi ræktunaráhætta eru helstu hindranirnar fyrir fjárfestingum í skógrækt hérlendis, segir Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur á Mógilsá, í viðtali við Bændablaðið sem kemur út í dag.
Tilefni viðtalsins er fyrirlestur sem Þorbergur Hjalti hélt á Fagráðstefnu skógræktar á Selfossi í mars um fjárfestingarmöguleika í skógrækt. Fram kemur að nú sé útlit fyrir að spurn eftir iðnviði til kísilmálmvinnslu stóraukist hér vegna nýrra verksmiðja sem eru í deiglunni. Með núverandi framkvæmdahraða í skógrækt á landinu fari því fjarri að hægt verði að anna þessari eftirspurn með innlendum trjáviði á þessari öld. Til þess þyrfti að tvöfalda til fimmfalda nýskógrækt í landinu og jafnvel meira en það, segir Þorbergur Hjalti.
Hann segir að á næstu 20-30 árum sé tækifæri til að gera skógrækt á Íslandi að alvöru atvinnuvegi sem stendur undir sér án opinbers stuðnings og skilar verulegum gæðum til samfélagsins. Til þess þurfi nýja nálgun og nýja fjármögnun en fyrst í stað þurfi að auka á ný fjárveitingar Alþingis til skógræktarmála.
Rætt er meðal annars um í viðtalinu að alaskaösp sé vænlegur kostur til iðnviðarframleiðslu og bent á 85 hektara tilraunaskóg í Sandlækjarmýri í Gnúpverjahreppi. Í ljós hafi komið að raunhæft sé að rækta ösp til að framleiða viðarkurl fyrir kísiliðnaðinn í 15-25 ára nýtingarlotu. Endurnýjun í slíkum skógi af teinungum og rótarskotum sé meira en næg til að ekki þurfi að gróðursetja aftur í hann eftir skógarhögg.
Þá er í greininni rætt um skógrækt sem fjárfestingarkost og segir Þorbergur Hjalti meðal annars að skógrækt geti verið freistandi kostur fyrir lífeyrissjóði og aðra langtímafjárfesta til að dreifa áhættu í eignasafni. Áhættan sé lítil og skógurinn geti skilað 4 til 5 prósenta arði um langa framtíð.
Þrátt fyrir þetta eru hindranir í veginum, að sögn Þorbergs Hjalta, og helst að nefna þrjár. Í fyrsta lagi er landverð sem sé víða um og yfir tvöfalt hærra en samanlagður kostnaður við nýræktun skógar á sama landi. Það dregur því verulega úr arðsemi fjárfestingarinnar ef fjárfestir þarf að kaupa landið undir skógræktina. Í öðru lagi fylgir því veruleg áhætta að kaupa land til skógræktar þar sem óvíst er hvaða kostnaður verður við afgreiðslu opinberra leyfa eða yfirleitt hvort heimild fæst til framkvæmda. Í þriðja lagi segir hann að ræktunaráhætta í nýskógrækt sé töluverð því ófyrirséð sé hvort eða að hve miklu leyti plöntur lifa eftir gróðursetningu eða hve lengi trén eru að komast á vaxtarskrið.
Lesa má greinina í heild á vef Bændablaðsins
Eða með því að smella á myndina hér fyrir neðan.