Tilkomumikil og óvenjuleg sjón er að sjá þrjá timburbíla í halarófu á íslenskum vegum. Vaðlareitur í…
Tilkomumikil og óvenjuleg sjón er að sjá þrjá timburbíla í halarófu á íslenskum vegum. Vaðlareitur í Eyjafirði í baksýn.

Nokkur dæmi um afurðir sem nú fást úr íslensku skógunum

Það er fyrst og fremst tækniþekking og hugmyndaflug sem takmarkar hvað hægt er að nýta timbur til. Hagkvæmni úrvinnslu ræðst að hluta af stærðarhagkvæmni og fjarlægð hráefnis frá úrvinnslustað.

Um þessi efni skrifar Brynjar Skúlason skógfræðingur í síðasta tölublaði Bændablaðsins og fer yfir í stuttu máli nokkra af helstu flokkum viðarafurða sem fást úr skógunum á Íslandi. Stórir, aðgengilegir skógar á samfelldum svæðum séu þannig hagkvæmari til vinnslu samanborið við smáa og dreifða skóga. Hér á eftir fylgja nokkur dæmi um núverandi úrvinnslu skóganna hérlendis.

Girðingastaurar

Kjarnaviður lerkis ver sig vel fyrir fúa frá náttúrunnar hendi. Við umhirðu um 20 ára gamals lerkiskógar fellur til umtalsvert magn af lerkistaurum.

Eldiviður

Íslenskur skógur var nýttur til eldiviðar frá upphafi byggðar. Í dag er framleiddur úrvals eldiviður úr íslensku birki til notkunar við pitsugerð en einnig til upphitunar í kamínur og arna. Allt þurrt timbur getur nýst sem eldiviður.

Viðarskífur

Viðarskífur má nota sem klæðningu innan- og utandyra úr mörgum trjátegundum. Flísarnar eru úr þunnu efni og þorna hratt eftir rigningu og fúi nær því ekki að koma sér fyrir. Grannt efni sem fellur til við grisjun ungskóga getur hentað vel sem viðarskífur.

Kurl, spænir og sag

Algengt er að nota trjákurl til að þekja beð en einnig er það vinsælt efni í göngustíga. Kurl hefur talsvert verið nýtt til reykinga á matvælum og stundum notað sem undirburður fyrir búfé. Spænir, sag og trjákögglar eru framleiddir sérstaklega til undirburðar.

Til kísilmálmvinnslu

Kísilmálmverksmiðjan á Grundartanga hefur nýtt sér kurlað íslenskt timbur sem kolefnisgjafa í framleiðslu sína. Allur viður nýtist til framleiðslunnar og möguleg eftirspurn er langt umfram íslenska framleiðslu.

Flettiefni

Til að unnt sé að fletta efni í borðvið þurfa bolirnir að vera sæmilega beinir og hafa náð lágmarks sverleika. Íslenskt flettiefni af ýmsum trjátegundum er í dag afar eftirsótt til klæðningar bæði utan dyra og innan.