Það krefst þolinmæði og þekkingar að útbúa ísbrýr á finnsku vötnunum sem haldið geta fulllestuðum timburbílum þegar sótt er timbur út í eyjar. Um slíka „brúargerð“ er fjallað í norska sjónvarpsþættinum Snow Show
Aðeins þarf tuttugu sentímetra þykkan ís á stöðuvatni til að hann beri venjulegan fólksbíl. En hvað með fullfermdan timburbíl? Í Finnlandi nýta menn vetrarhörkur til að ná í timbur út í eyjar á finnsku vötnunum. Búnar eru til ísbrýr sem geta borið mikinn þunga en þetta krefst kunnáttu og að varlega sé farið.
Fjallað var um þetta meðal annars í áhugaverðri þáttaröð norska sjónvarpsins TV2 sem fjallar um ís og snjó frá margvíslegu sjónarhorni. Þáttaröðin heitir Snow Show. Annar þátturinn í röðinni var helgaður þeim mikla krafti sem býr í ískristöllunum. Fjallað er um snjóflóð og ýmsar hættur sem veturinn hefur í för með sér, snjómokstur í þéttbýli, eðli íss og snævar og margt fleira. Haldið er meðal annars til Finnlands þar sem heimamenn hafa frá fornu fari þurft að sýna útsjónarsemi við skógrækt og skógarnytjar í landi því sem gjarnan er kennt við þúsund vötn.
Árlega uppskera Finnar meira en 70 milljónir rúmmetra af timbri úr skógum sínum. En jafnvel þótt landið sé að miklu leyti flatt og víðast hvar auðvelt að sækja timbrið og koma því til vinnslu eru líka til skógar sem ekki eru sérlega aðgengilegir. Dæmi um það eru eyjar á stöðuvatninu Kiantajärvi í héraðinu Suomussalmi, austast í Mið-Finnlandi.
Ekki eru nema þrjú hundruð metrar út í eyjuna sem fjallað er um í þættinum. Samt sem áður er mikið vandaverk að sjá til þess að timburbílar geti af öryggi ekið á ísi út í eyjuna. Slíkt þarf að skipuleggja vel og undirbúa. Timburbíllinn sem sýndur er í þættinum er 27 tonn að þyngd tómur. Ilmari Taurianen hefur yfirumsjón með verkinu og ber þar með ábyrgð á öryggi þeirra sem þarna eiga að fara um. Hann segir að breytingar hafi orðið á vatninu og því þurfi að leggja ísbrúna eilítið utar en áður. Hún þarf að vera sem beinust. Á síðasta vetri varð ekki nógu kalt til að hægt væri að leggja ísbrýr á vatninu. Þegar norska þáttagerðarfólkið kemur til að taka upp eru aðstæður betri.
Mikilvægt er að spila með vetrinum. Stöðugt frost vikum saman er vænlegast til árangurs. Farið er út á ísinn með ísbor og bensínknúnar vatnsdælur og dælur sem knúnar eru af dráttarvél. Vatni er dælt upp á ísinn þar sem það frýs og bætir einu laginu af öðru ofan á ísinn. Ef vel tekst til getur ísinn þykknað um 4-5 sentímetra á sólarhring með þessu móti. En það þýðir að vinna þarf að verkinu allan sólarhringinn. Frostið hjálpar því betur sem það er meira. Stundum getur það þó orðið meira en góðu hófi gegnir. Ef frostið fer niður fyrir þrjátíu stig getur þurft að þíða upp vatnsdælurnar með gasloga.
Jafnvel þótt þetta sé ekki beinlínis kapp við tímann þarf ísbrúin að vera tilbúin sem fyrst svo að tími gefist til að flytja allt timbrið úr eyjunni áður en vorar og ísinn tekur að þiðna. Sýnt er í þættinum hvernig Ilmari mælir þykktina á ísnum þegar tveir mánuðir eru liðnir frá því að verkið hófst. Hann mælist 110 sentímetra þykkur. Það er nærri lagi en þó er Ilmari ekki alveg í rónni. Hann vill gjarnan hafa ísinn nokkrum sentímetrum þykkri.
Í skóginum hefur í millitíðinni verið unnið að skógarhöggi og nú koma timburflutningabílarnir til að sækja timbrið. Fyrsti bíllinn sem fer yfir er ekki hafður fulllestaður, jafnvel þótt ísinn sé nú orðinn 120 sentímetra þykkur. Fimmtíu tonn eru látin duga í fyrstu ferð. Ekki má fara hratt því þá geta myndast bylgjuhreyfingar í ísnum og ísinn farið að brotna upp. Bílstjórinn heldur jöfnum 15 km hraða á klukkustund, hefur bílrúðuna niðri og fylgist vel með því hvort brestur í ísnum. En ísinn reynist traustur, ísmeistarinn Ilmari andar léttar og þennan veturinn eru farnar 199 ferðir út í eyjuna til að sækja timbur.
Umfjöllunin um ísbrúna er níundi liðurinn í öðrum þætti þáttaraðarinnar Snow Show. Smellið á Isveier. til að komast beint í þennan hluta þáttarins. Vert er líka að benda áhugafólki um skóga og skógrækt á umfjöllun sem kallast Skogsarbeid i luften og er í fyrsta þætti þessarar sömu þáttaraðar. Þar er sýnt hvernig tré eru snyrt með sög sem hangir neðan í þyrlu. Þetta er mjög vandasamt verk og nokkuð ógnvekjandi á að horfa, ekki síst þar sem unnið er við að klippa tré með fram háspennulínum. Þyrluflugmaðurinn þarf að gæta þess að saga ekki í háspennulínurnar. Svo má hann heldur ekki reka sögina í of sverar greinar eða stofna því þá getur hún fest og kippt í þyrluna. Fáir komast með tærnar þar sem Finnar hafa hælana í skógrækt, skógarumhirðu og -nytjum.