Hvernig kemur maður timburmarkaðnum á hreyfingu? Með því að gera timbursöluna auðveldari. Nýi rafræn…
Hvernig kemur maður timburmarkaðnum á hreyfingu? Með því að gera timbursöluna auðveldari. Nýi rafræni timburmarkaðurinn er ávöxtur af samstarfi innan finnska skógargeirans. Bæði seljendur og kaupendur timburs tóku þátt í þróun hans. Mynd: Erkki Oksanen

Sala á timbri að ná því sem mest var í Finnlandi um síðustu aldamót

Ný rafræn timburmiðlun á vefnum gerir finnskum skógareigendum nú kleift að færa alla verslun með timbur úr skógum sínum í einn farveg. Gert er ráð fyrir að þegar Finnar flykkjast í sumarfrí í júlímánuði hafi ein milljón rúmmetra af timbri verið seld með þessum hætti þótt vart verði tveir mánuðir liðnir frá því að þjónustan hófst.

Rafræna timburmiðlunin var opnuð í maí og kallast Kuutio. Eftir því sem best er vitað er hún sú eina sinnar tegundar í heiminum. Skógareigendur geta nú á einfaldan hátt fundið kaupendur að afurðum sínum og óskað eftir tilboðum. Fyrirtækið Suomen Puukauppa Oy sá um þróun þjónustunnar en að fyrirtækinu standa öll helstu fyrirtæki, stofnanir og samtök í finnska skógargeiranum.

Frá þessu segir á vef finnsku skógasambandsins, Suomen Metsäyhdistys, og haft er eftir framkvæmdastjóranum, Aku Mäkelä, að nú þegar séu meira en 90 af hundraði allra viðskipta með finnskt timbur komin undir þennan hatt. Hann segir að Kuutio sé til komið fyrir samtakamátt alls finnska skógargeirans og bæði seljendur og kaupendur timburs hafi tekið þátt í þróuninni. Miklu skipti að ekki séu margir að bítast um sama bitann.

Markmið þessarar rafrænu þjónustu er að koma timbrinu á markað, segir Mäkelä, og fá sem flesta að borðinu, ekki síst þá skógareigendur sem minnst hafa haft sig í frammi á markaðnum. Meðal þeirra eru skógareigendur sem búa í þéttbýli og selja lítið af timbri úr skógum sínum en þeir eru taldir skipta tugum þúsunda í Finnlandi. Meira timburs er þörf enda hafa Finnar fjárfest mikið í timburvinnsluiðnaði að undanförnu.

Mäkelä telur líka að Kuutio muni auka samkeppni á timburmarkaðnum og líklegra verði að rétt verð fáist fyrir timbrið.


Nýir viðskiptavinir fyrir skógfyrirtækin

Um sextíu af hundraði finnskra skóga eru í eigu fjölskyldna og slíkir skógareigendur eru um 600 þúsund talsins þar í landi. Samanlagt eiga þeir tólf milljónir hektara skóglendis og á síðasta ári voru viðskiptagerningar þeirra með timbur um 100 þúsund talsins.

Venjan hefur verið sú að skógareigendur hafi annað hvort fengið hjálp fagmanna og skógfyrirtækja við að leita tilboða í timbrið sitt eða gert beina sölusamninga við úrvinnslufyrirtæki. Sauli Brander, aðstoðarforstjóri auðlinda- og skógræktarmála hjá finnska timburvinnslurisanum UPM, fagnar mjög þessu nýja rafræna markaðskerfi enda geti það ýtt á eftir skógareigendum að selja meira timbur. Nú þegar hafi þessi þjónusta aflað fyrirtækinu nýrra viðskiptavina og gert því kleift að semja beint við skógareigendur. Heimsóknum skógareigenda á vef fyrirtækisins hafi líka fjölgað að mun eftir að Kuutio-þjónustunni var hleypt af stokkunum. Nú leiti menn eftir rafrænum viðskiptum á sama stað og þeir leita að upplýsingum.

Nýtur góðs af heimsins bestu skógarúttekt

Auðvelt er að stofna til viðskipta á Kuutio. Í raun þarf skógareigandinn ekkert að vita um sinn eigin skóg. Þegar notandi hefur skráð sig inn í kerfið og sótt gögn um skóginn sinn er einfaldlega hægt að óska eftir tilboðum með fáeinum smellum, annað hvort með hjálp tölvu eða snjalltækis.  Rafræn þjónusta sem þessi væri vart möguleg nema vegna þess að mjög ítarleg gögn eru til um alla finnska skóga. Kuutio sækir gögn beint á notendavef finnsku skógarúttektarinnar, metsään.fi (= skógurinn minn), þar sem skógareigendur í Finnlandi hafa um árabil getað skráð sig inn og fundið á einum stað öll nauðsynleg gögn um skógana sína.

Finnska skógarstofnunin kortleggur skóga landsins ítarlega með leysigeislatækni, loftmyndatökum og skógmælingum á vettvangi. Gögnin sýna ekki einungis stærð skóganna og viðarmagn heldur einnig tegundir, hæð, ummál, aldur og fjölda trjáa. Á metsään.fi er einnig að fá leiðbeiningar um skógarumhirðu og skógarnytjar. Þar eru einnig merkt inn svæði sem talið er mikilvægt að vernda og gefnar leiðbeiningar um verndun slíkra svæða.

Aku Mäkelä bendir á að gagnasafn Finna um skóga landsins, finnska skógarúttektin, sé einstakt í heiminum. Með þessi gögn í höndunum sé auðveldara fyrir skógareigandann að skipuleggja ræktun, nytjar eða verndun skógarins. Kuutio-kerfið gefi líka færi á að gera áætlanir um afraksturinn af timbursölu enda sé byggt á nýjustu gögnum finnsku auðlindastofnunarinnar Luke.

Í Kuutio-sölukerfinu er ekki einungis hægt að óska eftir tilboðum heldur má sömuleiðis óska eftir ýmiss konar samskiptum eða aðstoð. Óska má eftir aðstoð fagmanna við til dæmis skógarnytjar og bæði tilboð og skilaboð eru vistuð í kerfinu í stað þess að notast þurfi við tölvupóst eins og hingað til hefur verið gert.


Timburviðskipti á uppleið

En þrátt fyrir allt sem að framan er frá greint gerir Kuutio-kerfið timburviðskiptin ekki alveg eins einföld og t.d. bílaviðskipti. Enginn getur spáð með vissu fyrir um timburverð enda er rúmmetraverðið mjög mismunandi frá einum samningi til annars. Ómögulegt er til dæmis að reikna út fyrir fram hversu stórt hlutfall viðar úr viðkomandi reit reynis vera bolviður eða viður til pappírsgerðar af grönnum trjám.

Endanlegt verð ræðst þegar trén hafa verið felld og mæld. Kuutio-kerfið breytir því ekki að það er hyggilegast fyrir skógareiganda að þekkja skóginn sinn vel. Ella getur reynst honum erfitt að bera saman tilboðin sem fást í afurðirnar. Hið endanlega tilboð er gert milliliðalaust milli skógareiganda og kaupanda en ekki gegnum Kuutio-kerfið.

Petri Takalo, forstjóri skógarafurðastöðvar Päijänne í Suður-Finnlandi segist telja að margir skógareigendur muni eftir sem áður halda áfram að nýta sér þjónustu og ráðgjöf fagmanna við sölu á timbri sínu. Starfsfólk afurðastöðvanna þekki kaupendur á sínu svæði og kunni skil á því hvernig skógarnir á svæðinu eru nýttir. Sérfræðingur hjá slíkri miðstöð geti líka á hverjum tíma útvegað nýjustu upplýsingar um áætlað viðarmagn tiltekins reits áður en óskað er eftir tilboðum. Á honum er að skilja að rafræni markaðurinn komi því ekki að öllu leyti í staðinn fyrir hefðbundnar aðferðir.

Takalo segir þó að vissulega muni rafræni markaðurinn spara afurðastöðvum sporin því nú sé auðvelt safna saman tilboðum á einum stað. Hann telur að nýja fyrirkomulagið muni nýtast best þeim sem kunna góð skil á skóginum sínum og hafa nægilega þekkingu og reynslu til að geta séð um viðskiptin sjálfir.

Nýja rafræna timburmarkaðnum Kuutio var hleypt af stokkunum á hárréttum tíma því nú eru merki um að timbursalan sé á uppleið í Finnlandi. Því er spáð að framleiðsla flettiefnis verði nálægt því sem mest var um síðustu aldamót. Finnar eru vanir því að spurn eftir timbri sé meiri en framboðið en Petri Takalo segir að samt sem áður sé ekkert sem tryggi besta verðið betur en samkeppni á tilboðsmarkaði. Það sé ekkert nýtt og samkvæmt þessu hafi afurðastöðvarnar unnið í áraraðir.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson