Nú stendur yfir högg á jólatrjám hjá Skógrækt ríkisins. Á Suðurlandi einu er höggvin um 45 torgtré þetta árið þ.e. grenitré hærri en 4 m sem skreyta munu torg og lóðir bæja. Á landinu öllu eru felld um 200 tré sem nýtast sem torgtré.

Til að létta sér vinnuna við flutning trjáa úr skógi að vegi smíðaði Jóhannes Sigurðsson verkstjóri Skógræktarinnar í Þjórsárdal sérstaka greip sem gerir honum kleyft að lyfta stærstu trjám með ámoksturstækjum dráttarvélar. Þessi uppfinning sparar gríðarlega vinnu og fer mun betur með trén, en sú aðferð að draga trén út úr reitum með dráttarspili. Jóhannes gat með aðstoð greiparinnar fellt einsamall flest torgtré sem þurfti að fella þetta árið á einni viku. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig greipin virkar.

Á næstu vikum verða heimilistré landsmanna höggvin og eru það aðallega rauðgreni, stafafura og blágreni, auk smáræðis af fjallaþin, sitkagreni og síberíuþin.