Myndband sem sýnir átökin við brekkurnar í Skorradal

Undanfarnar vikur hefur verið unnið við grisjun greniskógar á Stálpastöðum í Skorradal. Verkið vinnur Kristján Már Magnússon skógverktaki með grisjunarvél sinni en starfsmenn skógarvarðarins á Vesturlandi sjá um að aka viðnum út úr skóginum.

Hlíðar eru brattar í Skorradal og því víða nokkuð torfært um skóginn. Grisjunarvélin ræður vel við slíkan halla en erfiðara er að komast um á dráttarvélunum sem notaðar eru við útkeyrsluna. Hérlendis er enn sem komið er ekki til nein sérhæfð útkeyrsluvél. Slíkar vélar eru, líkt og grisjunarvélar, gjarnan á átta belgmiklum dekkjum, eða á beltum, og fátt sem hindrar för þeirra. En venjulegri dráttarvél eru meiri takmörk sett, þótt góð sé og með drif á öllum hjólum.

Í meðfylgjandi myndbandi sjáum við hvar Valdimar Reynisson skógarvörður reynir sig við eina brekkuna á dráttarvélinni. Meðferðis hefur hann brúsa með lífrænum glussa á grisjunarvélina sem bilaði og missti niður talsvert af glussanum. Slíkt kemur þó ekki að sök því að glussi þessi er álíka meinlaus og venjuleg matarolía. Stór slanga úr aðaldælu grisjunarvélarinnar gaf sig og skipta þurfti um hana. Þar með féll úr heill dagur í grisjun en við því er ekkert að segja. Átökin eru mikil við trén og ósléttan skógarbotninn svo alltaf getur eitthvað gefið sig í svo flóknu tæki sem grisjunarvél er.

Hér sést vel hversu þéttur skógurinn var áður en grisjun hófst. Trén voru gróðursett 1962 og reiturinn hefur ekki verið grisjaður síðan.
Mynd: Valdimar Reynisson.

Sitkagrenið sem nú er verið að grisja á Stálpastöðum er af kvæminu Seward, gróðursett 1962. Reiturinn hefur ekki verið grisjaður áður nema svolítið neðan til og því eru þetta grönn tré en meðalhæðin er um 15 metrar. Viðarmagn á hektara mun vera milli 100 og 120 rúmmetrar. Dálítið er líka grisjað af rauðgreni sem er ári yngra en þar er viðarmagnið ekki nema um 70 rúmmetrar á hektara, enda trén grennri og lægri, um 10-12 metra há. Á ljósmyndinni hér til vinstri sést hversu þéttur skógurinn var áður en grisjunin hófst.

Valdimar Reynisson skógarvörður rannsakaði greni í meistararitgerð sinni í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og þar kom meðal annars í ljós að sitkagrenið í Skorradal óx að meðaltali 44% meira en rauðgrenið. Þegar þessari grisjun lýkur verða rúmlega eitt þúsund rúmmetrar viðar í timburstöflum í Skorradal. Mest af því verður selt Elkem á Grundartanga en sverustu bolirnir verða flettir í borðvið.

Smellið hér til að sjá myndbandið


Valdimar Reynisson skógarvörður í sitkagrenireitnum frá 1962 sem verið er að grisja.
Kvæmið er Seward.


Mikið hefur verið unnið að vegagerð í Stálpastaðaskógi í sumar til að gera kleift að grisja.

Benedikt Örvar Smárason, skógarhöggsmaður hjá Skógræktinni á Vesturlandi,
stendur við timburvagninn fullan af sitkagrenibolum.


Myndband, myndir og texti: Pétur Halldórsson