Tækifæri gefst til að knúsa hæsta tré landsins við athöfnina á Klaustri á mánudaginn. Spurningin er …
Tækifæri gefst til að knúsa hæsta tré landsins við athöfnina á Klaustri á mánudaginn. Spurningin er hvort tréð hefur nú náð 30 metra hæð. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktarfélag Íslands hefur tilnefnt hæsta tré landsins til heiðurstitilsins Tré ársins hjá félaginu þetta árið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður viðstödd í skóginum á Kirkjubæjarklaustri þegar tréð verður formlega útnefnt á mánudag.

Stóra spurningin er: Hefur hæsta tré landsins náð þrjátíu metra hæð? Ítarlegar mælingar hafa nú þegar farið fram á trénu, sem er sitkagreni gróðursett af heimafólki á Klaustri árið 1949. Þess hefur verið beðið í nokkur ár að fyrsta tréð á Íslandi frá því fyrir ísöld hafi náð þrjátíu metrum. Tilkynnt verður um niðurstöðu þessara mælinga við athöfnina á mánudag sem hefst klukkan sextán. Þá kemur sannleikurinn í ljós!

Öllum er velkomið að koma í skógarreitinn við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri og taka þátt í athöfninni. Skógurinn er þjóðskógur í umsjón Skógræktarinnar. Þar verður leikin tónlist, formaður Skógræktarfélags Íslands, forsætisráðherra og skógræktarstjóri flytja ávörp, hæsta tré landsins verður mælt og viðurkenningarskjöl afhent. Svo býður Skógræktarfélag Íslands upp á veitingar. Lambhagi ehf. styrkir viðburðinn.

Dagskrá

  • Tónlist. Hjónin Zbigniew Zuchowicz, skólastjóri Tónlistarskóla Skaftárhrepps og Teresa Zuchowicz
  • Ávarp: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
  • Mæling á Tré ársins
  • Ávarp: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
  • Afhending viðurkenningarskjala
  • Ávarp: Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri

Nánari upplýsingar um Tré ársins fyrr og nú má finna á vef Skógræktarfélags Íslands. Á skogur.is er að finna meira um skógarreitinn á Klaustri.

Frétt: Pétur Halldórsson