Umræða um gamalt tré í miðborg Reykjavíkur af hinu góða

Morgunblaðið segir frá því í miðvikudagsblaði sínu 4. júní að stöðugur straumur fólks hafi verið um Grettisgötu í Reykjavík í gær til að skoða 106 ára gamlan silfurreyni sem staðið hefur til að fjarlægja vegna byggingaframkvæmda. Um 2.000 manns hafi skrifað undir mótmæli gegn framkvæmdinni. Þetta er til marks um að fólk sjái verðmæti í myndarlegum trjám í þéttbýli. Fréttablaðið fjallar líka um tréð og möguleikanum á að flytja það sem háður sé nokkurri óvissu. Blaðið sýnir myndir af trjám í miðborg Reykjavíkur sem hafa verið vernduð. Umræðan um gömul tré í þéttbýli er af hinu góða.

Myndarleg tré eru nokkuð sem skort hefur í borg og bæ á Íslandi en síðustu áratugi hafa stærri tré orðið meira áberandi víða, til dæmis í Reykjavík, þar sem rætt er um að skjólið af trjánum hafi hægt vindinn svo mjög að það sjáist á mælingum Veðurstofunnar í Öskjuhlíð. Vindur sé sá sami á Miðnesheiði nú og fyrir nokkrum áratugum en mælist lægri í Öskjuhlíð. Enga aðra skýringu sé að sjá á því en þá að þéttbýlisskógurinn sé farinn að hafa áhrif á veðurfarið.

Af blöndu bjartsýni, framfaraþrár og hugdirfsku var nokkuð gróðursett af erlendum eðaltrjátegundum á Íslandi upp úr aldamótunum 1900. Silfurreynirinn við Grettisgötuna er dæmi um það. Framan af voru tré gjarnan sett niður óþarflega nærri húsum þar sem mest var skjólið og sólar naut best við. Stundum rötuðu þessi tré þó á staði þar sem þau höfðu rými til að breiða úr sér með tímanum og gefa lífinu lit og gildi. Með stórum trjám fást mikil gæði. Þau veita skjól og næði, safna í sig ryki, draga úr hávaða, tempra jarðvegsraka, laða til sín fugla og fleira og fleira. Nokkuð hefur skort á skilning Íslendinga á þessu og allt of mörg myndarleg tré hafa verið felld, til dæmis til að rýma fyrir mannvirkjum eða opna fyrir útsýni. Þá er spurning hvort meiri gæðum hefur verið fórnað fyrir minni. Til hvers óx tré í áratugi eða jafnvel heila öld ef ekki á að njóta þess sem það gefur? Tré eru fallegt útsýni ekki síður en fjöll.

Hér skal ekki tekin afstaða til þessa tiltekna trés við Grettisgötu heldur bent á að með mál sem þessi sé vert að fara af ítrustu gát. Umræðan er þörf og nú þegar stórum trjám fjölgar í íslensku þéttbýli þarf þjóðin að gera upp við sig hvernig skuli fara með þessi verðmæti. Stór tré hafa gildi fyrir svo miklu fleiri en húseigendur eða íbúa þess húss sem hvert tré stendur við. Þetta eru því sameiginleg gæði allra sem búa í grenndinni og allra vegfarenda.

Ástæða er til að spyrja hvort sveitarfélög hafi markað sér nógu skýra stefnu um þessi mál. Er sérstök athygli vakin á því þegar deiliskipulagi er breytt þannig að gömul tré þurfa að víkja? Og hvernig er með skipulag nýrra hverfa? Er hugsað fyrir trjágróðri við skipulag þeirra? Er rými fyrir tré í görðum við ný hús? Hvað með opin svæði í umsjá sveitarfélagsins? Er gert ráð fyrir að skipta um tré eins og skó þegar tíminn líður eða er hugsað 100-200 ár fram í tímann svo að afkomendur okkar geti notið stórra og fallegra trjáa og alls sem þau hafa að gefa?

Frétt Morgunblaðsins er á þessa leið:

Stöðugur straumur fólks var um Grettisgötuna í gær. Flestir voru að skoða 106 ára gamlan silfurreyni sem höggva á vegna færslu húss á lóðinni vegna byggingar hótels. Í gærkvöldi höfðu um 2.000 manns skrifað undir mótmæli gegn framkvæmdinni.

Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, segir að örlög silfurreynisins hafi í raun verið ráðin árið 2003, þá hafi verið ákveðið að það yrði fellt. „Þetta er mjög flott tré en þegar deiliskipulag var samþykkt árið 2003 var það í raun úr leik," sagði Þórólfur í samtali við mbl.is í gær. Hann sagði að reglur borgarinnar um að sérstakt leyfí þurfi til að fella tré eldri en 60 ára eða hærri en 8 metra gildi ekki ef deiliskipulag hafi verið samþykkt.

Eiríkur K. Jónsson, íbúi við Grettisgötu, segir að margir hafi komið til að skoða aðstæður í gær og flestir til að dást að trénu. Fólkið safnist saman til að ræða málið.

helgi@mbl.is

Frétt Fréttablaðsins er á þessa leið:

Verði niðurstaðan sú að silfurreynirinn á Grettisgötu 17, sem talinn er vera frá árinu 1908, verði að víkja vegna fyrirhguaðrar hótelbygging ar milli Laugavegs og Grettisgötu verður skoðað hvort hægt verði að finna honum nýjan stað, að sögn Þórólfs Jónssonar garðyrkjustjóra.

„Það er tæknilega mögulegt að flytja tréð. Svona stór tré og jafnvel stærri tré hafa verið flutt en árangurinn er óviss. Fyrst á eftir verður tréð druslulegt en það gæti hjarnað við. Svo gæti það líka gerst að það veslaðist upp á nokkrum árum," tekur Þórólfur fram.

Að sögn garðyrkjustjórans má reikna með að rótarkerfi silfurreynisins við Grettisgötu sé jafnstórt krónu trésins. „Ef vel ætti að vera þyrfti að ná jafnstóru rótarkerfi og krónan teiknar sig. Við vitum hins vegar ekki hvert ræturnar hafa farið. Sennilega eru þær í framlóðinni eða jafnvel undir húsinu sem það stendur við hliðina á. Langbest væri þó að tréð fengi að standa þar sem það er. Þar mun því örugglega farnast best."

Þórólfur segir borgaryfirvöld og byggjendur hótels á horni Aðalstrætis og Túngötu hafa lagt mikið á sig til að vernda gamalt tré inni á lóð hótelsins. „Þar er álmur frá 1902 á bak við hótelið sem sést þegar gengið er upp Túngötu. Það tókst ágætlega að halda því tré þótt þrengt hafi verið að því."

Flottasta tréð sem borgin á er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti, að því er Þórólfur greinir frá. „Silfurreynirinn þar er líklega frá 1886. Þar eru líka flottir, gamlir hlynir."

Hlynurinn á horni Vonarstrætis og Suðurgötu er frá 1917. „Við eigum hann ekki frekar en álminn í Aðalstræti. Þessi hlynur er á lóð Happdrættis Háskóla Íslands en í hugum margra er hann aðaltréð í borginni," segir Þórólfur.

Elstu trén í Hólavallagarði, kirkjugarðinum við Suðurgötu, eru frá því upp úr aldamótunum 1900. Almenn gróðursetning varð þar ekki fyrr en á árunum milli heimsstyrjalda, að því er segir á vef Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Þórólfur bendir á að hægt sé að reikna aldur trjáa út frá aldri byggðarinnar. „Ef trén eru stór og gömul eru þau frá því skömmu eftir að húsin voru byggð. Margir dást að gömlum trjám sem eru víða á einkalóðum við Laufásveg. í Norðurmýri eru líkagömul, flott tré."

ibs@frettabladid.is