Dómstóll í Amsterdam hefur úrskurðað að 150 ára hrossakastaníutré utan við hús Önnu Frank í borginni skuli fá að standa. Tréð kemur fyrir í heimsþekktri dagbók sem Anna hélt meðan hún leyndist í húsinu í rúm tvö ár í síðari heimsstyrjöldinni.

Hrossakastaníutréð er illa leikið af sveppasýkingu og maðki, auk þess sem jarðvegur við rætur trésins hefur mengast af húshitunarolíu. Borgaryfirvöld í Amsterdam sáu því ekki annað ráð en að fella tréð, þar sem hætta var talin á að tréð gæti fallið og valdið eignatjóni. Mörgum hugnaðist það illa. Meðal annars voru stofnuð samtökin „Björgum kastaníutrénu“ sem hafa barist fyrir því að tréð fái að standa.

Til stóð að fella tréð í dag. Hús Önnu Frank er einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn í Amsterdam.

 

Heimildir:

Fréttir RÚV (21. nóv. 2007)

Dutch court saves Anne Frank tree from the chop (Reuters)

 Anne Frank museum says diseased tree must go (Reuters)

Horse chestnut tree diseased (vefur safns Önnu Frank)

New unknown disease in Aesculus hippocastaneum