Trjágróður við Kjartansgötu í Reykjavík. Stór barrtré í þéttbýli eru öflugir lofthreinsarar, hreinsa bæði mengunarefni og ryk. Lauftrén eru líka dugleg en þó einkum þegar þau standa laufguð yfir sumarið.
Aukin ræktun sígrænna barrtrjáa gæti minnkað svifryk og aðra mengun að mun
Bílar og ýmis vélknúin tæki og vinnuvélar eru helsta uppspretta loftmengunar í þéttbýli á Íslandi. Hér er lítið um mjög mengandi verksmiðjur í eða við þéttbýlisstaði. Hér njótum við þess að raforka er ekki framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis en víða í útlöndum er mengun frá kolaorkuverum talsverður hluti af þéttbýlismenguninni.
Við brennslu jarðefnaeldsneytis losnar nituroxíð út í andrúmsloftið (NO, NO2) en einnig rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC). Með hjálp sólarinnar myndast óson (O3) úr þessum efnasamböndum og getur hlutfall ósons í andrúmslofti aukist mjög niður við jörð, sérstaklega á sólríkum sumardögum. Víða í stórborgum heimsins, sérstaklega þar sem er sólríkt, er ósonmengun sá þáttur sem mest spillir loftgæðum. Væntanlega er síður hætta á því á Íslandi og frekar ástæða til að hafa áhyggjur af svifryksmengun sem er líka óhjákvæmilegur fylgifiskur bruna jarðefnaeldsneytis. Koltvísýringur sem losnar við þennan bruna er ekki skaðleg mengun í sama skilningi en þessi lofttegund er þó sú sem mest leggur til hlýnunar loftslags á jörðinni af mannavöldum.
Mikilvægt er ráðast að rótum vandans og draga sem mest úr allri þessari mengun. Vert er þó að grípa einnig til þeirra ráða sem tiltæk eru til að eyða menguninni. Tré ráða við alla þessa mengun og þau geta dregið úr mengun með margvíslegum hætti. Þau taka upp ákveðin mengunarefni, ekki síst koltvísýringinn, og skila til baka súrefni. Önnur efni og svifryk sest á laufskrúð, greinar og stofn trjánna en skolast svo af í rigningu.
Í sumarhitum í útlöndum gegna tré auk þess mikilvægu hlutverki við að hamla gegn myndun ósons niður við jörð því þau veita skugga og lækka lofthitann. Skugginn minnkar líka hættuna á að eldsneyti gufi upp úr eldneytisgeymum og eldsneytiskerfum bíla í sólarhitanum. Hiti er ekki vandamál á Íslandi en hér eru mengunarefni í þéttbýlislofti sannarlega vandamál eins og annars staðar.
Samhliða því að ráðast gegn upptökum mengunarinnar er vert að huga vel að því hvernig nýta má trjágróður í þéttbýli á Íslandi til að auka loftgæði í byggðinni. Umræða um svifryksmengun kemur upp á hverjum vetri á Íslandi og svifryk í andrúmslofti fer margoft yfir heilsuverndarmörk bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.
Nyti þessara trjáa ekki við er líklegt að oftar þyrfti að þurrka af í húsunum. Trén draga líka úr hávaða auk þess að vera til yndisauka..
Lauftré taka upp mikið svifryk en þó einkum þegar þau eru allaufguð á sumrin. Birki er sérstaklega duglegur lofthreinsir enda blöðin klístruð og gróf viðkomu. Þegar laufið fellur af minnkar samanlagt yfirborð lauftrjánna þó mjög mikið. Sígræn barrtré fella hins vegar ekki lauf sitt (barrnálarnar) og því gegna þau þessu hreinsunarhlutverki sínu betur allt árið um kring. Ræktun sígrænna barrtrjáa mætti því auka verulega í þéttbýli á Íslandi til að berjast gegn loftmengun. Vert væri að skipuleggja gróðursetningu slíkra trjáa þegar nýjar umferðargötur eru lagðar og hverfi skipulögð. Einnig er mikilvægt að hugað sé að því hvernig auka megi trjágróður með fram helstu umferðaræðunum þar sem mesta hættan er á mengun.
Tré taka upp nituroxíð, óson og koltvísýring úr andrúmsloftinu en svifrykið sest á laufskrúð þeirra, greinar og stofn. Þau anda auðvitað líka eins og aðrar lífverur og láta því frá sér eitthvað af koltvísýringi og rokgjörnum lífrænum efnasamböndum. Meiru skiptir samt sem áður að þau binda í sér kolefnið úr koltvísýringnum en skila aftur súrefnissameindunum út í andrúmsloftið.
Í löndum þar sem orka er að mestu framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis og nýtt til að hita upp hús á vetrum en kæla á sumrum gagnast trén til að tempra hita þannig að minni orku er þörf til kælingar eða upphitunar. Þetta á ekki við á Íslandi með sama hætti. Auðvitað dregur skjól trjánna úr þörfinni fyrir upphitun en hér veldur það ekki auknum útblæstri gróðurhúsalofts því hér eru hús hituð upp með heitu vatni eða endurnýjanlegu rafmagni. Engu að síður má ímynda sér að spara mætti mikið eldsneyti á bíla ef skógur væri ræktaður við þjóðvegi þar sem vindstrengir auka eldsneytiseyðslu bílanna. Rétt er því að mæla með ræktun trjágróðurs til að draga úr umhverfisáhrifum af athöfnum okkar mannanna, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Við hönnun hvers konar mannvirkja ætti að vega og meta hvernig nýta mætti trjágróður til að gera umhverfið heilsusamlegra og fallegra og hamla gegn loftslagsvánni.
Loks er vert að benda á skógrækt sem aðferð til að draga úr áhrifum loftmengunar frá Hellisheiðarvirkjun á höfuðborgarsvæðinu. Stórt skógræktarsvæði milli Hellisheiðar og höfuðborgarinnar gæti mögulega dregið úr því að brennisteinssýra og köfnunarefnissýrur bærust til borgarinnar. Skógurinn á Hólmsheiði er vísir að slíkum lofthreinsi fyrir byggðina og því er mikilvægt að eyða honum ekki heldur stækka hann að mun. Jafnvel þótt erfitt sé að sýna vísindalega fram á hversu mikil áhrif skógarins yrðu nákvæmlega, er vitað að sígræn barrtré virka allt árið sem síur á skaðleg efni í andrúmsloftinu.
Sitkagreni í Norðurmýri í Reykjavík. Þetta tré getur safnað á sig miklu ryki
sem skolast af í rigningu í stað þess að lenda í vitum fólks..