Tré í þéttbýli geta dregið úr svifryksmengun, um leið og þau skapa skjól, draga úr kyndingarkostnaði, draga úr hávaðamengun og gæða borgir og bæi lífi og fegurð. Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin. Í vetur hefur mengun að völdum svifryks í Reykjavík verið töluvert í umræðunni. Einnig var mengun af völdum svifryks mikið áberandi á Akureyri á árinu.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins þann 6. desember s.l. að svifryk hafi farið 20 sinnum yfir heilsuverndarmörk á síðasta ári á stöðinni í Grensás í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

Svifryk er talin ein helsta orsök heilbrigðisvandamála sem rekja má til mengunar í borgum. Heilsuverndarmörk fyrir heilt ár eru 50 µg/m3 og að loftmengun fari ekki oftar yfir þau en í 35 skipti á þessu ári á einni mælingarstöð, en fjöldi skipta yfir heilsuverndarmörkum mun lækka á komandi árum samkvæmt reglugerð nr. 251/2002. Á næsta ári er leyfilegur fjöldi 29 skipti en árið 2010 verður hann kominn niður í 7 skipti. Fyrirsjáanlegt er því að yfirvöld verði að grípa til aðgerða á næstu árum. Reykjavíkurborg er að vinna að tillögum hvernig ráða megi bót á svifryksvandamálinu.


Ein þeirra leiða sem hægt er að fara til að berjast gegn svifryksmengun er aukin trjárækt í þéttbýli, ekki síst nærri umferðaræðum. Tré geta tekið upp svifryksagnir auk þess sem þær setjast í barr og lauf. Trjáreitir og skógar eru virkari en annar gróður við að fanga upp smásæar agnir úr andrúmsloftinu. Þær agnir skolast síðan niður í jarðveginn með regnvatni. Hlekkir inn á nokkrar innlendar og erlendar heimildir sem varða slík mál fylgja hér í lokin. Virðast barrtré vera einna mikilvirkust við að sía burt eða nema á brott svifryk úr andrúmsloftinu og eðlilega er bein fylgni á milli stærðar trjánna og græns yfirborðs þeirra. Kemur þá strax í hugann sitkagrenibeltið samsíða Miklubrautinni í Reykjavík (sjá efst á mynd).

Ef takast á að ná niður magni svifryks til að vernda heilsu þéttabýlisbúa, er hugsanlega hægt að stórauka gróðursetningu trjáa samsíða umferðaræðunum, samhliða þeim aðgerðum sem geta dregið úr losun þess andrúmsloftið. Þessi mál þyrfti að skoða frekar.  

Heimildir

Beckett, K. P.; Freer-Smith, P. H. & Taylor, G. 1998. Urban woodlands: their role in reducing the effects of particulate pollution. Environmental Pollution 99: 347-360.

Bjarni D. Sigurðsson, Ásrún Elmarsdóttir og Borgþór Magnússon. 2005. Áhrif skógræktar á sýrustig jarðvegs og gróðurfar. Fræðaþing landbúnaðarins 2005, bls. 303-306.

Yang, J.; McBride, J.; Zhou, J. & Sun, Z. 2005. The urban forest in Beijing and its role in air pollution reduction. Urban Forestry & Urban Greening 3: 65-78.

Kevin Beckett. Particulate pollution removal by urban trees.

Umhverfisstofnun. 2006. Loftmengunarefni - Svifryk.

 

Helsta heimild: „Tré og svifrik“. Frétt í 3. tbl. Laufblaðs (desember 2005) og fréttin „Tré og svifrik“ á vef Skógræktarfélags Íslands.