Trjáræktarsetur sjávarbyggða í Vestmannaeyjum?  Tilgangur setursins er að rannsaka áhrif særoks og loftslagsbreytinga á trjágróður og trjárækt á eyjum Norður Atlantshafs, einkum Íslandi, Færeyjum, Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum og Grænlandi, finna tegundir og þróa ræktunaraðferðir fyrir sjávarbyggðir og miðla þekkingu á trjá- og skógrækt á þessu svæði.

Áhrif særoks á trjágróður hafa verið rannsökuð í Vestmannaeyjum frá árinu 1995. Rannsóknirnar hófust með tilstyrk útibús Íslandsbanka (nú Glitnir) á staðnum. Þann 3. apríl s.l. birtist á vefútgáfu tímaritsins Tree Physiology grein um áhrif særoks á laufgun alaskaspar í Vestmannaeyjum. Greinin nefnist „Terminal bud failure of black cottonwood (Populus trichocarpa) exposed to salt-laden winter storms“ og er eftir Þorberg Hjalta Jónsson, skógfræðing. Greinin byggir á sex ára rannsóknum hans á þroska og afdrifum asparbruma í Vestmannaeyjum. Tré í Vestmannaeyjum vaxa vel en „kala“ flest nánast árlega. Niðurstöður greinarinnar sýna að á þessum sex árum var salt úr særoki aðal- og trúlega eina ástæða þess að asparbrumin laufguðust seint eða ekki.

Í greininni er sett fram eftirfarandi tilgáta um ástæður særoksskemmda: Saltúði sem sest á árssprota trjánna smýgur inn um börkinn og safnast fyrir undir brumunum. Meðan trén eru í dvala eru brumin lokuð frá þessum saltríka vef. Um leið og þau vakna á vorin tengist brumið við æðakerfið í sprotanum og við það flæðir salt inn í brumið. Í öspinni í Vestmannaeyjum tengist brumið sprotanum í lok febrúar eða byrjun mars. Örlög brumsins ráðast af því saltmagni sem hlaðist hafði undir brumið fram að þeim tíma. Eftir að brumin eru tengd æðakerfinu vöknar plöntuvefurinn hratt um leið og laufvísarnir vaxa. Því þynnist saltið í blöðunum. Þau brum sem ekki lamast strax og þau tengjast sprotanum ná því að laufgast þótt saltið tefji laufgunina. Þetta þýðir einnig að særok um hávetur hefur meiri áhrif en t.d. særok skömmu fyrir laufgun trjánna eða eftir laufgun. Saltið safnast mest undir fremstu brumin á ársprotanum og einkanlega í toppsprota trésins. Af þeim sökum veldur særokið því að trén hækka seint og verða hlykkjótt.

Samantekt úr greininni má lesa á vefsíðu tímaritsins Tree Physiology en aðgangur að greininni er lokaður öðrum en áskrifendum fyrst um sinn. Þeir sem vilja lesa greinina í heild sinni geta haft samband við höfundinn á hjalti@ni.is og fengið pdf-skjal með greininni sent í tölvupósti.