Trjávespur (Siricidae) eru algengar í barrskógum Evrópu og hafa reglulega borist hingað með innfluttum viði, einkum vörubrettum. Fyrstu heimildir um trjávespu hérlendis eru úr skýrslu Náttúrufræðifélagsins árin 1903-05 og í safni Náttúrufræðistofnunar er eintak blásveðju (Sirex juvencus) sem fannst í Reykjavík 1907. 

Trjávespur lifa á barrtrjám og eru það einkum furutré sem eru í hættu. Kvendýrin verpa eggjum sínum í holur sem þau bora í börk trjánna, einkum á gömlum og/eða deyjandi trjám. Í hverja holu verpir kvendýrið 1-5 eggjum, og allt að 350 eggjum í það heila. Eggin klekjast út og lirfurnar bora sig áfram eftir trénu með sterkum kjálkum.  Um leið og dýrið verpir, dælir það eitruðum sveppi og slími inn í holurnar sem lirfurnar lifa á og í kjölfarið sölna nálar trjánna og verða á endanum rauðar.  Lífsferill lirfa inni í trjábolnum getur tekið nokkur ár, en að lokum færir lirfan sig nálægt berkinum þar sem hún púpar sig og fullorðið dýr skríður út. Tegundin Sirex noctilio, sem er upprunin í Evrópu og Asíu, er talin ein af 10 verstu skordýraplágum í skógum á heimsvísu og hefur valdið miklum skaða í furuskógum Ástralíu, Nýja-Sjálands, Chile og Suður Afríku. Mögulegt er að hafa hemil á skaðvaldinum með því að nota skordýrasníkuþráðorm, Deladenus siricidicola. Þráðormurinn sýkir lirfur trjávespna og á endanum verða fullorðnu kvendýrin ófrjó. Ófrjóu kvendýrin verpa hins vegar eggjum sem eru full af þráðormum sem þannig breiðast út og sýkja fleiri lirfur.

Sem fyrr segir hafa trjávespur fundist hér á landi allt frá aldamótunum 1900. Hins vegar hefur hingað til ekki verið ljóst hvort trjávespur hafi tekið sér bólfestu í íslenskum skógum eða hvort þau dýr sem hér hafa verið skráð séu flökkudýr. Það eru einkum tvær tegundir sem hér hafa fundist, blásveðja (Sirex juvencus) og beltasveðja (Urocerus gigas). Líkur eru hins vegar á að amk hluti þeirra sýna sem hingað til hafa verið greindar sem blásveðja séu í raun tegundin Sirex noctilio, endar eru þessar tvær tegundir nauðalíkar. Bæði blásveðja og beltasveðja eru algengastar á suðvestan- og vestanverðu landinu og hafa einkum borist með innflutningi. Báðar tegundirnar leggjast á barrtré og er rauðgreni aðalhýsill tegundarinnar. Þær nýta sér þó einnig aðrar barrtegundir, eins og furu og lerki.

Við grisjun á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, sást greinilega að trjávespur eru teknar til við að nýta sér íslenska skóga. Í dauðum Evrópulerkibol sáust borför lirfanna og þegar betur var að gáð, voru lifandi lirfur inni í bolnum. Enn á eftir að tegundagreina dýrin og fylgjast með því hvernig lífsferill þeirra þróast hér á landi. Því er ekki vitað hvaða áhrif þessi tegund hefur á íslenska skóga.

Frekari heimildir

frett_24112011_1

Myndir og texti: Edda S. Oddsdóttir