Í Tunguskógi er sitkagreni og hvítsitkagreni (sitkabastarður) mjög vöxtulegt og skilyrði greinilega …
Í Tunguskógi er sitkagreni og hvítsitkagreni (sitkabastarður) mjög vöxtulegt og skilyrði greinilega góð.

Einn vöxtulegasti skógur Vestfjarða

Tunguskógur í Tungudal, skammt innan við byggðina á Ísafirði, er í alfaraleið og til­val­inn útivistar- og áningarstaður.  Í skóginum eru góðir göngustígar og rjóður með bekk­j­um og borðum. Löngum hefur verið vinsælt að fara „inn í skóg“ á sumrin í gönguferðir, berja- og sveppatínslu. Tunguskógur hefur verið kynntur undir merkinu Opinn skógur frá árinu 2004. Áskell Þórisson, útgáfu- og kynningarstjóri Landgræðslunnar, var á ferð í Tungudal í sumar og sendi með­fylg­j­andi myndir til birtingar á skogur.is  Eru honum færðar góðar þakkir fyrir.

Ræktun hófst um 1950

Verkefnið Opinn skógur hefur bætt aðgengi og aðstöðu í fjórtán skógum vítt og breitt um landið og er Tunguskógur gott dæmi um vel heppnaðan útivistarskóg. Hann vex í Tungudal sem er vestastur þriggja dala er ganga inn af Skutulsfirði, þar sem Ísafjarðarbær stendur. Í skjólgóðum dalnum er mikil veðursæld og ber gróðurinn þess glöggt merki. Í Tungudal eru sumarhús, tjaldsvæði, golfvöllur, skíðasvæði og stutt í fjölbreytta þjónustu Ísafjarðarbæjar. Bærinn Tunga, sem talinn er landnámsjörð, stendur í mynni dalsins.

Fallegt útsýni er úr Tunguskógi og margir góðir staðir til að njóta útivistar eða æja.

Í Tunguskógi er bæði náttúrlegur birki­skóg­ur og ræktaður skógur. Gróðursetning hófst þar árið 1950. Mest var plantað innan Bunár árin 1955-1965, en síðar út með hlíðinni ofan sumarhúsabyggðarinnar. Landið er að hluta til bratt og grýtt og hefur verið erfitt til ræktunar. Trjágróðurinn hefur hins vegar náð góðum þroska í hlíðum dalsins og er nú einn vöxtulegasti skógur Vestfjarða. Sérstaklega hefur sitkagreni og hvítsitkagreni vaxið vel, en einnig eru teig­ar með stafafuru, rússalerki og rauðgreni í skóginum. Byrjað var að grisja skóginn um 1980 og hefur því verið haldið áfram síðan.  

Simsonshjónin lögðu grunninn

Martinus og Gerda Simson fengu lóð inni í Tungudal árið 1926 til þess að byggja sér sumarhús og stunda garðrækt. Staðinn kölluðu þau Kornustaði og gerðu þar annálaðan unaðsreit með styttum, gosbrunnum, gullfiskum, mann­gerð­um helli, sundlaug og fjölbreyttum gróðri. Árið 1994 féll snjóflóð í Tungudal sem olli miklum skemmdum. Brotnuðu þá flest trén í garðinum. Strax var hafist handa við endurgerð garðsins. Eftir lát Simsons árið 1974 ánafnaði hann Skógræktarfélagi Ísafjarðar garðinn og hefur félagið annast hann síðan.  

Skógræktarfélag Ísafjarðar

Félagið var stofnað á nýársdag árið 1945 af áhugafólki um verndun skógarleifa og ræktun nýrra skóga og hefur félagið unnið að því óslitið síðan.





Heimild: Vefur Skógræktarfélags Íslands
Myndir: Áskell Þórisson