Húsgagnanámskeiðin sem haldin eru í samvinnu við Landbúnaðarháskólann eru orðin sígild og njóta allt…
Húsgagnanámskeiðin sem haldin eru í samvinnu við Landbúnaðarháskólann eru orðin sígild og njóta alltaf vinsælda.

Rótgróið samstarf Skógræktar ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands

Um helgina var haldið 20. námskeiðið á vegum Skógræktar ríkisins og Lbhí í húsgagnagerð úr skógarefni. Námskeiðið var haldið í húsaakynnum Skógræktar­félags Árnesinga á Snæfoksstöðum þar sem góð skemma hýsti 13 þátttakendur úr ýmsum áttum. Sumir komu af Suðurlandi, aðrir úr Reykjavík og enn aðrir áttu sumarhús á Suðurlandi. Smiðir voru áberandi margir á námskeiðinu.

Á námskeiðunum byrja þátttakendur á því að læra „öruggu hnífsbrögðin“ sem Guðmundur Magnússon á Flúðum sótti til Dalanna í Svíþjóð, gera litlar frummyndir að húsgögnum eða dýrum til að undirbúa sig við að setja saman þurrt grannt fótaefni og fjalir í bekk eða þversneið í kollsetu.


Þá búa þátttakendur til sinn eigin tréhamar til að nota við að setja saman hluti eða til að kljúfa í eldivið eða við tálgun. Í hamrinum eru tvær viðartegundir, reyniviður í hausnum og grenigrein í skaftinu. Þar nýtast eiginleikar tegundanna best, reynirinn vegna eðlisþyngdar sinnar og höggþolni og styrkur og lítil þyngd sitkagrenisins í skaftinu.

Flestir þátttakendur töluðu um að nám­skeiðið hefði verið fróðlegt, skemmtilegt og afslappandi. Sumir óskuðu þess að nám­skeiðið hefði verið lengra eða að í boði yrði framhaldsnámskeið.

Alls hafa því um 250 manns sótt þessi námskeið sem einnig hafa verið haldin í Vaglaskógi og á Hallormsstað. Auk þess hafa þátttakendur í fræðsluverkefninu Grænni skógum kynnst þessari gerð húsgagnasmíði.

Leiðbeinendur voru þeir Ólafur G.E.Sæmundsen, Ólafur Oddsson og Björgvin Eggertsson.



Texti og myndir: Ólafur Oddsson