Grein eftir Þröst Eysteinsson, sviðsstjóra þjóðskóganna, skógfræðing og fuglaáhugamann. Birtist fyrst í Morgunblaðinu, 5. september 2011.
Áhyggjur um að verið sé að fórna mófuglum á altari skógræktar eru úr lausu lofti gripnar.
Umhyggja fyrir náttúrunni tekur stundum á sig þá mynd að fólk lýsir áhyggjum sínum af breytingum sem áhrif gætu haft á hana. Áhyggjur, séu þær vel ígrundaðar, studdar vísindalegri þekkingu og góðum rökum, eiga rétt á sér, en síður þær sem byggðar eru á hleypidómum eða ógnarrökum. Áhyggjur sem eiga sér ekki stoð í hlutlægum raunveruleika ber að leiðrétta.
Nýverið hafa birst á síðum Morgunbladsins áhyggjur af áhrifum skógræktar á mólendi, sérstaklega mólendisfugla, annars vegar í viðtali Rúnars Pálmasonar við Tómas G. Gunnarsson 2. ágúst s.l. undir fyrirsögninni Meta ekki fórnirnar við skógræktina og síðan endurómar Sigmar B. Hauksson þær áhyggjur í greininni Eftir bestu vitund 14. sama mánaðar. Í stuttu máli eiga þessar áhyggjur sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Fyrirsögnin Meta ekki fórnirnar við skógræktina er hreinlega röng og má í því sambandi benda á niðurstöður Skógvistar; viðamikils rannsóknaverkefnis á vegum Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, um þær margháttuðu breytingar sem verða á lífríki og vistkerfum við skógrækt. Önnur rannsóknaverkefni hafa skilað niðurstöðum um raunverulegt umfang skógræktar á mismunandi landgerðum og áhrif skógræktar á vatn, lífríki rofins lands, jarðveg og margt fleira. Staðreyndin er sú að afleiðingar skógræktar fyrir umhverfið eru vel þekktar, þ.m.t. hinar meintu fórnir.
Fórnirnar sem hér um ræðir eru einkum þær að sumar fuglategundir sem verpa á berangri verpa ekki í skógum og þar sem stærstur hluti skógræktar fer fram á mólendi telja sumir að búsvæði svonefndra mófugla skerðist vegna aukinnar útbreiðslu skóga. En sú skoðun að aukin skógrækt hafi neikvæð áhrif á stofnstærðir þessara tegunda byggist annars vegar á þeirri forsendu að framboð á hentugu varplandi fari minnkandi og hins vegar á því að það sé framboð á varplandi sem takmarki stofnstærðir þeirra, en ekki t.d. afrán, afföll á vetrarstöðvum eða eitthvað allt annað.
Ýmsir þættir aðrir en skógrækt hafa áhrif á varplönd mófugla. Þekkt að búfénaður stígur á hreiður og að sauðfé éti egg úr hreiðrum. Margfalt stærri lönd eru nýtt til beitar en skógræktar, því er ekki úr vegi að ætla að beitarnytjar hafi meiri áhrif á stofnstærðir mófugla en skógrækt. Á móti kemur að uppgræðsluaðgerðir víða um land hafa leitt til þess að auðnir breitist í gróðurlendi sem henta mófuglum. T.d. verpa lóur, spóar og þúfutittlingar nú á Hólasandi, en engin þeirra varp þar fyrir 15 árum síðan. Landgræðsla er stunduð á talsvert stærri svæðum en skógrækt og það er vel hugsanlegt að framboð á varplandi sem hentar mófuglum sé að aukast frekar en hitt. Ekki er vitað hver heildaráhrif landnýtingar á mófugla eru, en það er undarlegt að gera því skóna að sá þáttur sem notar hvað minnst land hafi hvað mest áhrif.
Engin gögn liggja fyrir sem benda til þess að flatarmál mögulegs varplands ráði mestu um stofnstærðir þessarra tegunda hér á landi. Þvert á móti liggur ýmislegt fyrir um aðra orsakavalda. Sem dæmi má benda á gríðarlegar stofnstærðarsveiflur rjúpu, sem hafa ekkert með flatarmál mögulegs varplands að gera. Þessi skortur á orsakasamhengi gerir það að verkum að áhyggjurnar um að verið sé að fórna mófuglum á altari skógræktar eru úr lausu lofti gripnar.
Gagnrýnt er að skógrækt sé ekki nægilega vel skipulögð og kallað eftir stjórnvaldsákvörðunum um hvar rækta skuli skóg og hvar ekki á landsvísu frekar en að það ráðist að miklu leyti af áhuga landeigenda eins og nú er. Þar gerir Tómas sig sekan um sömu villu og hann ásakar skógræktarfólk um, að skoða einungis jákvæðu hliðarnar en horfa framhjá þeim neikvæðu. Valdboð að ofan um hvar skuli rækta skóg og hvar ekki gæti hugsanlega leitt til aukinnar hagkvæmni í skógrækt og myndi auðvelda landslagshönnun á stórum svæðum, en á móti kæmi misrétti gagnvart landeigendum og fórnarkostnaður sem fælist í því að áhugi magra á að rækta skóg nýttist ekki í þágu skógræktar. Ekki ber að vanmeta þátt áhuga skógræktandans í árangri í skógrækt.
Kröfu um aukið skipulag ber einnig að skoða í samhengi við ástandið á öðrum sviðum landnýtingar. Öll ríkisstyrkt skógrækt (sem er um 95% af allri skógrækt) er háð samningum um land, skógræktaráætlunum gerðum af fagfólki og getur í vissum tilfellum verið háð mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi. Til samanburðar eru um 70% landsins nýttir til sumarbeitar búfjár án þess að hún sé á nokkurn hátt skipulögð m.t.t. landgæða eða verndun búsvæða fugla. Þótt alltaf megi gera betur er það þó hafið yfir allan vafa að stærstur hluti skógræktar er mun betur skipulagður m.t.t. landgæða, náttúruverndarsjónarmiða og landslags en þær gerðir landnýtingar sem nota mest land á Íslandi, þ.m.t. hefðbundinn landbúnaður og náttúruvernd.