Morgunblaðið, Sunnudaginn 23. febrúar, 2003 - Aðsendar greinar:
Um náttúrunot og náttúruvernd, eftir Jakob Björnsson, fyrrv. orkumálastjóra
"Hvernig á að greiða úr árekstrum milli mismunandi náttúrunota? Á sama hátt og greitt er úr árekstrum milli góðrar vöru og ódýrrar vöru; traustra mannvirkja og ódýrra; frelsis og öryggis: Með málamiðlun."
Inngangur
Nú á tímum er mikið rætt og deilt um nýtingu og verndun náttúrunnar. Mér virðist að sú umræða sé á margan hátt ómarkviss og óskýr og að menn tali þar mikið hver framhjá öðrum. Hér á eftir verður gerð tilraun til að skýra þetta viðfangsefni og skilgreina það betur en almennt sést í umræðu um þessi mál með það að markmiði að gera umræðuna markvissari.
Náttúra
Þetta er margrætt orð sem hefur a.m.k. fjórar merkingar:
1. Allur hlutveruleikinn (objective reality), þ.e. allur sá veruleiki sem maðurinn fær skynjað, annaðhvort beint með skynfærunum eða með milligöngu tækja.
2. Allur hlutveruleikinn að undanskildum manninum og verkum hans.
3. Eðli hlutanna, fremur en þeir sjálfir (Lofttegundir eru þeirrar "náttúru" að dreifa sér um allt það rými sem þeim er hleypt inn í).
4. Kynhvöt.
Í því sem hér fer á eftir koma merkingar 3 og 4 ekki við sögu heldur aðeins 1 og 2.
Merking 1 er víðtækasta merking orðsins. Þar eð maðurinn er að sjálfsögðu hluti af hlutveruleikanum leiðir af því að hann er hluti af náttúrunni í þeirri merkingu. En með því að hann er á margan hátt sérstæður hluti náttúrunnar, og að stundum er þörf á að aðgreina hann frá öðrum hlutum hlutveruleikans, er orðið náttúra oft haft í þeim þrengi skilningi sem felst í merkingu 2. Þetta á einkum við þegar þörf er á að ræða um samskipti mannsins við aðra hluta náttúrunnar í merkingu 1. Samkvæmt skilgreiningu er maðurinn ekki hluti af náttúrunni í merkingu 2.
Merking 2 er algengasta merking orðsins. Ávallt þegar talað er um mann og náttúru, samskipti manns við náttúruna og yfirleitt ávallt þegar maður og náttúra eru aðgreind er orðið í merkingu 2. Sömuleiðis þegar orðið er í samsetningum eins og náttúruvernd, náttúrunot o.s.frv. er það í merkingu 2. Mannvernd er annað en náttúruvernd og mannvirkjavernd enn annað.
Stundum má sjá heimspekilegar vangaveltur um hvort maðurinn sé hluti af náttúrunni eða ekki. Slíkt er ekki efni í heimspekiumræður heldur er það skilgreiningaratriði.
Eitt er nauðsynlegt að hafa í huga: Náttúran, í merkingu 2, er ekki stöðugt fyrirbrigði heldur síbreytilegt. Hún er aldrei í kyrrstöðu. Aldrei eitt augnablik í "sátt" við sjálfa sig. Sumar breytingarnar eru að vísu mjög hægar á mannlegan tímakvarða en aðrar aftur á móti svo hraðar að þær ofbjóða viðbragðsgetu mannsins. Og allt þarna á milli. Sama breytingin getur verið hæg í einn tíma en hröð í annan tíma. Hamfarahlaup í straumvatni getur t.d. breytt farvegi þess meira á fáeinum vikum en venjulegt rennsli þess gerir á þúsund árum. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um náttúruvernd. En þetta gleymist oft með öllu og menn tala eins og náttúran sé eitthvað stöðugt og óumbreytanlegt.
Náttúrunot
Með nýtingu á náttúrunni (í merkingu 2), þ.e. náttúrnotum, er átt við hverskonar viðleitni manna til að uppfylla mannlegar þarfir, efnislegar jafnt sem andlegar, með aðstoð náttúrunnar eða hluta hennar.
Það sem stundum er nefnt að njóta náttúrunnar, þ.e. að uppfylla fagurfræðilegar og aðrar andlegar þarfir manna með aðstoð hennar, telst því ein tegund nýtingar á náttúrunni. Ein tegund náttúrunota.
Þær mannlegu þarfir sem talað er um í skilgreiningunni á nýtingu náttúrunnar eru afar margvíslegar. Í fyrsta lagi efnislegar þarfir, svo sem fæða fyrir menn og húsdýr, klæði, efni til mannvirkja, orka, hráefni í iðnaðarvarning og annað þess háttar. Í öðru lagi eru þarfir á að svala eðlislægri forvitni mannsins um einstaka hluta náttúrunnar og hana í heild. Í þriðja lagi hefur maðurinn eðlislæga þörf fyrir að umgangast náttúru sem er ósnortin af athöfnum hans og skoða hana fyrir sakir fegurðar, mikilfengleika eða sérkenna, í því skyni að lyfta sér yfir hið hversdagslega.
Meðan mestur hluti mannkyns bjó í strjálbýli voru þessar síðasttöldu þarfir uppfylltar af sjálfu sér í daglegu lífi mannsins. Öðru máli gegnir um borgarbúa nútímans sem vinnur að mestu innanhúss og ekur um manngert umhverfi milli vinnustaðar og heimilis kvölds og morgna flesta daga ársins. Hann þarf að gera sér ferð út í náttúrulegt umhverfi til að uppfylla þær. Í mjög þéttbýlum löndum er ósnortið náttúrulegt umhverfi orðið sjaldgæft.
Fyrsttöldu þarfirnar má kalla einu nafni efnahagslegar þarfir, hinar næsttöldu þekkingarþarfir og hinar síðasttöldu fagurfræðilegar þarfir. Allar eru þær til staðar hjá heilbrigðum manni.
Sökum þess hve not mannsins af náttúrunni eru margvísleg og innbyrðis ólík rekast þau iðulega á og þar verður því að velja og hafna. Þetta er alþekkt. Eitt og sama landssvæðið verður ekki bæði notað undir flugvöll og íbúðabyggð (árekstur tvennra efnahagslegra nota). Gróið land sem tekið er undir miðlunarlón getur skert sumarbeit búfjár og þar með afkomu bænda (efnahagsleg not) og virkjun getur skert laxveiði í á og þar með bæði tekjur veiðiréttareigenda (efnahagsleg not) og nautn laxveiðimanna af útivist og veiðum (fagurfræðileg not).
Vegna þess hve náttúrunot eru margvísleg og ólík getur ein og sama aðgerðin ýmist falið í sér náttúruvernd eða náttúruspjöll (sjá hér á eftir). Eftir gosið í Vestmannaeyjum fjarlægðu Vestmannaeyingar gjóskuna af kolli Heimakletts af slíkri natni að við liggur að segja megi að þeir hafi burstað hann með tannbursta. Að fjarlægja gjósku í Surtsey hefði hinsvegar talist hin verstu náttúruspjöll. Í Vestmannaeyjum var þörfin sú að hafa Heimaklett óbreyttan frá því fyrir gos en í Surtsey var hún að svala mannlegri forvitni á að vita hvernig land nýrisið úr hafi breytist án allra afskipta mannsins.
Náttúruvernd
Náttúruvernd er hverskonar ráðstafanir manna til að hindra eða draga úr breytingum í náttúrunni sem rýra, eða geta rýrt, einhverskonar nýtingu þeirra á henni og ráðstafanir sem miða að því að styðja breytingar, eða koma af stað breytingum, sem efla, eða geta eflt, slíka nýtingu.
Þær beytingar sem í skilgreiningunni er talað um að hindra eða draga úr eru oft nefndar einu nafni "náttúruspjöll". Þau geta verið hvort heldur af völdum náttúrunnar sjálfrar eða af mannavöldum.
Náttúruvernd er hér skilgreind í samræmi við almenna merkingu orðsins vernd, sem er að koma í veg fyrir óæskileg áhrif eða óæskilegar breytingar en stuðla að æskilegum áhrifum og breytingum. Að vernda æskuna felur t.d. í sér að koma í veg fyrir að æskumenn breytist í áfengis- eða eiturlyfjasjúklinga og að stuðla að því að þeir að verði heilbrigðir og nýtir þjóðfélagsþegnar.
Skilgreiningin á náttúruvernd miðast við hagsmuni og sjónarmið mannsins, borins og óborins. Hún miðast við not mannsins af náttúrunni, þar sem það orð er haft í þeirri víðtæku merkingu sem rætt er um hér að ofan. Öll náttúruvernd er í þágu mannsins einvörðungu. Náttúran sjálf (í merkingu 2) hefur enga þörf fyrir vernd mannsins. Hún spjaraði sig án hennar í milljarða ára áður en nokkur maður kom til sögunnar. Hún er "blind"; breytir og umbyltir sjálfri sér óaflátanlega án nokkurrar "fyrirhyggju". Án minnsta tillits til afleiðinga þeirra breytinga og þess, hvort manninum líkar þær betur eða ver. Í þessum umbyltingum sínum hefur náttúran í tímans rás tortímt mjög mörgum tegundum lífvera.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að öll átök og árekstrar út af náttúruvernd, eins og við þekkjum þá af umræðum í blöðum og annarsstaðar, eru í raun átök milli mismunandi náttúrunota. Maðurinn og þarfir hans skipta hér ein máli en ekki einhverjir þokukenndir "hagsmunir náttúrunnar". Einungis menn hafa hagsmuni. Þeir, einir allra lífvera, eru færir um að leggja mat á hag sinn og hvað verða má honum til framdráttar. En vel að merkja: Ekki er aðeins um að ræða hagsmuni núlifandi manna heldur einnig eftirkomendanna.
Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að möguleikar mannsins til náttúruverndar, þ.e. möguleikar hans til að koma í veg fyrir óæskilegar breytingar, eða draga úr þeim, og til að stuðla að æskilegum breytingum, eða koma þeim af stað, eru mjög takmarkaðir. Þótt maðurinn, með alla tækni nútímans, hefði verið til staðar á síðustu tímum risaeðlanna hefði hann ekki getað komið í veg fyrir að þær dæju út. Hann hefði heldur ekki getað komið í veg fyrir Skaftáreldana á sínum tíma. Hinsvegar hefði hann líklega getað komið mikið til í veg fyrir afleiðingar móðharðindanna.
Samræming náttúrunota
Sem fyrr segir rekast mismunandi not mannsins af náttúrunni iðulega á. Slíkir árekstrar eru þó ekkert einkennandi fyrir mismunandi náttúrunot. Margvísleg markmið mannsins og mismunandi óskir rekast margoft á. Við viljum góðar vörur en líka ódýrar vörur. Við viljum traust og örugg mannvirki sem eiga líka að vera ódýr. Við viljum frelsi og við viljum líka öryggi. Við viljum að flugferðir gangi fljótt og greiðlega fyrir sig en við viljum líka vera örugg um borð. Það tvennt fer ekki ávallt saman, eins og við erum áþreifanlega minnt á á yfirstandandi hryðjuverkatímum, þar sem flugfarþegar þurfa sums staðar að mæta þremur tímum fyrir brottför og tína hvern hlut upp úr töskunum til að sýna öryggisvörðum. Allir vilja getað notað hluti úr áli en margir vilja ekki sjá álver. Og nota rafmagn en vilja hvergi virkjanir. Ýmsir sem borða kjöt með bestu lyst eru algerlega andvígir dýradrápi.
Hvernig á að greiða úr árekstrum milli mismunandi náttúrunota? Á sama hátt og greitt er úr árekstrum milli góðrar vöru og ódýrrar vöru; traustra mannvirkja og ódýrra; frelsis og öryggis: Með málamiðlun. Æskilegt væri að sjálfsögðu að geta mælt mismunandi náttúrunot á sama kvarða. Þá gætum við hámarkað, eða bestað, heildarávinning þeirra. Ennþá er enginn slíkur mælikvarði til. Þar til hann finnst verðum við að styðjast við lýðræðislegt ákvarðanaferli, t.d. með því að fela lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings að skera úr ágreiningi.