Samkvæmt landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), mætti skapa tíu milljónir „grænna starfa“  með auknum fjárfestingum í sjálfbærri vörslu skóga (e. sustainable forest management).  „Eftir því sem fleiri störf tapast vegna samdráttar efnahagslífsins í heiminum, gæti aukin áhersla þjóðríkja á sjálfbæra vörslu skóga orðið til þess að skapa milljónir nýrra og ‘grænna' starfa og jafnframt  orðið til þess að draga úr fátækt og bæta umhverfið,“ segir Jan Heino, aðstoðarforstjóri hjá FAO og yfirmaður skógræktardeildar stofnunarinnar. „Þar sem skógar og tré eru mikilvæg forðabúr bundins kolefnis, gæti slík fjárfesting einnig lagt ríkulega af mörkum til að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum að mannavöldum og styrkt í sessi aðgerðir til að laga sig að þeim breytingum.“ 

Samkvæmt nýlegri rannsókn Alþjóða vinnumálastofnunarinna, gæti atvinnulausum í heiminum fjölgað úr 179 milljónum árið 2007 í 198 milljónir árið 2009 miðað við bjartsýnustu spár, en í 230 milljónir miðað við svartsýnustu spár. Aukin fjárfesting í skógrækt gæti skapað ný störf við umhirðu og nýtingu skóga, landbúnaðarskógrækt (e. agroforestry) og bændaskóga, bættar varnir gegn skógareldum, við stígagerð og gerð útivistaraðstöðu í skógum, fjölgun útivistarskóga í þéttbýli, endurreisn skóga sem spillst hafa af mannavöldum og ræktun nýrra skóga. Aðgerðir mætti sníða að aðstæðum og ástandi á hverjum stað, s.s. framboði á vinnuafli, færni og þekkingu, og laga að staðbundnum félagslegum, hagrænum og vistfræðilegum aðstæðum.

Mörg lönd, þ.á.m. Bandaríkin og Suður-Kórea, hafa stofnað til slíkra skógræktartengdra verkefna í nýlegum aðgerðum sínum til þess að örva hagvöxt og draga úr kreppu og atvinnuleysi. Skóggræðsla (ræktun nýrra skóga) er einnig mikilvægur þáttur í áætlun indverskra stjórnvalda um eflingu atvinnulífs í dreifbýli. Samkvæmt greiningu FAO, eru raunhæfir möguleikar á því að skapa a.m.k. 10 milljónir nýrra starfa með fjárfestingum í skógrækt innan þjóðríkja. Á sama tíma gæti bætt varsla skóga og nýgróðursetning gegnt þýðingarmiklu hlutverki við að draga úr skógeyðingu í mörgum löndum. Slíkt myndi um leið draga úr þeirri miklu losun kolefnis út í andrúmsloftið sem víða á sér stað vegna breyttrar landnýtingar og gæti slíkt haft meiri og jákvæðari áhrif í þá átt draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum en aðrar aðgerðir sem núverandi heimsleiðtogar velta fyrir sér eða hafa uppi áform um.
 

Megináherslan Skógarvikunnar (e. World Forest Week) 16.-20. mars, verður að kanna hvernig sjálfbær varsla skóga geti hjálpað til við að byggja græna framtíð og mæta breyttum kröfum samfélagsins um afurðir og þjónustu skóga. Gro Harlem Brundtland, sérstakur erindreki S.Þ. á sviði loftslagsbreytinga, mun flytja inngangsræðu á fundi sem haldin verður í tengslum við skógarvikuna. Hún mun leggja áherslu á mikilvægt hlutverk skóga við að mæta þeim ögrunum fyrir mannkyn sem felast í loftslagsbreytingum.

Fundurinn verður haldinn á tímum efnahagskreppu sem á sér fá fordæmi. Skógargeirinn hefur ekki farið varhluta af kreppunni og munu upplýsingar um afleiðingar kreppunnar birtast í skýrslu FAO um „Ástand skóga heimsins 2009“ sem kynnt verður í upphafi fundarins þann 16. mars n.k. Engu að síður er ljóst að skógargeirinn getur lagt mikið af mörkum við að draga úr efnahags- og umhverfiskreppunni í heiminum.

 


Frétt: Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.