Efnilegar trjáplöntur í verðandi skóg.
Efnilegar trjáplöntur í verðandi skóg.

Rakel J. Jónsdóttir skógfræðingur skrifar um mikilvægi þess að fara vel með skógarplöntur frá afhendingu og þar til þær eru gróðursettar

Þróttmiklar skógarplöntur eru ein af undirstöðum árangursríkrar skógræktar. Heilbrigðar plöntur eru betur í stakk búnar til þess að takast á við aðstæður á gróðursetningarstað sem oftast eru mun óblíðari en þær aðstæður sem ríkja í gróðrarstöðinni þar sem plöntum er séð fyrir vatni, næringu og skjóli. Í grein í Bændablaðinu gefur Rakel J. Jónsdóttir, skógfræðingur og skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, leiðbeiningar um góða umhirðu skógarplantna frá afhendingu til gróðursetningar.

Grein Rakelar birtist í Bændablaðinu 12. apríl og er á þessa leið:

Líklegra er að þróttmikil og heilbrigð skógarplanta komist á legg en sú sem þegar er veikluð við gróðursetningu og því til mikils að vinna að koma skógarplöntum hraustum í jörðina.

Ferlið frá því að plöntur yfirgefa gróðrarstöð og þar til búið er að gróðursetja þær er viðkvæmt. Margt getur farið úrskeiðis sem verður svo til þess að skógarplantan er ekki eins þróttmikil og hún gæti verið þegar til gróðursetningar kemur.  Hér er dregið fram hvernig standa verður að flutningi skógarplantna og hvernig er best að hugsa um skógarplönturnar heima á hlaði meðan þær bíða gróðursetningar.

Gróðursetja sem fyrst

Fyrst bera að nefna að það er alltaf best að gróðursetja plöntur sem allra fyrst eftir að þær eru sóttar. Ef plöntur eru geymdar of lengi heima við gengur á næringarforða þeirra vegna þess að þar eru þær aðeins vökvaðar með áburðarlausu vatni.

Í gróðrarstöðvum eru plöntur alltaf vökvaðar með áburðarvatni. Grámygla í barri getur verið fylgifiskur langrar geymslu en hún skemmir laufblöð og barr og plantan hefur þá ekki eins mikinn laufmassa til að ljóstillífa til vaxtar og orkusöfnunar. Svo má nefna að vaxtarsproti plantna verður brothættari eftir því sem hann lengist, sérstaklega á stafafuru og greni, svo því lengur sem plöntur bíða í geymslu því meiri hætta er á að vaxtarsprotinn brotni við það hnjask sem gróðursetningu fylgir.

Flytja í lokuðu rými

Ef plöntur eru fluttar heim í opinni kerru eða á palli verður gríðarleg uppgufun úr barri og laufi vegna vindálags, svo mikil að það getur stórskaðað smávaxnar plönturnar jafnvel þótt leiðin sé stutt. Þess vegna skal alltaf flytja þær í lokuðu rými.

Meðhöndla bakka varlega

Rannsóknir hafa sýnt að það getur dregið verulega úr rótarvexti bakkaplantna ef bökkunum er hent harkalega niður1, 2. Því verður alltaf að leggja bakkana varlega frá sér og forðast þannig að valda skaða sem getur dregið úr hæfni plantnanna til að mynda rætur eftir gróðursetningu.

Slétt, hart undirlag

Rótarhnaus plantna þornar frekar ef loftar undir bakkana. Því er mikilvægt að raða þeim á slétt undirlag þannig að allur neðri flötur bakkanna liggi á undirlaginu. Halli bakkinn vegna óslétts undirlags rennur vökvunarvatnið frekar af honum í stað þess að síga niður í rótarhnausana. Mikilvægt er að raða bökkunum þétt saman. Þannig er komið í veg fyrir að loft leiki á milli bakka og um leið dregið úr uppgufun frá þeim.

Gott er að hrófla möl upp að köntum bakkabreiðunnar eða setja fjalir með fram köntunum. Kantarnir þorna upp fyrst og draga má úr þeirri þornun með því að verja kantana sérstaklega með þessum hætti.

Skjól og skuggi

Velja þarf bakkaplöntunum geymslu­­stað í skjóli. Vindur eykur uppgufun úr barri og laufi plantna og við það verður meiri þörf á vökvun og meiri hætta á skemmdum. Betra er að staðsetja plöntur í skugga, fremur en að hafa þær sunnan undir vegg þar sem sólarinngeislun er mest. Í skugganum dregur úr vökvunarþörf. Aldrei skal þó geyma plöntur í útihúsi eða skemmu því dagsbirtan er plöntunum nauðsynleg til orkusöfnunar.

Rétt tæki til vökvunar

Mikilvægt er að byrja strax með jafna vökvun til þess að geta fylgst betur með því að öll bakkabreiðan sé í lagi. Jöfn vökvun næst með því nota úðara sem hægt er að stilla upp við eða inni í bakkabreiðunni. Með útbúnaði sem þessum þarf ekki að standa yfir plöntum með stút á slöngu meðan á vökvun stendur. Tryggja þarf að vökvunarúðinn nái yfir alla bakkabreiðuna í hvert sinn sem vökvað er og taka þá tillit til áhrifa vinds á úðann hverju sinni. Gott er þó að eiga líka handúðara framan á slöngu til að grípa til ef í ljós kemur að aðeins kantar bakkabreiðunnar þurfa vökvun.

Hvenær á að vökva?

Hér vandast málið. Feta verður gullinn meðalveg í vökvuninni, því eins og það er hægt að vökva of lítið, er líka hægt að vökva of mikið og of oft. Stöðugur raki í blaðmassa bakkabreiðunnar býður heim hættunni á grámygluskemmdum. Kjöraðstæður hennar eru raki og hiti og því er nauðsynlegt að blaðmassinn nái að þorna á milli þess sem vökvað er. Ekki ætti að setja sér markmið um það að rótarhnausinn sé alltaf rennblautur eins og hann er þegar hann er nývökvaður, heldur að vatnið nái að minnka í rótarhnaus á milli þess sem vökvað er með uppgufun úr plöntunni og ræktunarefninu í rótarhnausnum.

Vökvunarþörf er jafnan metin með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að handfjatla rótarhnausa plantnanna og finna með því hvort yfirborð moldarinnar er rakt viðkomu. Ef rótarhnausinn er kreistur laust og vatn rennur úr honum er ekki þörf á að vökva (sama aðferð er notuð til þess að meta hvenær er búið að vökva nóg).

Sé rótarhnausinn hins vegar léttur og ekkert vatn rennur úr honum þegar hann er kreistur er ráðlegt að vökva. Hér verður að hafa varann á sér því ef rótarhnausinn þornar of mikið getur reynst erfitt að fá ræktunarefnið til að draga aftur vatn í sig og þá er plantan þegar komin í hættu. Yfirborð rótarhnausa má því aldrei verða þurrt viðkomu.

Í öðru lagi má nota þá aðferð að vega allan bakkann í hendi sér. Og byggja þannig smám saman upp tilfinningu fyrir því hvað nývökvaður bakki vegur í hendi og á móti hvað bakki vegur í hendi sem kominn er tími til að vökva. Í gróðrarstöðvum er þessi aðferð notuð með nákvæmari hætti. Fullvökvaður 40 gata plöntubakki vegur 2,5 kg. Þegar þungi bakkans er komin niður í 1,9 kg er kominn tími á vökvun.

Alltaf skal kanna ástand rótarhnausa í kanti fyrst, en teygja sig svo inn í bakkabreiðuna og kanna ástand rótarhnausa þar líka áður en tekin er ákvörðun um að vökva alla bakkabreiðuna. Ef aðeins plöntur í kantinum eru komnar á vökvunarstig má nota stút framan á slöngu til að vökva kantinn og sleppa því þá að láta úðarann ganga yfir alla breiðuna með tilheyrandi hættu á grámygluvexti.

Hvenær er vökvun orðin nægjanleg?

Varast skal að vökva meira en svo að nægi til þess að bleyta rótarhnausinn vel upp. Ef vatnið er látið ganga á plöntum lengi hefur það í för með sér óþarfa kælingu á plöntunum auk þess sem rótarhnaus getur orðið laus í sér og næringarefni í moldinni skolast alveg út. Til þess að kanna hvort búið sé að vökva nóg eru nokkrir rótarhnausar valdir af handahófi og kreistir laust í hendi. Ef vatn rennur auðveldlega úr þeim er búið að vökva nóg.

Dagleg vöktun

Á meðan plöntur bíða gróðursetningar verður að athuga vökvunarþörf á hverjum degi, sérstaklega ef sólar nýtur. En hafa ber í huga að þó hann rigni, rignir mögulega ekki nóg til að væta vel í bökkunum. Þetta verk krefst ekki mikils tíma á hverjum degi en þeim tíma er vel varið því natni við verðandi skóg skilar sér í betri lifun og vexti og þar með arði af dagsins amstri.

Heimildir

  • Helen M. McKay o.fl (1999). The effect of desiccation and rough-handling on the survival and early growth of ash, beech, birch and oak seedlings. Annals of Forest science. Vol 56, nr 5. Bls. 391-402
  • J.D. Deans o.fl (1990). The influence of desiccation, rough handling and cold storage on the quality and establishment of Sitka spruce planting stock. Forestry, Vol. 63, nr. 2, bls. 129-141.

Rakel J. Jónsdóttir, skógræktarráðgjafi Skógræktarinnar í Suður- og Norður- Þingeyjarsýslum