Á vefsíðu sinni ritar Egill Helgason í dag eftirfarandi pistil um nýútkomna bók Jareds Diamond ("Collapse - How Societies Chose to Fail or Survive").

Ég pantaði á Amazon bók sem heitir Collapse - How Societies Chose to Fail or Survive eftir bandaríska landafræðinginn Jared Diamond. Þetta er langt og ansi stórt í sniðum - Diamond er maður með stóra sýn á mannkynssöguna og dregur saman mikið af fróðleik til að renna stoðum undir hana.

Þema bókarinnar er samspil manns og umhverfisins, hvernig sum samfélög hafa lifað af þrátt fyrir umhverfisógnir og náttúruspjöll en önnur hafa tortímst. Þarna er til dæmis kafli um Ísland (vegna gróðureyðingar er Ísland talið meðal landsvæða sem verst voru leikin af íbúum sínum á fyrri tíð) og afdrif norrænna manna á Grænlandi.

Enn er ég þó ekki kominn lengra en að lesa um þann dularfulla stað Páskaeyju.

Á þessari afskekktu eyju varð eitthvert versta umhverfisslys allra tíma. Íbúarnir sem komu þangað með nokkuð ótrúlegum hætti frá Pólynesíu eyddu smátt og smátt öllum skógi á eyjunni og útrýmdu dýrategundum uns lítið sem ekkert var eftir til að lifa af. Diamond veltir fyrir sér hvað þeir hafi hugsað þegar þeir felldu síðasta tréð - kemur kannski brátt ný tækni sem leysir vandamál okkar, við finnum bara eitthvað annað en tré?

Þegar íbúar Páskaeyju voru flestir voru þeir líklega um 15 þúsund talsins og reistu hinar mikilfenglegu styttur sem hafa verið mikil ráðgáta. Síðan hófust voðatímar þegar náttúruauðlindirnar þvarr, vindar gnauðuðu um eyjarnar, þeir lögðust í mannát og stanslausan ófrið - hann fólst meðal annars í því að fella stytturnar fyrir óvinunum. Síðar urðu þeir fórnarlömb pesta og þrælakaupmanna frá Suður-Ameríku. 1872 voru ekki nema 111 eyjarskeggjar eftir.