Úr Þórsmörk. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Alls er gert ráð fyrir að rúmar 100 milljónir króna renni næstu þrjú árin til uppbyggingar á aðstöðu fyrir gesti í þjóðskógunum sem eru í umsjón Skógræktarinnar. Tæpur helmingur framlaganna rennur til áframhaldandi uppbyggingar og viðhalds á Þórsmerkursvæðinu en einnig eru stór verkefni í Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi þar sem reistir verða eldaskálar og þjónustuhús.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu 9. mars grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021. Samtals er nú úthlutað 764 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og 807 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.
Þjóðskógar landsins eru mikilvægir ferðamannastaðir og njóta vaxandi vinsælda. Með aukinni umferð ferðamanna eykst þörfin fyrir viðhald og uppbyggingu í skógunum. Tölurnar hér á eftir eru hámarksfjárhæðir til viðkomandi verkefna í þjóðskógunum á tímabilinu.
Þessi þriggja ára áætlun nær til áranna 2021-2023 og í hlut Skógræktarinnar koma verkefni sem ná til alls átta af þjóðskógunum. Í Hallormsstaðaskógi er gert ráð fyrir 22,6 milljóna króna framlagi 2023 til gerðar eldaskála sem verður sambærilegur við eldaskálann í Laugarvatnsskógi og þann sem senn rís í Vaglaskógi.
Í Haukadalsskógi verður ráðist í viðhald og uppbyggingu gönguleiða með tengingu við Geysissvæðið sem er steinsnar frá þjóðskóginum. Til þeirra verkefna eru ætlaðar sex milljónir króna 2022. Á þessu ári verður hins vegar ráðist í endurbætur og viðhald á gönguleið um skógarreitinn á Kirkjubæjarklaustri auk þess sem gerðar verða lagfæringar á umhverfi við skóginn. Í þau verkefni er ætluð ein milljón króna á árinu.
Í Vaglaskógi heldur áfram smíði eldaskála og þjónustuhúss. Þegar hefur verið gerður grunnur, lagnir lagðar og aflað timburs í bygginguna að talsverðu leyti í fyrsta áfanga, að sjálfsögðu íslenskt timbur úr þjóðskógum. Framlagið til byggingarinnar í Vaglaskógi nemur átján milljónum króna og er ætlað í annan áfanga verksins á þessu ári.
Fjögurra milljóna króna framlag er ætlað í viðhald gönguleiða árið 2023 í fjórum þjóðskógum í jafnmörgum landshlutum, Stálpastaðaskógi Skorradal, Þjórsárdal, Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi.
Langhæsta framlagið á tímabilinu til verkefna í þjóðskógunum nemur samtals rúmum fimmtíu milljónum króna og verður varið til áframhaldandi uppbyggingar og viðhalds gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu. Þangað renna 16,6 milljónir á þessu ári, 17 á því næsta og 17,5 árið 2023. Samanlagt nema framlög til innviðaverkefna í þjóðskógunum næstu þrjú árin rúmlega 100 milljónum króna.
Frétt á vef Stjórnarráðsins
Texti: Pétur Halldórsson