Timbur úr íslenskum skógi.
Virði skóga og nýting skógarauðlindarinnar í brennidepli
Fjögur verkefni sem tengjast skógrækt og skógarnytjum hlutu styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands sem nýlega tilkynnti um úthlutun ársins 2016. Greinilegt er að skógarauðlindin sem nú er að sýna sig fyrir alvöru á Austurlandi er uppspretta ýmissa hugmynda um nýtingu skógarafurða til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar.
Skógarafurðir úr Fljótsdal
Nýsköpunarfyrirtækið Skógarafurðir ehf. á Víðivöllum ytri í Fljótsdal fékk 900.000 króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands 2016 í verkefnið Skógarafurðir úr Fljótsdal. Fyrirtækið er ný úrvinnslustöð á afurðum úr bændaskógum. Styrkurinn verður annars vegar nýttur til þróunar á þurrkunaraðferðum og hins vegar til hönnunar á vöru og umgjörð fyrirtækisins.
Skógarafurðir ehf. eru fyrsta einkarekna fyrirtækið á Íslandi sem hyggst nýta íslenskan trjávið í fjölbreytta vöru og sem valkost á móti innfluttri vöru. Varan verður upprunamerkt og hráefnið gert sem verðmætast með því að leggja áherslu á gæði, góða nýtingu og framúrskarandi hönnun á nytjavöru úr viðnum. Þetta er tilraun til að breyta íslenskum nytjaskógi í verðmæta vöru og skapa atvinnutækifæri fyrir fyrstu skógarbændur á Íslandi sem hafa nytjaskógrækt að atvinnnu.
Virði skóga
Næsthæsta styrkinn til skógartengdra verkefna, 800.000 krónur, hlaut fyrirtækið Logg - landfræði og ráðgjöf til verkefnis sem kallað er Virði skóga. Það er unnið í samstarfi við Skógrækt ríkisins og fasteignasöluna Inni. Markmiðið er að búa til aðferð eða verkfæri til að verðmeta skóginn. Mikilvægt er að meta megi verðmæti skóga, meðal annars þegar skógarjarðir eru seldar og keyptar. Til eru veðbankar eða verkfæri til að meta virði hinna ýmsu hlunninda eða eigna og í þá smiðju verður leitað við þróun þeirra verkfæra sem nýst geta til að meta verðmæti skóga. Þá verður farið eftir ýmsum þáttum eins og tegundasamsetningu, aldri, mismunandi vaxtarlotu og lokaafurðum.
Efnisrannsókn í skógi
Sama upphæð, 800.000 krónur, kom í hlut verkefnisins Umbreyting - efnisrannsókn í skógi sem Félag skógarbænda á Austurlandi fer fyrir. Kannaðar verða óhefðbundnar leiðir til nýtingar á möguleikum nytjaskógarins á Austurlandi. Unnið verður meðal annars með veikleika efniviðarins og mögulega umbreytingu efnis úr kurli og kögglum í annað efni sem síðan megi nýta til að forma afurðir.
Félag skógarbænda á Austurlandi hefur látið vinna úttekt á stöðu þessara mála og þeim möguleikum sem eru fyrir hendi. Í því skyni vill félagið ráðast í rannsóknarverkefni líkt og gert hefur verið með sjávarfang í klasasamstarfi sjávarútvegsins. Mikilvægt er að nýta næstu 10-15 árin til vöruþróunar og ímyndarsköpunar meðan hentugri vaxtarlotu er að ljúka og skógurinn að ná því hámarki viðarmagns sem skilar eigendum hans mestum arði.
Ásamt félaginu stendur að verkefninu hönnunarteymi sem í eru Garðar Eyjólfsson, lektor við Listaháskóla Íslands, og Thomas Vailly, vöruhönnuður frá Frakklandi. Þeir hafa báðir lokið meistaragráðu í samhengisfræðilegri hönnun (contextual design) frá Design Academy Eindhofen og nálgast verkefnin út frá efnisumbreytingu og verkferlum í staðbundnu samhengi eins og það er orðað í kynningu. Einnig á félagið mikilvægt samstarf við Skógarafurðir ehf. í Fljótsdal, nýstofnaða úrvinnslustöð skógarafurða sem áður er getið. Þar hefur verið komið upp góðri aðstöðu og tækjakosti á einni elstu skógræktarjörð á landinu. Nytjaskógurinn á Víðivöllum var fyrsta jörðin sem hóf skógrækt í Fljótsdalsáætlun sem var undanfari Héraðsskógaverkefnisins.
Vinnustofa um viðarnýtingu
Fjórði skógartengdi styrkurinn sem veittur var úr Uppbyggingarsjóði Austurlands að þessu sinni kom í hlut SAM-félagsins, grasrótarsamtaka skapandi fólks á Austurlandi. Félagið fékk 600.000 krónur til verkefnis sem kallast Stefnumót við skógarsamfélag - vinnustofa um viðarnýtingu. Styrkurinn verður nýttur til að yfirfæra þekkingu frá bandarísku hönnunarverkefni, Designers & Forests, í samráði við verkefnisstjóra þess, Megan Urban, aðstoðarprófessor við ríkisháskólann í Freedonia í New York ríki.
Unnið verður með hulin verðmæti skógarsamfélags þar sem mannauður, hráefni og menningararfleifð er útgangspunktur. Vinnustofan verður m.a. auglýst fyrir félaga í Félagi skógarbænda á Austurlandi og í SAM-félaginu, grasrót skapandi fólks á Austurlandi. Einnig verður útskriftarnemendum Listaháskóla Íslands í vöruhönnun boðin þátttaka í vinnustofunni. Grunnur vinnustofunnar Designers & Forests hvílir á þeirri trú að hönnunarferli geti leitt saman einstaklinga með fjölbreytta þekkingu og hæfni og framkallað þannig óvæntar niðurstöður og afurðir.