17. júní baráttudagur gegn eyðimerkurmyndun
Ef menn stöðva ekki þá óheyrilegu jarðvegseyðingu sem geisar á jörðinni vofir mikil hætta yfir mannkyni. Við verðum að snúa við blaðinu, græða upp land, rækta skóg og stefna að jafnvægi þar sem heilbrigt og gjöfult land á jörðinni helst stöðugt og jafnvel stækkar. Uppgræðsla rofsvæða á jörðinni er mikilvæg til að ná tökum á loftslagsvandanum. Þetta var boðskapur aðalframkvæmdastjóra UNCCD, sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn eyðimerkurmyndun, í tilefni baráttudags gegn eyðimerkurmyndun 17. júní.
Monique Barbut er aðalframkvæmdastjóri UNCCD og skrifaði ritstjórnargrein fyrr í vikunni í inFO news, netfréttabréf FAO Forestry, skógasviðs matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ. Tilefnið er sautjándi júní, baráttudagur gegn eyðimerkurmyndun. Að þessu sinni var efnt til sérstaks viðburðar um þessi efni á heimssýningunni sem stendur yfir í Mílanó á Ítalíu. Yfirskrift viðburðarins var „No such thing as a free lunch - invest in healthy soils“. Ekkert er ókeypis, fjárfestum í heilbrigðum jarðvegi. Þarna er vísað til þess tíma þegar kráareigendur gáfu fastagestum ókeypis máltíð ef þeir keyptu a.m.k. einn drykk. Matinn höfðu þeir vel saltan svo gestinn langaði í meira og gjarnan fór það svo að gesturinn keypti miklu meira en hann hafði ætlað sér þegar hann kom inn. Þessa samlíkingu nota hagfræðingar stundum til að benda á að hugtakið „ókeypis“ sé iðulega blekkingin ein.
Það er blekking, skrifar Barbut, að við getum endalaust þegið af landinu án þess að gefa neitt til baka. Við höfum tapað þriðjungi ræktanlegs lands á jörðinni með jarðvegs- og gróðureyðingu á undanförnum fjörutíu árum og enn tapast yfir 10 milljónir hektara á hverju ári. Þetta muni verða okkur dýrt ef böndum verður ekki komið á. Meira land verði brotið til landbúnaðar og skógi eytt, matvælaöryggi minnki, vatnsskortur aukist, fólksflutningar vegna umhverfisbreytinga aukist og samkeppni um auðlindir vaxi með tilheyrandi hættu á átökum.
Barbut telur að árið 2015 beri með sér tækifæri sem ef til vill komi ekki aftur til að afhjúpa blekkinguna. Aðstandendur UNCCD stefna að því að verðmæti lands verði viðurkennt og tekið inn í markmiðin um sjálfbæra þróun og nýjan loftslagssamning sem stefnt er að því að verði undirritaður á loftslagsfundinum COP21 í París undir lok ársins.
Úrlausnarefnin í þessu sambandi eru nokkur en tækifærin líka, skrifar Barbut. Í heiminum séu allt að 65 lönd sem hafi lítið gagn af þeirri stjórnmálaumræða sem verið hefur í gangi um loftslagsmál hingað til. Mest áhersla sé lögð á mótvægisaðgerðir og að draga úr losun en það eigi ekki við í öllum löndum. Einblínt sé á tvo málaflokka, orku og skógrækt. Barbut bendir á að tíu lönd eða svæði séu skóglaus með öllu og 54 til viðbótar hafi minna en tíu prósenta skógarþekju. Meðal þessara skóglausu eða skóglitlu landa eru Asír, Malí, Níegería og Tógó. Þurrlend lönd falla sjálfkrafa í þennan flokk vegna lítillar skógarþekju. En mörg þessara landa losa líka lítinn koltvísýring út í andrúmsloftið. Sextíu lönd losa minna en eitt tonn af CO2 á hvert mannsbarn. Þar er til lítils að tala um samdrátt eða bindingu á móti losun. Samt sem áður er gróður- og jarðvegseyðing stórt vandamál í mörgum þessara landa og bitnar illa á landsmönnum.
Fyrir þessi lönd gæti ný og víðari sýn á landnotkun og endurhæfingu illa farins lands verið mjög gagnleg, bæði til að vinna að mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum og til aðlögunar að breytingunum. Breytt landnotkun í þessum löndum gæti um leið haft töluvert að segja við að vega upp muninn á losun og bindingu í heiminum öllum. Með því að taka landnotkun með í loftslagsmarkmið þjóða fyrir COP21 hafi allir þátttakendur í viðræðunum eitthvað fast í hendi til að leggja á borðið. Lönd sem eru á vissan hátt utangátta eða afsíðis fái raunverulegt hlutverk og tilgang.
Um fjórðung þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna athafna mannanna má rekja til landnotkunar. Með betri stjórn og nýtingu ræktarlands, beitilands, votlendissvæða og skóga telur Barbut að megi auðveldlega binda varanlega 7-10 gígatonn af CO2 árlega fyrir 2030. Það er um það bil helmingurinn af þeim samdrætti sem talinn er nauðsynlegur á næstu 10-20 árum til að „örugga“ markmiðið náist og hlýnun loftslags á jörðinni verði ekki meiri en 2°C. Endurhæfing jafnvel mjög illa farins lands geti bundið allt að 4,45 tonn af CO2 á hektara með einföldum og hagkvæmum aðferðum eins og skógarlandbúnaði, samspili trjáræktar, akuryrkju og búfjárræktar.
Um allan heiminn eru meira en tveir milljarðar hektara brotinna vistkerfa sem mögulegt er að endurhæfa, skrifar Barbut, og þrír fjórðu þess eru nytjaland. Með því að græða nytjaland upp og gróðursetja á því tré megi bæði binda koltvísýring og draga úr þörf fólks fyrir að brjóta nýjan skóg til landbúnaðarnota. Ef seinka má þeirri þörf um áratug getur fátækt fólk notað tímann til að laga sig að breytingunum, auka framleiðni í landbúnaði og efla viðnámsþrótt samfélaganna.
Barbut segir að mannkynið hafi ekki efni á því að skilja neinn út undan í því starfi sem eftir er að vinna næsta hálfa árið fram að fundinum í París. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, og sáttmáli SÞ um baráttuna gegn eyðimerkurmyndun, UNCCD, geti byggt á því starfi sem þegar sé í gangi með því að styðja við landbóta- og samfélagsverkefni eins og Great Green Wall for the Sahara and Sahel Initiative svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum að nýta jarðvegsauðlindir okkar skynsamlega og líta til fjölbreytilegra þátta við skipulag landnotkunar. Ef við getum stöðvað góður- og jarðvegseyðingu og stóraukið uppgræðslu á skemmdu landi léttum við á skógunum. Markmiðið á að vera að ná jafnvægi þar sem stærð heilbrigðs og gjöfuls lands á jörðinni stendur í stað eða jafnvel eykst.