Mynd 1. Mælistaður (Eyjafjörður) í jaðarbelti með 14 fræplöntum af birki á 100 fermetrum. Ljósmynd: ÍSÚ
Rannsóknasvið Skógræktarinnar hefur frá árinu 2005 staðið að landsúttekt á ræktuðum skógum og náttúrulegum birkiskógum og birkikjarri á Íslandi. Landnám trjáplantna innan skógræktarsvæða og við jaðar þeirra er nú einnig tekið út með reglubundnum hætti og hófust þær úttektir í sumar. Þær gefa áhugaverðar vísbendingar en betri niðurstöður um landnám trjáplantna fást á komandi árum með áframhaldandi úttektum.
Ræktaðir skógar þöktu við lok árs 2021 um 47.000 hektara (± 2.000 ha: 95% vikmörk) eða um 0,47% af landflatarmáli.
Landsúttektirnar eru byggðar á mælingum á úrtaki mælistaða sem lagt er út með fastri fjarlægð á milli úrtaksstaða, svokallað kerfislægt úrtak. Í ræktaða skóginum er fjarlægðin 500 m í vestur-austurstefnu og 1.000 m í norður-suðurstefnu. Mælingar á öllu úrtakinu dreifast á fimm ár en úrtakinu hefur verið skipt jafnt á mælifletina þannig að á hverju ári er mældur 1/5 af heildarúrtakinu.
Aðeins eru heimsóttir mælistaðir:
- sem eru innan nýjustu uppfærslu af korti sem sýnir allt ræktað skóglendi á Íslandi (hér kallað skógarkort)
- eða eru á 24 metra breiðu jaðarbelti utan skógræktarkorts
Skógarkortið er uppfært á hverju ári með nýgróðursetningum síðasta árs og endurkortlagningu á eldri skógrækt. Að þessu sinni var viðbótarsvæðið stórt því að nýlega lauk endurkortlagningarverkefni sem staðið hefur síðastliðin ár. Jaðarbeltið er haft með í úrtakssvæðinu til að tryggja að skekkjur í kortlagningu valdi ekki því að hluti skógræktarinnar falli utan úrtakssvæðis. Hafa verður í huga að skógarkortið er ekki 100% nákvæmt og innan þess geta verið svæði sem ekki eru skógrækt.
Að þessu sinni var heildarúrtakssvæðið 98.259 ha og þar af var jaðarsvæðið 25.518 ha.
Á þessu sumri var safnað sérstökum gögnum til að lýsa landnámi trjágróðurs á þeim mælistöðum sem voru utan skógræktar, hvort heldur væri í jaðarbeltinu eða innan skógarkorts. Þetta var gert í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á ýmsum miðlum um óæskilegt landnám trjágróðurs utan skógræktarsvæða og þá sérstaklega innfluttra trjátegunda. Nýlegar rannsóknir á þremur skógræktarsvæðum, einu á Suðausturlandi og tveimur á Norðurlandi, staðfesta t.d. að landnám stafafuru getur verið umfangsmikið. Hins vegar er ekki ljóst hversu almennt landnám trjátegunda er utan skógræktarsvæða. Einnig er mikilvægt að átta sig á möguleikum á að auka útbreiðslu skóga með mjög hagkvæmum hætti með sjálfgræðslu og hve stór þáttur hennar er innan skógræktarsvæða.
Úttektin sem hér er kynnt á að varpa betra ljósi á hvort landnám trjágróðurs í næsta nágrenni við ræktaða skóga sé mikið og almennt á öllu landinu.
Sumarið 2022 voru merktir til skoðunar 316 úrtaksstaðir dreift um allt land sbr. töflu 1. Það gefur að skilja að mest er af úrtaksstöðum þar sem mikið er um skógrækt s.s. á Fljótsdalshéraði. Af þessum 316 úrtaksstöðum voru 177 endurmælingar á mæliflötum sem hafa verið mældir áður, 7 voru nýjar mælingar innan skógarkorts og 28 nýjar mælingar í jaðarsvæðinu. Af 104 stöðum sem reyndust utan skógræktar voru 43 staðir innan skógarkorts og 61 staður í jaðarbeltinu. Nýir mælifletir sem bættust við á þessu ári voru 35.
Tafla 1: Yfirlit yfir staði sem voru skoðaðir í landsskógaúttekt sumarsins 2022.
Landnám utan skógræktar
Af 104 stöðum sem reyndust utan skógræktar voru allir í jaðarbeltinu (61) auk 28 staða innan skógarkorts, samtals 89, skoðaðir með tilliti til landnáms trjáplantna. Landnám trjáplantna fannst á sjö stöðum. Á fimm þeirra var um landnám birkis að ræða, á einum stað landnám reyniviðar og á einum stað landnám viðju sem var eina innflutta trjátegundin sem fannst á jaðarsvæði utan skógarkorts. Allir staðir nema einn voru á landi friðuðu fyrir beit. Fimm af sjö stöðum tilheyrðu ekki skógræktarsvæðinu sem þýðir í flestum tilvikum að þeir voru ekki innan skógræktargirðingar. Það kom á óvart hve vistgerðir þessara staða voru fjölbreyttar, allt frá mela- og sandlendi yfir í votlendi. Einnig var óvænt að sjá fjóra af sjö stöðum algróna (gróðurþekja > 90%) og fimm af sjö með jarðvegsdýpt yfir 50 cm. Mynd 1 sýnir aðstæður á einum af tveimur mælistöðum á rýru og jarðgrunnu landi þar sem fundust 14 fræplöntur af birki á 100 fermetra hringfleti.
Landnám innan skógræktar
Heildarfjöldi mældra úrtaksstaða var 212 árið 2022. Þar af voru fimm mælifletir með einungis sjálfgræddum trjágróðri og var um sjálfsáningu að ræða í öllum tilfellum. Hægt er að skilgreina slíka sjálfgræðslu sem landnám. Aðrir mælifletir voru annað hvort einungis með gróðursettum trjáplöntum eða blöndu af gróðursettum og sjálfgræddum plöntum.
Tafla 2 sýnir helstu niðurstöður varðandi þá fimm mælifleti sem eingöngu voru með sjálfsáðum trjám. Tveir mælifletir voru með birki sem ríkjandi tegund og annar þeirra var einnig með stafafuru. Tveir mælifletir voru einungis með stafafuru. Einn mæliflötur var með viðju sem ríkjandi tegund og birki sem víkjandi tegund. Þéttleiki var frá 400 til 4.000 plöntur á hektara. Allir nema einn mæliflötur voru innan skógræktarsvæða en aðeins tveir voru við jaðar skógræktarinnar.
Tafla 2: Helstu niðurstöður varðandi mælifletina sem voru eingöngu með sjálfgræddar trjáplöntur.
Mynd 2 er frá eina mælifletinum sem var á svæði sem ekki er skilgreint sem skógræktarsvæði. Þar var vaxinn af sjálfsdáðum blandskógur af viðju og birki upp úr fyrrverandi lúpínubreiðu sem áður var lítt gróinn melur. Svæðið er á Keldnaholti í Reykjavík en á höfuðborgarsvæðinu er að finna mikið landnám trjágróðurs á landi sem hefur verið beitarfriðað í rúm 40 ár eða síðan höfuðborgargirðingin var girt.
Landsúttekt á ræktuðum skógum er byggð á kerfislægu úrtaki eins lýst var hér að ofan. Úrtakshönnunin býður því upp á að meta flatarmál svæða með landnámi trjágróðurs. Mynd 3 sýnir þá niðurstöðu með 95% vikmörkum. Landnám trjágróðurs við ræktaða skóga á Íslandi er á bilinu 1.300 til 4.700 ha eða 3% til 10% af ræktuðum skógum á Íslandi. Tvær erlendar trjátegundir, viðja og stafafura, fyrirfinnast í landnámi sem er á bilinu 160 til 2.340 ha. Landnám erlendra trjátegunda utan skógræktarsvæða var metið 500 ha en það mat er ómarktækt miðað við úrtaksstærð rannsóknarinnar. Um var að ræða landnám viðju.
Hafa verður í huga að hér er um bráðabirgðaniðurstöður að ræða og gert er ráð fyrir að þessi úttekt haldi áfram næstu 4 árin. Þá mun úrtaksmagnið fimmfaldast, niðurstöður verða áreiðanlegri og flatarmálsmat með mun minni vikmörkum.
Dagsetning: 23.11.2022
Höfundur: Arnór Snorrason