Stafafura og rauðgreni í Vaglaskógi í febrúar 2016. Mynd: Pétur Halldórsson.
Vinnuhópar starfsfólks skógræktarstofnana hafa lokið störfum
Þrír tíu manna vinnuhópar um sameiningarmál, skipaðir starfsfólki Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt, hafa nú lokið störfum. Niðurstöður hópanna verða kynntar þegar allir starfsmenn stofnananna koma saman til stefnumótunarfundar 9. mars. Fjármálaráðuneytið mælir með því að ráðningarsamningar núverandi starfsmanna verði látnir halda sér yfir í nýja stofnun svo ekki þurfi að koma til uppsagna og endurráðningar þegar sameiningin gengur í garð.
Þriðji fundur stýrihóps um sameininguna var haldinn þriðjudaginn 23. febrúar. Þar var rætt um ýmis mál sem unnið er að í tengslum við sameininguna, til dæmis hvernig farið verði með réttindi og skyldur starfsmanna. Fram kom að Kjara- og mannauðssýsla fjármálaráðuneytisins mælti með svokallaðri aðilaskiptaleið, að ráðningarsamningar allra starfsmanna yrðu látnir halda sér við sameininguna í stað þess að fólki væri sagt upp og það endurráðið. Í þessu fælist minni óvissa fyrir starfsfólk, allir fengju sömu meðferð og mál hvers og eins starfsmanns tækju styttri tíma.
Beðið leiðsagnar fjármálaráðuneytisins
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri leggur áherslu á að málum verði hagað með þeim hætti að sem best sátt náist meðal starfsmanna. Enn hafa þó engar ákvarðanir verið teknar og því ekki hægt að greina frá því í smáatriðum hvernig staðið verður að málum. Óskað hefur verið eftir formlegu minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu um það hvernig sameiningin skuli ganga fyrir sig og vonast er til að það liggi fyrir fljótlega. Ákvarðanir um þetta og fleiri grundvallarmál eru forsenda þess að hægt verði að ganga frá þeim lagaákvæðum, svokölluðum bandormi, sem Alþingi þarf að afgreiða svo að af sameiningunni geti orðið.
Stefnumótunarfundur 9. mars
Níunda mars verður haldinn sameiginlegur stefnumótunarfundur allra starfsmanna þeirra stofnana sem meiningin er að sameina í nýja skógræktarstofnun. Á fundinum, sem fram fer á Grand Hótel í Reykjavík, verða meðal annars kynntar niðurstöður þeirra þriggja vinnuhópa starfsfólks sem fjölluðu um innri og ytri mál nýrrar stofnunar og um fagleg mál. Hópstjórar hópanna fá tíu mínútur hver á stefnumótunarfundinum til að kynna niðurstöðurnar. Síðan verður þátttakendum skipt niður á hringborð þar sem farið verður ofan í ýmis mál með þjóðfundarfyrirkomulagi. Leitast verður við að hafa hópana sem mest blandaða. Á fundinn verður einnig fenginn fyrirlesari sem ætlað er að hræra upp í umræðunni, koma með ný sjónarhorn og horfa á málin með augum aðkomumannsins.
Viðtöl við alla starfsmenn
Fyrstu dagana í marsmánuði taka ráðgjafar Capacent viðtöl við alla starfsmenn Skógræktar ríkisins og Verkefnanna. Þeir verða á Suðurlandi 1. mars, á Vestfjörðum 2. mars, á Norðurlandi 3. mars, á Austurlandi 2. og 3. mars og föstudaginn 4. mars verða ráðgjafarnir með viðtöl bæði á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá og á Vesturlandi. Mánudaginn 7. mars verða líka haldnir fundir með hagsmunaaðilum, meðal annars Landssamtökum skógarbænda, LSE. Á fundinum með LSE verða einnig Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri fyrir hönd Skógræktar ríkisins og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga, fyrir hönd Landshlutaverkefnanna.
Stjórnir Landshlutaverkefna upplýstar
Á fundi stýrihópsins á þriðjudag var gagnrýnt að stjórnir Landshlutaverkefnanna skyldu enn sem komið er ekki hafa verið hafðar með í þessu sameiningarstarfi. Ákveðið var að bæta úr þessu. Formennirnir verða upplýstir um sameiningarmálin og gefið færi á að leggja sitt til málanna. Það er skýr stefna í þessu starfi öllu að halda skógarbændum vel upplýstum. Meðal verkefnanna fram undan er að huga að því hvernig formlegu samstarfi við skógarbændur verður háttað í landshlutunum þegar Landshlutaverkefnin verða ekki lengur sjálfstæðar stofnanir og stjórnir þeirra heyra sögunni til.