Byggingameistari hússins, Ívar Örn Þrastarson, stendur við bálskýlið sem nú er komið undir þak.
Byggingameistari hússins, Ívar Örn Þrastarson, stendur við bálskýlið sem nú er komið undir þak.

Framkvæmdum miðar vel í Laugarvatnsskógi

Smíði þjónustuhúss í Laugarvatnsskógi miðar vel. Bálskýlið, sem er stærsti hluti byggingarinnar, er nú risið og þessar vik­urnar er unnið að smíði húss yfir snyrt­ingar.

Sams konar þak verður reist yfir snyrt­ing­arnar og er á bálskýlinu Allt er þetta smíð­að úr timbri sem unnið er úr skógum Skóg­ræktarinnar og verður byggingin því með þeim fyrstu sem eru eingöngu smíðaðar úr íslenskum viði.

Áður en smiði hússins hófst hafði verið gengið gróflega frá gönguleið að svæðinu, lagnir fyrir heitt og kalt vatn lagðar í jörð, raflagnir og tenging við frárennsliskerfið á Laugarvatni.

Óhætt er að segja að bálskýlið í Laugarvatnsskógi sé með þeim glæsilegri sem sést hafa á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Heita má víst að efnt verði til vígsluathafnar þegar öll byggingin verður komin undir þak á vori kom­anda enda tilefnið ærið. Nánar um það þegar nær dregur. Ekki er fullljóst hvenær verkinu lýkur með öllu en unnið verður að því í vor og sumar að ganga frá gólfum og plönum, arinviðarstæði, reykopi á þakinu og göflum.

Meðfylgjandi myndir tók Hreinn Óskarsson sem senn lætur af störfum sem skógarvörður á Suðurlandi. Hreinn tekur um áramótin að fullu við starfi sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar sem sér um áætlanagerð, skipulagsmál, markaðs- og kynningarmál, fræðslu og fleira.

Morgunblaðið fjallar um þjónustuhúsið í Laugarvatnsskógi á baksíðu sinni í dag og þar er rætt við Ívar Örn sem segir meðal annars að húsum sem reist séu úr íslensku timbri að öllu eða mestu leyti muni fjölga á komandi árum enda sé framleiðni í íslenskum skógum sambærileg við það sem gerist í Skandinavíu og menn séu að átta sig á því að þetta sé hægt.





Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson