Hressileg skoðanaskipti um árekstra sauðfjár- og skógræktar heyra greinilega ekki sögunni til!

Morgunblaðið, laugardaginn 29. nóvember, 2003 - Bréf til blaðsins

Skagakonan Margrét Jónsdóttir

svarar bréfi Birgis Péturssonar, fv. bónda, frá 22.11. sl.

Bréfritari segir að ég tali með hroka og lítilsvirðingu til bænda en gerir sér lítið fyrir og notar sjálfur þessa "aðför" sem hann ásakar mig um.

En satt er það að ég sagði bréf Guðrúnar Jóhannsdóttur bæði sundurlaust og illskiljanlegt. Stend ég við það og freistandi væri að fara ofan í saumana á því við tækifæri, máli mínu til sönnunar. Aftur á móti sagði ég ekki slíkt um bréf Eysteins G. Gíslasonar, eins og bréfritari heldur fram, heldur neyddist ég til að leiðrétta rangtúlkanir hans á orðum mínum, sem ég vissi ekki af hverju stöfuðu.

Þessir bændur sem mér svarað hafa eru líka allir við sama heygarðshornið er að "málefnalegum rökstuðningi" kemur. Dæmi: "Og vill ekki frúin bara þetta..., ætlar konan bara ekki að útrýma..., áðurnefnd frú ætlar kannski að..., Skagakonan heldur bara kannski að..., konan góð ætti nú heldur að tala um..., veit frúin ekki að..." o.s.frv. Hroki?

Eftir því sem bréfritari segir, er fólk, sem vogar sér að mótmæla þessum löngu úrelta sauðfjárbúskap, "afbrigði". Þar höfum við það. Það er eitthvað afbrigðilegt við að vera reiður út í beingreiðslur, offramleiðslu á "rauðu ríkiskjöti", af- og ofbeit, gróðureyðingu og jarðvegsrofi og jarðvegsfoki!

Satt er það hjá bréfritara að alltaf er hætta á smitsjúkdómum, og trúlega hjá öllum skepnum jarðarinnar, líka rollum. Nægir þar að nefna kýlapest, garnaveiki og riðu, sem, ein og sér, orsakar árlegan "niðurskurð" á mörgum jörðum á Íslandi, og sem landinn þarf svo að taka þátt í að borga. Og mér sýnist þær ekkert frekar þurfa að vera í hólfum til þess að smitast, koma veikar af þessum "ómenguðu" fjöllum okkar á haustin. En hvort krabbamein sé algengara í útlöndum en á Íslandi, og hvort menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það stafi af svínakjötsáti, hef ég ekkert heyrt né lesið um og tjái mig því ekkert um málið. Enda kemur það beingreiðslum, offramleiðslu á rollukjöti, ofbeit og gróður- og jarðvegseyðingu ekkert við.

Veit ég vel að landbúnaður er styrktur í mörgum öðrum löndum, reyndar margfalt minna en hér, en... menn þar í óða önn við að losa sig undan því oki.

Ég held ég láti stærðfræðikennara landsins um að þakka bréfritara rass-stimpilinn, sem hann hefur gefið þeim. (Hvaðan hefur hann þær upplýsingar að ég sé stærðfræðikennari?) Og í sambandi við "kennsluleiðbeiningar" bréfritara til handa þessum okkar stærðfræðikennurum vil ég benda honum á að líta í eigin barm og reyna að reikna út hvað ein rolla, með fjórar lappir, gefur bóndanum í arð. Bullandi tap, ekki satt? Þó svo hann noti skattpeninga landsmanna við framleiðsluna og upp í óselt kjöt. Og það get ég sagt bréfritara að þeir stærðfræðikennarar sem ég þekki eru það góðir í stærðfræði að þeim dytti aldrei til lifandis hugar að fara að stunda arðlausan rollubúskap á kostnað landsmanna. Endurtek svo að kennarar eru í vinnu hjá skattborgurunum og þess vegna borga skattborgararnir þeim laun.

Hafi málefnin farið fram hjá bréfritara þá eru þau þessi:

1. Ég er á móti beingreiðslum og öðrum styrkjum til bænda.

2. Ég er á móti offramleiðslu á "rauða ríkiskjötinu" og vil láta fækka rollum (og hrossum).

3. Ég er á móti óþarfa af- og ofbeit.

4. Ég vil koma í veg fyrir frekari jarðvegsskemmdir með friðun á villtum gróðri, þar með talið öllu kjarri.

5. Ég vil stórauka landgræðslu og skógrækt. Hver sem er gæti sótt um störf við þá vinnu og yrði þá viðkomandi á kaupi frá ríkinu.

MARGRÉT JÓNSDÓTTIR, Melteigi 4, Akranesi.

Morgunblaðið, fimmtudaginn 11. desember, 2003 - Bréf til blaðsins

Margrét Skagakona svarar

Tveimur bændum og ykkur öllum kemur það við

Kæru landar mínir! Sauðfjárbóndinn Guðfinnur S. Finnbogason í Strandasýslu "útskýrir fyrir mér mál bænda" í bréfi til mín í Mbl. frá 28.11. Þakka ég kærlega athyglisverðar upplýsingar og hef reyndar engu þar við að bæta. Æðarbóndinn Eysteinn G.Kæru landar mínir!

Sauðfjárbóndinn Guðfinnur S. Finnbogason í Strandasýslu "útskýrir fyrir mér mál bænda" í bréfi til mín í Mbl. frá 28.11. Þakka ég kærlega athyglisverðar upplýsingar og hef reyndar engu þar við að bæta.

Æðarbóndinn Eysteinn G. Gíslason skrifar svo í Mbl. 7.12. bréf sem reyndar er ekki til mín, en öllu heldur um mig, auk þess sem hann dvelur enn í fortíðinni megnið af þessu langa bréfi. Hirði ég ekki meira um útúrsnúninga hans og rangtúlkanir, svo sem eins og að ég "segi eitt og meini annað".

Bréfritari má eyða eins miklu rými í blaðinu og honum þurfa þykir til að rifja upp sögu rollunnar. Sjálf hef ég margoft sagt að hún hafi einu sinni verið "fæðan og klæðin" en sé það alls ekki í dag.

Reyndar væri landið í mun betra ástandi nú, ef við hefðum borið gæfu til að feta í fótspor Grænlendinga og notað selinn í stað hennar, í "kjöt og föt". Bréfritari viðurkennir í lok bréfsins að "sauðkindin sé ekki lengur okkar eina úrræði en geti tvímælalaust verið áfram sem eitt af þeim. (Sammála.) "Þó með þeim formerkjum að hafa gát á gosbeltunum"! Hraunin okkar, já! Einmitt þar eru víða einu griðlönd gróðursins svo sem eins og kjarrsins okkar fagra, þar sem rollan á svo erfitt með að fóta sig í úfnum hraunum.

En kjarni málsins í dag er þessi frá mínum bæjardyrum séð:

1. Ég er á móti öllum beingreiðslum og ÖLLUM öðrum atvinnutengdum styrkjum, hverju nafni sem þeir nú nefnast. ÖLLUM. Má ég benda á að venjuleg fjölskylda er tvo klukkutíma á hverjum einasta degi að vinna fyrir bændur eina.

2. Ég er á móti því að borga með framleiðslu á kjöti, borga það svo aftur við búðarborðið og síðan enn aftur með því kjöti sem ekki selst. Þetta er fáránlegt.

3. Ég vil fækka fé úr 500.000 vetrarfóðruðum rollum í 200- 250.000, hámark. Ef 14 bændur geta séð okkur fyrir (of miklu) svínakjöti þarf örugglega ekki 2000 bændur til að framleiða (of mikið) rollukjöt ofan í okkur, svo mikið er víst. Ég vil og fækka hrossum úr 80.000 í 50.000, hámark.

4. Ég vil friða allar viðkvæmar brattar hlíðar, heiðar og allt hálendið. Svo og allt kjarr sem enn er ekki uppétið af rollum og öðrum búfénaði.

5. Ég vil að öll dýr séu í "fjárheldum" beitarhólfum. Ég vil að fólk geti keypt sér veiðileyfi á öll dýr sem eru í vegköntum, friðuðum svæðum, skógræktum og ógirtum löndum, eftir að viðkomandi sveitarstjórn hefur fengið aðvörun. Gripina mætti handsama, bæta í eigin hjörð eða leiða til slátrunar.

6. Ég vil stórauka alla uppgræðslu lands, svo og skógrækt. Þar vil ég sjá skattpeningana mína notaða í að endurheimta klæði fjallkonunnar.

7. Ef bændur komast upp með að sleppa afborgunum á lánum sínum næstu þrjú árin, eins og nefndin hans Guðna boðaði fyrir fáeinum vikum, finnst mér að allir aðrir landsmenn ættu að njóta sömu kjara. Ég vil jafnrétti.

8. Ég vil að rúllubaggaplast í sveitum landsins verði hulið með gróðri, girðingum eða öðru, og allir skurðir í túnum og við vegi verði fylltir. (Að sjálfsögðu með þar til gerðum "drenum". Nánar um skurði síðar.)

Að svo mæltu vona ég að þið, allir landsmenn mínir, eigið ánægjuleg jól og gleðilegt komandi ár. En... munið að eyða ekki öllum ykkar peningum í fjölskyldur ykkar, því þið verðið að eiga eitthvað afgangs upp í alla þessa milljarða sem við þurfum líka að greiða með ÖLLUM bændum næsta ár ... og næsta og næsta og næsta.

MARGRÉT JÓNSDÓTTIR, Melteigi 4, Akranesi. melteigur@simnet.is

Morgunblaðið, mánudaginn 15. desember, 2003 - Bréf til blaðsins

Svarbréf til kennarans á Skaganum

SAGT var stundum hér áður fyrr, að sannleikanum yrði hver sárreiðastur. Kennarinn segir að ég viðhafi aðför og þá væntanlega að sér, ef ég skil hana rétt, en hún má búast við því að brýni hún deigt járn þá má búast við því að komi að því að það bíti, og að kennarinn tali með lítilsvirðingu og hroka til bænda, þá er það ekki öðru vísi en satt, talandi um klósettrúllumenningu, ölmusustyrki og hvaðeina í þeim dúr. Hvað er lítilsvirðing? Kennarinn segist ekki hafa gert lítið úr bréfi Eysteins G. Gíslasonar, við skulum skoða það nánar. Nánast í byrjun á bréfinu segir: "Eftir afar langdreginn inngang fer bréfritari beint út í móa þar sem hann dvelur svo nær allt bréfíð við fortíðarsögur, með smá viðkomu í útúrsnúningum og rangtúlkunum." Svo í lok bréfsins segir kennarinn: "Að lokum endar svo bréfritari út í mýri eins og kötturinn forðum þar sem hann er farinn að pæla í hugsanlegri arðvænlegri framleiðslu á vopnum og klámblöðum, en málefnin gleymdust." Tilvitnun lýkur. Bréfritara þykir þessi köttur allsérstakur sem kennarinn talar þarna um, ekki nóg með það að hann hafi viljað halda sig í votlendinu, það er að segja kötturinn, heldur ef að hann einnig hefur pælt í arðvænlegri vopnaframleiðslu og einnig útgáfu á klámblöðum. Bréfritari hefur aldrei heyrt um slíkan kött áður, datt helst í hug hvort um einhverja tegund af jólaketti væri að ræða. Einnig talar kennarinn um orðalag þeirra sem svara henni, étur hún upp eftir þeim orðin og segir svo hroki. Spurning hvort málefnaumræðan er komin í þrot hjá áðurnefndri, þar sem áðurnefnd beinir því til bréfritara að líta í eigin barm hvað varðar stærðfræðikennsluna. Þá er því vísað heim til föðurhúsanna. Átti bréfritari því láni að fagna að njóta kennslu hjá góðum kennara, mætri konu, Kristínu Skúladóttur frá Keldum, og fór enginn með tossastimpil úr þeirri skólastofu heim til sín. En þessi arðlausi rollubúskapur sem kennarinn á Skaganum segir að kennarar í talnafræðinni hafi skynsemi til að fara nú ekki að stunda, þá telur bréfritari að orðið skynsemi ætti hún ekki að minnast á. Og þá eru það tölusettu liðirnir. 1. Kennarinn er á móti beingreiðslum, þá er því til að svara, það hlýtur að vera hægt að finna markað fyrir jafn góða vöru og það verð sem kostar að framleiða vöruna, ekki virðist skorta að flytja inn í landið nóg af rusli eins og á yfirstandandi tíma, og á þjóðin eftir að taka út sinn skammt fyrir það. 2. Fé og hross þarf að vera í réttu hlutfalli við beitarþol á landinu að sjálfsögðu. 3. Það geta allir verið samála um að um ofbeit má ekki vera að ræða. 4. Bréfritari er sammála um að koma í veg fyrir frekari jarðvegsskemmdir og friðun á kjarri, ekki á villtum gróðri nema þess sé talin þörf af fagaðilum. 5. Málsgrein undir þessum tölulið tekur bréfritari heilshugar undir, stórauka landgræðsluna og skógrækt og sem flestir geti fengið vinnu við það og að sjálfsögðu á kaupi. Að endingu þetta út af áðurtöluðu um úreltan rollubúskap, þá hefur íslenska sauðkindin fætt og klætt íslensku þjóðina öld fram af öld í meira en 1000 ár en oftar en ekki er mannkindin vanþakklátasta skepnan.

BIRGIR PÉTURSSON, Seljalandi 3, 108 Reykjavík.