Af vefsíðu Skógræktarfélags Íslands (www.skog.is)


Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra heldur ræðu. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hlýðir á. Mynd: JGF

Jón Geir Pétursson verkefnisstjóri segir frá uppbyggingu vefsins. Mynd: JGF

Á athöfninni voru m.a. þrír menn sem gegnt hafa starfi forstöðumanns á Mógilsá, þeir Aðalsteinn Sigurgeirsson (núverandi forstöðumaður), Jón Gunnar Ottósson og Árni Bragason. Til vinstri við þá er Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. Mynd: JGF

Þriðjudaginn 18. apríl var athöfn á Hótel Reykjavík þar sem Landbúnaðarráðherra og Umhverfisráðherra opnuðu formlega nýjan vef er nefnist "Skógrækt í sátt við umhverfið" og er með leiðbeiningum um nýræktun skóga og er m.a. hýstur með tengli HÉR, á forsíðu skog.is.

Þeir sem stóðu að uppbyggingu vefsins og munu standa að áframhaldandi vinnu við hann eru Skógræktarfélag Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Fuglaverndunarfélagið, Landvernd, Landshlutabundin skógræktarverkefni: Héraðsskógar og Austurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Suðurlandsskógar, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógrækt ríkisins og Umhverfisstofnun. Verkefnisstjóri er Jón Geir Pétursson hjá Skógræktarfélagi Íslands.

Ráðherrarnir tóku báðir til máls og einnig formaður Skógræktarfélags Íslands og verkefnisstjórinn útskýrði uppbyggingu vefsins. Að svo búnu var boðið til kaffisamsætis og umræðna.

Kveikjan að gerð þessara leiðbeininga var eftirfarandi tillaga sem samþykkt var:

"Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Reykholti dagana 17.-18. ágúst 2002, leggur til að stjórn Skógræktarfélags Íslands skipi nefnd sem vinni tillögur að vinnureglum og gátlista fyrir skógræktendur og geri þær aðgengilegar.

Vinnureglurnar segi til um markmið skógræktar, hvar og hvernig þeim skuli náð. Gátlisti verði ávallt hafður til hliðsjónar þegar ný svæði eru kortlögð og gert skógræktarskipulag" ... "Leitað verði samstarfs við hagsmunaaðila í skógrækt og frjáls félagasamtök við þetta verkefni."

Við hvetjum ykkur til að skoða þessar leiðbeiningar, sem eru settar fram hér á myndrænan og aðgengilegan hátt, á forsíðu skog.is á tenglinum "Skógrækt í sátt við umhverfið". Hér hefur verið tekið framfaraskref í íslenskri skógrækt.