Haust í Langadal Þórsmörk. Mynd af trailteam.is
Haust í Langadal Þórsmörk. Mynd af trailteam.is

Þrátt fyrir ferðatakmarkanir gekk sjálfboðastarf á Þórsmerkursvæðinu vel í sumar og skiluðu 30 sjálfboðaliðar frá ýmsum löndum starfi sem mælist í alls ríflega 170 vinnuvikum. Meðal annars var lokið við endurbætur á Valahnúki þar sem eru einhverjar fjölförnustu gönguleiðir á svæðinu. Skráning sjálfboðaliða fyrir næsta sumar er hafin og umsóknarfrestur er til 15. desember.

Á vef Trailteam Volunteers er öllum sjálfboðaliðum liðins sumars þakkað fyrir frábær störf í sumar. Fram kemur að eins og venjulega hafi megináherslan verið lögð á viðhald gönguleiða og aðgerðir til að hindra og lagfæra skemmdir á landi. Jafnframt unnu sjálfboðaliðar ýmis störf í starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljóstshlíð, meðal annars við ræktun en líka við gróðursetningu skógarplantna.

Á Valahnúki þurfti að ljúka við tímabærar lagfæringar á mjög fjölförnum stígum og unnu sjálfboðaliðarnir við nokkur krefjandi verkefni þar. Steinþrep voru lagfærð en vinnuflokkarnir útbjuggu líka ný timburþrep á nokkrum köflum, að sjálfsögðu úr íslensku timbri, bæði að austan- og vestanverðu á hnúknum. 

Á Goðalandi voru aðalverkefni sumarsins á leiðinni upp á Fimmvörðuháls, sérstaklega á stöðum upp undir Morinsheiði þar sem lagfæra þurfti skemmdir eftir veturinn og endurbæta afrennsli af leiðinni. Þetta reyndist þrautin þyngri enda eru viðkomandi staðir allfjarri bækistöð sjálfboðaliðanna í Básum og langt að ganga þangað með aðföng og verkfæri.

Skógræktin vonar að sjálfboðaliðarnir hafi notið dvalarinnar og þess tækifæris að bæta og verja íslenska náttúru með framlagi sínu. Öllum er þakkað kærlega fyrir vel unnin störf og stuðning við verndar- og uppbyggingarstarfið á Þórsmerkursvæðinu.

Undirbúningur fyrir næsta sumar er nú þegar hafinn og auglýst hefur verið eftir sjálfboðaliðum fyrir næsta sumar. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum trailteam.is og þar er að finna umsóknareyðublöð. Umsóknarfrestur er til 15. desember.

Sækja um

Texti: Pétur Halldórsson