Hópmynd af öllum þátttakendum í stefnumótunarfundi starfsfólks á Grand hótel í Reykjavík miðvikudaginn 9. mars 2016.
Góður efniviður til áframhaldandi mótunar nýrrar skógræktarstofnunar
Flestir starfsmenn Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna tóku þátt í stefnumótunarfundi um nýja skógræktarstofnun sem haldinn var á Grand hótel í Reykjavík í gær. Unnið var með þjóðfundarfyrirkomulagi á átta hringborðum og er afrakstur fundarins dýrmætt vegarnesti stýrihóps sem vinnur áfram að mótun nýrrar stofnunar sem stefnt er að því að taki til starfa á miðju sumri komanda. Sem kunnugt er hefur verið lagt til að hin nýja stofnun fái heitið Skógræktin.
Fundurinn hófst á því að Arnar Jónsson og Arnar Pálsson, ráðgjafar Capacent, útskýrðu fyrirkomulag fundarins og síðan voru kynntar niðurstöður úr vinnu þeirra þriggja hópa starfsmanna sem unnu greiningarvinnu í febrúarmánuði á faglegum málum, innri málum og ytri málum Skógræktarinnar. Einn fulltrúi hvers hóps fór yfir helstu niðurstöður síns hóps.
Stefnumótunarvinnan í gær fór þannig fram að þátttakendum var skipt í átta hópa sem settust hver við sitt hringborð og unnu undir stjórn borðstjóra fyrir fram ákveðin verkefni. Unnið var í sex lotum en fundurinn var líka brotinn upp með skemmtilegri hugleiðingu Stefáns Mána rithöfundar, sem nú íhugar að hefja skógræktarnám á Reykjum í Ölfusi. Stefán Máni talaði um að hann hefði talsvert notað skóg í bókum sínum enda væru skógar ævintýraheimur þar sem margt gæti gerst. Mikilvægt væri líka að horfa á skógana í því samhengi, auk skógarnytja og alls annars sem skógarnir gæfu. Skógar væru ævintýri.
Þá greindi Björn Helgi Barkarson, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, frá stöðu mála í ráðuneytinu, að enn væri unnið að bandorminum sem leggja þarf fram á Alþingi svo að sameiningin geti orðið og að væntanlega verði farin sú leið við sameininguna að allir starfsmenn haldi ráðningarsamningum sínum inn í nýja stofnun.
Í fyrstu lotu stefnumótunarvinnunnar áttu hóparnir að setja fram hugmyndir um og ræða hlutverk Skógræktarinnar. Í annarri lotu var fjallað um hver ættu að vera gildi stofnunarinnar og í lok lotunnar var þessum gildum raðað upp eftir mikilvægi. Framtíðarsýn var til umræðu í þriðju lotu og þar áttu þátttakendur að setja niður fyrir sér hvernig þeir vildu sjá Skógræktina eftir 3-5 ár. Loks átti hver hópur að sammælast um þau fjögur atriði sem þættu mest lýsandi og helst vert að vekja athygli á. Í framhaldi af því settu hóparnir á blað þau markmið sem þeir vildu setja sér til að ná téðri framtíðarsýn.
Lotur fimm og sex voru unnar samhliða. Fjórir hópanna byrjuðu á því að skoða hvað af þeim verkefnum sem Skógrækt ríkisins og Landshlutaverkefnin væru að vinna að núna gætu orðið hluti þess að ná fyrrgreindri framtíðarsýn og markmiðum. Á meðan ræddu hinir fjórir hóparnir hvaða verkefni þyrfti að hefja og leysa til að ná þessum sömu markmiðum. Síðan var fólki víxlað á borðunum að frátöldum hópstjóra og ritara hvers borðs og haldið áfram að ræða sömu málefni til að dýpka niðurstöðurnar. Undir lok fundarins kynntu borðstjórar öllum viðstöddum niðurstöður vinnunnar á hverju borði.
Almenn ánægja var með árangur fundarins og greinilegt á máli borðstjóranna að umræðan hafði ekki þróast alveg með sama hætti frá einu borði til annars. Því má búast við að fjölbreyttar hugmyndir og sjónarmið hafi komið út úr þessari vinnu.
Ráðgjafar Capacent höfðu á orði að þessi sameiningarvinna gengi einstaklega vel og gæti orðið góð fyrirmynd í öðrum sambærilegum verkefnum við sameiningu ríkisstofnana. Á næstu vikum verður unnið úr allri þessari greiningar- og hugmyndavinnu undir stjórn stýrihóps yfirmanna þeirra stofnana sem sameinaðar verða ásamt fulltrúa ráðuneytisins og ráðgjöfum Capacent.
Hópstjórar þeirra þriggja vinnuhópa starfsmanna sem unnu greiningarvinnu í
febrúarmánuði á faglegum málum, innri málum og ytri málum nýrrar skógræktarstofnunar,
greindu frá helstu niðurstöðum hvers hóps áður en stefnumótunarvinnan hófst á
hringborðunum átta. Hér segir Ólafur Eggertsson frá niðurstöðum hópsins
sem fjallaði um innri málin.
Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu,
ræddi m.a. um hvernig starfsmannamálum yrði að öllum líkindum háttað
við sameiningu stofnana skógræktar.