Ráðstefnan "Staða og framtíð alaskaaspar á Íslandi" var laugardaginn 5. mars sl., í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, í Vatnsmýrinni í Reykjavík, í tengslum við fulltrúafund skógræktarfélaganna. Vel þótti við hæfi að halda ráðstefnuna í þessu húsnæði því alaskaöspin er eina trjátegundin, og raunar ein meðal fárra tegunda almennt, sem hingað til hefur verið raðgreind.
Að ráðstefnunni stóðu Skógræktarfélag Íslands og Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, í samvinnu við Skógfræðingafélag Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Heiðursgestur ráðstefnunnar var Haukur Ragnarsson, fyrrv. forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá.
Ráðstefnan var vel sótt og fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir. Í lok ráðstefnunnar fóru fram gagnlegar umræður sem snerust að stórum hluta um kosti alaskaaspar sem hávaxið tré í þéttbýli. Heildarniðurstaða þeirra umræðna var sú að gróðursetja þurfi mun meira af alaskaösp og öðrum hraðvöxnum, hávöxnum trjátegundum í íslensku þéttbýli. Sömuleiðis að ótvíræðir kostir hennar vegi mun þyngra en ýmsir meintir gallar sem hafa af einhverjum ástæðum notið meiri athygli fjölmiðla og almennings undanfarin misseri, sem því miður bera nokkurn keim af hleypidómum og "tegundaofsóknum".
Samþykkt var að senda eftirfarandi yfirlýsingu til fjölmiðla:
"Ráðstefna um stöðu og framtíð alaskaapar á Íslandi, haldin í Reykjavík 5. mars 2005 af Skógræktarfélagi Íslands, Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Skógfræðingafélagi Íslands, hvetur til þess að stærri sveitarfélögin í landinu skapi og sjái til þess að nægilegt rými verði til aukins og stærri trjágróðurs í þéttbýli. Með aukinni og markvissri gróðursetningu er stuðlað að:
· Meira skjóli
· Minni rykmengun
· Minni hávaða
· Fegurra umhverfi
· Bættri heilsu og vellíðan íbúa."
Ráðstefnustjórar voru Guðbrandur Brynjúlfsson, formaður Landgræðslusjóðs og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands og Ólafur Arnalds, deildarforseti Umhverfisdeildar í Landbúnaðarháskóla Ísland
Þórarinn Benedikz, sérfræðingur á Mógilsá, og Lárus Heiðarsson, landsráðunautur Skógræktar ríkisins, bera saman bækur sínar í asparklónasafni á Hallormsstað vorið 2004. Klónasafn þetta var gróðursett árið 1992. Mynd: Halldór Sverrisson.
Alaskaösp "Haukur". Þessi asparklónn er afar vinsæll til ræktunar í Reykjavík, en hann er upphaflega skýrður í höfuðið á Hauki Ragnarssyni, heiðursgesti ráðstefnunnar. Mynd: Halldór Sverrisson.
Tvær aldnar skógræktarkempur sem sóttu ráðstefnuna. Til hægri er Baldur Þorsteinsson, skógfræðingur og fyrrum aðstoðarskógræktarstjóri en á vinstri hönd er heiðursgestur ráðstefnunnar, Haukur Ragnarsson skógfræðingur og fyrrum forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Heiðursgestur ráðstefnunnar, Haukur Ragnarsson, hlýðir hér á eitt erindanna. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Hluti ráðstefnugesta. Fjöldi þeirra fór yfir 150 manns, þrátt fyrir blíðviðri utandyra á laugardegi. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
DAGSKRÁ VAR SEM HÉR SEGIR:
13:00
Ráðstefnan sett af Guðbrandi Brynjólfssyni
13:10
Haukur Ragnarsson og alaskaöspin á Íslandi:
Hrefna Jóhannesdóttir, formaður Skógfræðingafélags Íslands
ÖSPIN Í STÆRRA SAMHENGI
13:20
Alaskaöspin í gömlum og nýjum heimkynnum, gagn og nytjar:
Brynjólfur Jónsson og Einar Gunnarsson
13:40
Vöxtur alaskaaspar á Íslandi:
Arnór Snorrason
ÖSPIN, LÍF OG LÍFSGÆÐI ANNARA
14:00
Lífríki asparskóga:
Jón Ágúst Jónsson, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Guðmundur Halldórsson og Brynjólfur Sigurjónsson
14:20
Of stór tré fyrir þéttbýli?:
Áslaug Traustadóttir
14:40
Alaskaöspin í görðum og grænum svæðum:
Tryggvi Marínósson
15:00
Málsvörn alaskaaspar:
Jón Geir Pétursson
15:20 Kaffihlé
BETRI ÖSP
15:40
Aðlögun, erfðafræði og klónaval alaskaaspar:
Aðalsteinn Sigurgeirsson
16:00
Breytileiki í frostþoli meðal klóna alaskaaspar að vor- og haustlagi:
Freyr Ævarsson
16:20
Alaskaösp og asparryð:
Halldór Sverrisson, Guðmundur Halldórsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson
16:40
Áhrif umhverfisþátta á vöxt alaskaaspar:
Bjarni D. Sigurðsson
17:00
Umræður og samantekt