Hákon Guðmundsson heldur hér ræðu á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Kirkjubæjarklaustri árið 1957. Myndin er í eigu Skógræktarfélags Íslands. Ljósmyndari óþekktur.

Fyrir 100 árum, þann 18. október 1904, fæddist Hákon Guðmundsson, fyrrverandi yfirborgardómari í Reykjavík.

Hákon var mikill áhugamaður um umhverfismál, ekki síst skógrækt og landgræðslu, og valdist af verðleikum til forystustarfa.

Hann var formaður Skógræktarfélags Íslands 1961 - 1972 og fyrsti formaður Landverndar 1969 -1979. Auk þess var hann fyrsti stjórnarformaður Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá.

Hákon féll frá 6. janúar 1980 á 76. aldursári.

Heimild: Vefur Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is

Grýttum holtum við Bjarkahlíð breytt í græna skóga

(Frétt Morgunblaðsins, 21. október 2004, í tilefni aldarafmælis Hákonar Guðmundssonar)

Á árunum 1939-1972 gróðursettu hjónin Hákon Guðmundsson og Ólöf D. Árnadóttir þúsundir trjáa auk annarra plantna við hús sitt í Bjarkahlíð í Bústaðahverfi. Skógurinn er nú í eign borgarinnar og opinn öllum. Sunna Ósk Logadóttir skoðaði sögu Bjarkahlíðar í tilefni aldarafmælis Hákonar 18. október sl. og 95 ára afmæli Ólafar sem var fjórum dögum fyrr

Á fyrstu áratugum 20. aldarinnar var landið þar sem Bústaðahverfið stendur nú berangursleg jaðarbyggð. Um 1930 voru þar nær eingöngu sumarbústaðir innan um smábýli sem nutu góðs af nálægð landnámsjarðarinnar Bústaða þar sem hægt var að kaupa egg og mjólk af ábúendum. Sumarbústaðaeigendurnir ræktuðu margir hverjir rabbabara og aðrar matjurtir því þetta var fyrir tíð almennrar skógræktar. Þó skóglendi hafi líklegast verið töluvert á svæðinu á öldum áður var það löngu horfið vegna beitar, skógarhöggs og uppfoks.

En þetta átti allt eftir að breytast og hefur eitt svæði, Bjarkahlíð, nokkra sérstöðu í þeim efnum. Í höndum framtakssamra hjóna breyttist gróðurlítið holt í einn af stærstu einkatrjágörðum í Reykjavík.

Sest að í Bjarkahlíð

Ung hjón, Hákon Guðmundsson lögfræðingur sem starfaði lengi sem hæstaréttarritari og síðar yfirborgardómari, og Ólöf D. Árnadóttir rithöfundur og leikfimikennari, leigðu svæðið Bjarkahlíð, rúmlega hektara af landi, til móts við landnámsjörðina Bústaði, árið 1939. Þar hafði nokkrum árum áður verið byggður sumarbústaður en ungu hjónin settust þar að og hófu í sameiningu mikla ræktun. Hákon, sem síðar varð formaður Skógræktarfélags Íslands og fyrsti formaður Landverndar, gróðursetti tré og prófaði sig áfram með margar tegundir. Ólöf einbeitti sér að gróðursetningu blóma og gerði tilraunir með matjurtir, enda mikil áhugakona um heilsufæði.

Reynitré var gróðursett við aðaldyr íbúðarhússins, smávaxnar birkihríslur víðsvegar um holtið og Hákon prófaði einnig að gróðursetja barrtré og komst að því að sitkagrenið dafnaði vel við Bjarkahlíð. Einnig gróðursetti hann gulvíði og gerði tilraunir með aspir en þær þoldu illa umhleypingana á vorin. Hákon vann fulla vinnu en á kvöldin og um helgar setti hann niður þúsundir trjáplantna á víð og dreif um landareignina.

Á meðan setti Ólöf niður blóm og jurtir sem fóru sumar hverjar að vaxa villt með trjánum, t.d. vallhumall, maríustakkur og fleiri tegundir. Hún var einnig með kartöflugarð og ræktaði gulrætur og rófur, ýmsar káltegundir sem og annað grænmeti.

Skipulagi mótmælt

Smám saman fór byggð að þéttast í hverfinu og braggabyggð og smábýli, sem sum hver voru byggð af litlum efnum, viku fyrir skipulagðri útþenslu borgarinnar. Hluta af landi Bjarkahlíðar tóku bæjaryfirvöld undir byggð og óttuðust hjónin um sinn hag í byrjun sjötta áratugarins. Hákon gat ekki orða bundist og sendi bæjarráði bréf þar sem hann mótmælti fyrirhuguðu skipulagi á svæðinu austan Tunguvegar og á milli Sogavegar og Bústaðavegar. Í bréfinu segir m.a. að því verði ekki neitað "að manni þykir að sjálfsögðu hart að hlíta því, að á sama tíma sem yfirvöld bæjarins af framsýni og skilningi styrkja skógræktarstarfsemi almennt með miklum myndarbrag, þá skuli trjáræktarviðleitni einstaklingsins mætt með því að beita vélskóflum á þá bletti þar sem öll tómstundavinna hefur til þess farið að breyta grýttum holtum í græna skóga".

Í bréfinu kemur ennfremur fram að fyrir Hákoni hafi ávallt vakað að landinu yrði síðar breytt í skemmtigarð fyrir borgarbúa, enda væri landið sökum legu sinnar vel til þess fallið. Meira var ekki tekið af landi þeirra hjóna.

Byggð þéttist óðum á svæðinu umhverfis Bjarkahlíð og árið 1969 reis Bústaðakirkja á lóðinni við hliðina. Um svipað leyti lést síðasti bóndinn á Bústöðum, Ragnar Jónsson, og voru tún hans lögð undir Óslandið og nærliggjandi götur.

Ólöf og Hákon eignuðust þrjár dætur þær Ingu Huld, Hjördísi og Hildi. Þær ólust upp í Bjarkahlíð en árið 1972 seldu Hákon og Ólöf Reykjavíkurborg eignina og fluttust að Ölfusá þar sem þau héldu skógrækt áfram. Þegar Hákon lést árið 1981 flutti Ólöf á Selfoss þar sem hún skapaði þriðja garðinn að Árvegi 6. Hún lést árið 1993.

Hollvinasamtök stofnuð um Bjarkahlíð

Skógurinn í Bjarkahlíð er nú orðinn þéttur og mikill enda hefur hann fengið að vaxa nánast óáreittur frá því borgin tók við honum. Um árabil hefur verið rekin sérdeild frá Réttarholtsskóla í íbúðarhúsinu í Bjarkahlíð og unglingar í Bústöðum, félagsmiðstöð í Bústaðakirkju, hafa nýtt hann. Það vita þó færri að skógurinn er opinn öllum. Sumarið 2002 lagði Reykjavíkurborg göngustíga um skóginn og setti upp lýsingu og upplýsingaskilti.

En systurnar Inga Huld, Hjördís og Hildur vildu gjarnan að skógurinn yrði tekinn í fóstur af aðilum sem bera hag hans fyrir brjósti, að hann verði ekki jafnmunaðarlaus og hann hefur verið frá því foreldrar þeirra fluttu þaðan fyrir rúmum þrjátíu árum, líkt og Inga Huld orðar það.

Hún segir að íbúar í hverfinu hafi stundum tekið sig saman og hreinsað skóginn enda sé það ekkert leyndarmál að í þéttum skóginum hafi utangarðsfólk átt skjól. Telja þær systur að hlúa þurfi að þessum gróðursæla reit betur og um leið laða að fólk sem vill njóta fjölbreytts gróðurfars inni í nánast miðri Reykjavík. Í þeim tilgangi voru stofnuð hollvinasamtök Bjarkahlíðar. Verkefni þeirra er að finna garðinum í Bjarkahlíð hlutverk og koma hugmyndum þar að lútandi til réttra aðila. Meðal hugmynda sem upp hafa komið og er nú í skoðun hjá fræðsluyfirvöldum Reykjavíkurborgar, er að setja á stofn fræðslumiðstöð eða nokkurs konar náttúruskóla í Bjarkahlíð. Þar myndi fara saman fræðsla um gróður og heilsusamleg útivera. Systrunum hugnast sú hugmynd vel og hafa jafnvel velt fyrir sér hlutverki íbúðarhússins ef til þessa kæmi.

Bent hefur verið á að í garðinum eru margar tiltölulega fágætar trjátegundir og ýmsar fjölærar jurtir sem hafa dafnað þar vel og telja hollvinasamtökin að merkja mætti tré og aðrar plöntur í skóginum, gestum til gagns og gamans.

Í tilefni aldarafmælis Hákonar Guðmundssonar og 95 ára afmælis Ólafar munu ættingjar og skógræktarfólk hittast í Bjarkahlíð um helgina og minnast þess frumkvöðlastarfs í skógrækt sem þau hjónin unnu. En allan ársins hring er garðurinn sjálfur opinn almenningi.

sunna@mbl.is