Bændurnir í Vallanesi á Héraði hafa hlotið ítölsk verðlaun fyrir ræktun skógar og skjólbelta í landbúnaði og fyrir að skapa skilyrði til sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Með markvissri notkun trjáplantna í skóg- og skjólbeltarækt hafa ræktunarskilyrði í Vallanesi batnað að miklum mun á fáeinum áratugum.
Vallanesjörðin er gott dæmi um þann árangur sem ná má með samspili trjáræktar við akuryrkju og búfjárrækt. Slíkt samspil hefur verið kallað búskaparskógrækt hérlendis. Til viðbótar við aukna grósku og afrakstur af bújörðinni gefur búskaparskógrækt einnig timbur og aðrar viðarafurðir með tímanum eins og vel sést á dæminu úr Vallanesi þar sem heilt hús hefur verið reist úr 30 ára gömlum alaskaöspum af heimalandinu.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Eymund Magnússon sem er bóndi í Vallanesi ásamt konu sinni, Eygló Björk Ólafsdóttur. Verðlaunin voru veitt á viðburði sem á íslensku gæti kallast „Bylting matjurtagarðsins“ og er á vegum matarvísindaskóla á Norður-Ítalíu, Slow Food samtakanna og víngerðarinnar Ceretto í Alba.
Um verðlaunin segir Eymundur: „Þetta er fyrir þetta landslag sem ég skapaði í Vallanesi. Þetta var náttúrulega auð jörð, engi tré engir akrar og ekki neitt þegar ég kom 1979.“ Og orðrétt segir í grein Morgunblaðsins:
Eymundur hlaut verðlaun fyrir ræktun skógar og skjólbelta í landbúnaði auk þess að hafa skapað skilyrði fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu. „Það er nýtt að veita framleiðendum verðlaun og ég verð fyrir valinu sem þessi skrítni bóndi á Íslandi.“ Verðlaunin, sem heita „Premio Langhe Ceretto“, hafa undanfarin ár verið veitt rithöfundum fyrir verk sem tengdust matarmenningu en hin nýju verðlaun beina sjónum sínum að þeim sem skara fram úr á sviði sjálfbærrar ræktunar og eru öðrum til fyrirmyndar á sviði landbúnaðar.
Í samtali við Morgunblaðið segir Eymundur verðlaunin hafa komið sér á óvart. „Þetta gerðist þannig að Carlo Petrini, einn af stofnendum Slow Food, kom til Íslands og ferðaðist um landið í fyrra og kom við hjá okkur,“ segir Eymundur.
Eymundur er menntaður búfræðingur og hóf búskap í Vallanesi árið 1979. Í dag rekur hann þar fyrirtækið Móður Jörð ásamt eiginkonu sinni, Eygló Björk Ólafsdóttur viðskiptafræðingi. „Ég byrjaði að planta skjólbeltum, nema land og búa til akrana 1983 og svo 1989 byrjaði skógræktin. Það sem er sérstakt á Íslandi er þetta skjólbeltakerfi og skógurinn í kringum það. Svo er ég búinn að búa til þarna sérstakan heim með ökrum, skógbeltum og skógi í kringum það.“ Athygli vekur að í Vallanesi var fyrsta húsið byggt sem er alfarið úr íslenskum viði, úr öspum sem Eymundur plantaði 1986, að hans sögn.
Hann segir ræktunina alla snúast um líffræðilegan fjölbreytileika og að breyta ásýnd ábúnaðar öðrum til eftirbreytni.
„Uppáhaldsfrasinn minn er að ég er búinn að flytja Vallanes sunnar á hnöttinn.Ég gerði Ítalina svolítið ánægða með mig þegar ég sagði að ég væri búinn að flytja Vallanes aðeins nær Ítalíu.“
Eymundur hefur áður fengið verðlaun fyrir notkun á skjólbeltum og skógrækt í landbúnaði. hann fékk landbúnaðarverðlaunin árið 2004 og 2011 var hann sæmdur fálkaorðunni fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar. Þau Eygló Björk reka fyrirtækið Móður jörð og Eygló er einn stofnenda Slow Food hreyfingarinnar á Íslandi og formaður félags lífrænna framleiðenda sem kallast VOR - verndun og ræktun.