Snafsar úr birkisafa á markað vestanhafs

Útflutningur er að hefjast til Bandaríkjanna á líkjörum og snöfsum sem framleiddir eru úr íslenskum birkisafa hjá fyrirtækinu Foss distillery. Stefnt er að því að vörurnar verði komnar á markað ytra í byrjun október. Framkvæmdastjórinn telur mögulegt að vinna verðmæt efni úr íslenskum birkiskógum og skapa af þeim meiri arð en áður hefur verið unnt.

Líkjörinn frá Foss distillery heitir Björk og snafsinn Birk­ir. Drykkirnir eru unnir úr ís­lensku birki og birkisafa. Þeir fást nú þegar í Danmörku og samn­ing­ar um sölu þeirra í fleiri Evrópulöndum eru í vinnslu. Frá þessu seg­ir í frétta­til­kynn­ing­u sem Foss distillery hefur sent frá sér. Fyrirtækið var stofnað í nóvember 2010 og leggur áherslu á að nýta í vörur sínar íslenskar lækningajurtir og hráefni úr skógum landsins. 

Norðlægt birki kröftugra

Jakob S. Bjarnason mjólkurfræðingur er framkvæmdastjóri Foss distillery. Hann segir að mikill skortur sé á birkisírópi í Evrópu og mikil spurn eftir lífrænt vottuðu sírópi sérstaklega. Ísland hafi jákvæða ímynd um hreina náttúru og því telur Jakob mikla möguleika felast í íslenska birkinu ef mögulegt reynist að útvega nóg af birkisafa. Talið sé að „efnasamsetningin“ í birkisafanum sé önnur á norðlægum slóðum en í heitari löndum, meiri virkni og kraftur. Hér sé líka nóg af ódýru heitu vatni sem nota má til að einangra þau efni í birkisafanum sem sóst er eftir. Vörur úr íslensku birki og birkisafa geti því fallið vel að vaxandi kröfum markaðarins um hreint hráefni og græna orku.

Birki í yfir 500 metra hæð í Lönguhlíð í Austurdal í Skagafirði.
Mynd: Pétur Halldórsson.


Vörur þróaðar úr birki og birkisafa

Foss distillery hefur efnt til samstarfs við Matís um að þróa þrjár vörulínur úr birki og birkisafa. Í fyrsta lagi er sjálfur birkisafinn og vörur úr honum, bæði óáfengir og áfengir drykkir. Í öðru lagi er stefnt að því að vinna birkisíróp úr birkisafanum, þykkni, bragðefni til ísgerðar, í sýrðar mjólkurvörur, til matargerðar og í áfenga drykki. Í þriðja lagi er svo stefnt að því að framleiða kraft eða extrakta úr birki sem nota má við framleiðslu á ýmsum hollustuvörum. Jakob segir að sú vörulína sé flóknari en hinar tvær í þróun og framleiðslu og að henni verði unnið í samstarfi við líftæknisvið Matís.

Jakob bendir á að möguleikar á hagnýtingu trjáviðar úr birki séu takmarkaðir en birkið geti hins vegar verið gjöful auðlind ef það er nýtt til framleiðslu á verðmætum neysluvörum fyrir fólk. Til þess að það sé hægt þurfi að þróa aðferðir við að safna birkisafanum og komast að því hversu miklum birkisafa er hægt að ná úr íslensku birkiskógunum með hagkvæmum og sjálfbærum hætti. Hann segir að leitast verði við því að afla þekkingar frá útlöndum en bendir líka á að nokkur reynsla hafi þegar fengist hérlendis. Þar nefnir hann fyrirtækið Holt og heiðar sem safnar birkisafa úr Hallormsstaðaskógi og nýtir í framleiðslu sína en útvegar líka Foss distillery hráefni.

Birkisafa safnað í brúsa.">

Fjölbreyttir möguleikar

Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar, segir Jakob, bæði á skógunum sjálfum og á eiginleikum þeirra efna sem vinna má úr birkinu. Foss distillery vinnur nú að því að koma á formlegu samstarfi við Skógrækt ríkisins um tilraunir við að safna birkisafa, geyma hann og búa til flutnings til framleiðanda. Í vor var safnað birkisafa í Tumastaðaskógi og meiningin er að gera það næstu 3 árin til að öðlast þekkingu á hegðun trjánna og áhrifum safatökunnar á vöxt og þroska þeirra. Birkisafa var líka safnað í Vaglaskógi í vor í tilraunaskyni. Þá er í undirbúningi samstarf við danskt fyrirtæki um rannsóknir á hollustu og lækningamætti birkisafans og mögulegri vinnslu á hráefni til lyfjaiðnaðarins. Jakob segir sterkar vísbendingar gefa til kynna að vinna megi úr birkisafanum efni sem hamla gegn frjókornaofnæmi og þá sérstaklega ofnæmi fyrir birkifrjói.

Möguleikarnir sem felast í íslenska birkinu eru margvíslegir, að mati Jakobs. Þar sem uppskerutíminn er bundinn við fáeinar vikur á vorin og í byrjun sumars sér hann fyrir sér að virkja verði skógareigendur um allt land. Safatakan varir í 4-6 vikur, frá miðjum mars til loka apríl, en það fer nokkuð eftir landshlutum og veðri. Sólin stýrir þessu eins og öllu öðru í lífríkinu. Birkisafinn er líka mjög viðkvæmur og súrnar fljótt. Hann er mjög líkur mjólk hvað það varðar, segir Jakob, hefur þriggja til fimm daga geymsluþol eftir að honum er tappað af trjánum. Því er mikilvægt að þróa vel allar aðferðir við söfnun, vinnslu og flutning hráefnisins. Þessa þekkingu má þó að einhverju leyti sækja til útlanda, til dæmis til Danmerkur þar sem áratuga reynsla er af söfnun birkisafa.

Betri birkiskógar

Villtur íslenskur birkiskógur er æði misjafn og sjaldnast er mikið um hann hirt. Jakob S. Bjarnason telur að vel skipulögð og sjálfbær nýting á birkisafa og birkigreinum geti haft margvíslega kosti í för með sér fyrir íslenska birkiskóga. Fyrir vinnsluna sé hagkvæmast að trén séu sem beinust og stofnar sem sverastir. Því stuðli vinnslan að því að skógarnir verði grisjaðir og um þá hirt. Sömuleiðis geti þetta hvatt til aukinnar ræktunar á birkiskógum og þarna sé því tækifæri til að breiða út íslenska birkiskóga, fegra þá og hafa af þeim arð. Skógarnir eru um allt land og nýting þeirra byggir því undir atvinnulíf og búsetu vítt og breitt.


Texti: Pétur Halldórsson