Mynd: Lóðaverð á Manhattan er með því dýrasta sem þekkist í heiminum. Engu að síður hefur borgaryfirvöldum Nýju-Jórvíkur aldrei dottið í hug að taka Central Park undir nýbyggingasvæði.
Skógar Íslands er fáir og strjálir, svo sem kunnugt er. Engu að síður sýna tölur að Íslendingar nýta skóga til útivistar í engu minna mæli en þær Evrópuþjóðir sem búa að mun víðáttumeiri skógum. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru fátækari af náttúrlegum skógum en margir aðrir landsmenn. En skógræktarfélög, einkaaðilar og Skógrækt ríkisins hafa á undangengnum áratugum grætt upp á skóga og skógarteiga á höfuðborgarsvæðinu, sem í dag eru orðin fjölsótt útivistarsvæði sem nýtast íbúunum til skjóls, náttúruskoðunar, hreyfingar og heilsubótar. Útivist í skógum gæti án efa verið mun ríkari þáttur í því að stuðla að bættri lýðheilsu ef fleiri skógar væru nær byggð og ef gert væri ráð fyrir aukinni ræktun þeirra við skipulag byggðar.
Því miður má greina öfugþróun í skipulagsmálum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn áratug sem birtist í virðingarleysi gagnvart óeigingjörnu starfi skógræktarfólks ásamt því að ekkert tillit er tekið til mikilvægis útivistarskóga fyrir íbúana við gerð skipulaga. Sem dæmi má nefna að í lok síðasta áratugar var reist íbúðabyggð í Grafarholti þar sem upp var að vaxa skógur sem unglingar á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur höfðu gróðursett á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Nýlega var auglýst deiliskipulag í s.k. „Krikahverfi“ í Mosfellsbæ, á svæði sem unglingar á vegum Skógræktarfélags Mosfellsbæjar voru áður búnir að græða fallegum skógi.
Nýjasta dæmið af þessum toga er kynnt í meðfylgjandi grein sem Bragi Michaelsson ritar í Morgunblaðið í dag („Skipulags- og umhverfismál í Kópavogi“). Þar er sagt frá breytingu á deiliskipulagi Kópavogs sem gerir ráð fyrir íbúðabyggð á Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð, á svæðum sem til þessa hafa verið skilgreind sem útivistarsvæði og landgræðsluskógasvæði, og þar sem Skógræktarfélag Kópavogs hefur annast ræktun skóga undanfarin fimmtán ár.
„Skipulags- og umhverfismál í Kópavogi“ eftir Braga Michaelsson: (Morgunblaðið, miðvikudaginn 18. janúar, 2006 - Aðsent efni)
Kópavogsbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem vaxið hafa mjög ört á síðustu árum.
Það kemur því ekki á óvart að skipulags- og umhverfismál hafi verið fyrirferðarmikil í allri umræðu innan bæjarfélagsins. Allt til ársins 1990 var ekki gert ráð fyrir að byggð þróaðist í Fífuhvammslandi og Vatnsendalandi fyrir en um eða eftir 2010. Raunin hefur orðið allt önnur og nú er byggðin að rísa í Vatnsendalandi. Samhliða þessari þróun hafa skipulagsyfirvöld skipulagt byggðina að útivistarsvæðum sem áður voru fjarri henni.
Nýverið auglýsti Kópavogsbær nýtt deiliskipulag að íbúðarbyggð á Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð og á þetta sérstaklega við þau svæði. Fram til þessa hafa þessi svæði verið skilgreind sem útivistarsvæði og landgræðsluskógasvæði. Vissulega ber að aðlaga byggð að þessum svæðum en spurningin er hvernig og hvort hafa á þessi svæði sem útivistarsvæði? Á Hnoðraholti er í dag að vaxa upp landgræðsluskógur og þar liggja reiðleiðir frá svæði Hestamannafélagsins Gusts frá Glaðheimum. Með nýrri skipulagstillögu er svæðið aflagt sem landgræðsluskógarsvæði og reiðleiðir verða mun þrengri. Þetta tel ég bagalegt og hefðu skipulagsyfirvöld átt að horfa betur til þessa áður en skipulagið var samþykkt.
Á Smalaholti er þessu á sama veg farið og er skógurinn þar orðinn mjög fallegur.
Skógræktarfélögin hafa lagt til að horfið verði frá byggð á Smalaholti og útivistarsvæðið látið halda sér. Í norðurhlið Rjúpnahæðar hefur einnig verið lagt til að landgræðsluskógarsvæðið verði aflagt og að á Rjúpnahæð verði byggt.
Mín skoðun er sú að halda eigi í landgræðsluskógarsvæðin sem mest óbreytt en byggja eigi upp á Rjúpnahæðinni. Með því móti væri komið til móts við sjónarmið allra aðila.
Tryggja mætti greiðar reiðleiðir frá hesthúsahverfinu í Glaðheimum gegnum skógarsvæðið og bæjarfélagið gæti aukið hagkvæmi byggðarinnar.
Á svæðinu í Hnoðraholti mætti koma fyrir skemmtilegu nærsvæði fyrir alla íbúa svæðisins þar sem njóta má útivista í skógi innan bæjarmarkanna.
Það er vandaverk að vinna að skipulagsmálum í þéttbýli en jafnframt nauðsynlegt að staðið sé að því með skynsemi og festu. Það er mín tillaga að þessi sjónarmið verði látin ráða þegar lokaafgreiðsla fer fram á skipulaginu í bæjarstjórn Kópavogs.
Höfundur er ráðgjafi og varabæjarfulltrúi. Býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksi