Ungir sprotar á fjallaþini í Vaglaskógi í júlí 2015
Komið að því að velja trén sem seld verða fyrir jólin
Ágúst er sá tími hjá jólatrjáabændum þegar farið er út í reitina, trén skoðuð og „uppskera ársins“ tekin út. Þar fyrir utan eru ýmis verkefni sem vinna má áður en haustið skellur á. Else Möller, skógfræðingur á Akri í Vopnafirði, gefur góð ráð um ágústverkin. Eftir heimsóknir sínar til jólatrjáabænda í sumar og fyrrasumar segist hún sannfærð um að framleiðslan muni aukast jafnt og þétt á komandi árum.
Else heimsótti jólatrjáaræktendur á Suðurlandi í júní og júlí í sumar og fór á níu af þeim bæjum sem undanfarin ár hafa tekið þátt í verkefni um þróun jólatrjáaræktar. Einnig kom hún á tvo bæi þar sem heimafólk er að velta fyrir sér að hefja jólatrjáarækt.
Að sögn Else gengur jólatrjáaræktin misvel á bæjunum. Grasvöxtur sé vandamál hjá langflestum og trén þurfi því að keppa mikið við grasið um næringu og ljós. Mismunandi aðferðum sé beitt til að berjast gegn grasinu. Í Múlakoti er grasið slegið með sláttuvél, á Gýgjarhóli eru notuð dagblöð og gamlar skeifur, á Snæfoksstöðum er illgresislyfið Roundup stundum notað og í Prestsbakkakoti var gróðursett í plast. Í Skógarhlíð var bóndinn með klippurnar í vasanum og í óða önn að klippa og laga til á meðan farið var um og svæðið skoðað.
Ekki er alls kostar ljóst hvaða aðferð er best, hagkvæmust, visthæfust og fljótlegust, segir Else. Mikilvægt sé að bændur fikti sig áfram og finni þá aðferð sem hentar hverjum og einum og borgar sig á viðkomandi stað.
Else segir alltaf gaman að fara um og heimsækja áhugafólk. Fróðlegt áhugavert sé að sjá og heyra hvað fólk sé að gera, pæla og prófa! Á yfirborðinu líti kannski ekki út fyrir að margt sé að gerast í íslenska jólatrjáageiranum en góðir hlutir gerist hægt. Eftir ferðina um Suðurland í sumar og svipaða ferð á Norðurlandi í fyrra segist hún viss um að framleiðslan á íslenskum jólatrjám fyrir heimamarkað muni aukast jafnt og þétt á komandi árum.
Verkefni ágústmánaðar hjá jólatrjáabændum
Dagatal jólatrjáabóndans hefur verið að taka á sig mynd hér á vefnum skogur.is undanfarin misseri. Hér eru þau atriði sem Else Möller segir vert að huga að í ágústmánuði.
Íbætur
Ekki er óalgengt að ungplöntur gefist upp fyrstu árin og mismunandi ástæður eru fyrir því. Til að nýta plássið í jólatrjáareitnum er upplagt að kaupa nokkra auka bakka af plöntum til að bæta inn í þar sem vantar. Munið að hafa litlar klippur í vasanum ef þið rekist á tré með tvítopp eða annað sem tilvalið er að laga í leiðinni.
Áburðargjöf á tré sem eru tilbúin til sölu
Mælt er með að bæta köfnunarefnisáburði og magnesíum á trén sem á að uppskera til að örva græna litinn (ca. 50 g á tré). Ekki er dreift áburði á yngri tré því það eykur hættu á síðvexti sem oftast leiðir til kals á nýju sprotunum.
Merkja tré sem eru tilbúin til sölu
Nú er hárréttur tími til að fara út í reitina og finna til þau tré sem eru tilbúin til sölu því nú er bjart, hlýtt og skemmtilegt að vera úti. Þannig er það ekki alltaf í nóvember. Til að búa sig sem best er gott að hafa meðferðis:
- mæliprik til að mæla hæð trjáa
- borða til að merkja trén eftir hæð og flokki. Gott að fara yfir leiðbeiningarnar: Flokkunarkerfi fyrir íslensk jólatré – greni og þinur og Flokkunarkerfi fyrir íslensk jólatré – fura. Jafnvel að prenta þær út og hafa með sér
- Penna og pappír til að skrá hjá sér fjölda trjáa (tegund, í hvaða stærð og flokki) sem eru tilbúin og geta farið í sölu fyrir komandi jól
Upplýsingarnar má senda til mín (else.akur@gmail.com) og til þeirra sem taka að sér að selja jólatré
Undirbúningur fyrir nýgróðursetningu 2017
Í jólatrjáaræktun er mikilvægt að gróðursetja ákveðinn fjölda plantna á hverju ári til að halda framleiðslunni við. Því er gott að byrja að undirbúa næsta ár sem fyrst.
- Leggja inn pöntun hjá gróðrarstöðvum
- Setja bakkaplöntur í potta til forræktunar og geyma þær t.d. í skjólgóðum skógabotni
- Ákveða hvaða spildu skuli taka til ræktunarinnar og undirbúa landið
Helmingurinn af vel unnu verki er undirbúningurinn!