Nýsprottinn kvenrekill á íslensku birki. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Nýsprottinn kvenrekill á íslensku birki. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin hefur ákveðið að færa eða fresta gróðursetningarverkefnum sem fara áttu fram í sumar jörðum í umsjón stofnunarinnar í Skorradal. Vonast er þó til þess að sátt náist við Skorradalshrepp um áframhaldandi gróðursetningu á jörðunum. Skógrækt á ríkisjörðum í Skorradal er hluti af stækkun þjóðskóganna sem gerist nú hraðar en verið hefur, meðal annars með nýju fjármagni innlendra og erlendra aðila.

Skorradalshreppur hefur ekki gefið grænt ljós á þrjú skógræktarverkefni sem þar átti að vinna í sumar. Til stóð í fyrsta lagi að endurheimta horfið birkiskóglendi í landi Bakkakots í Skorradal fyrir skoska fyrirtækið Mossy Earth. Þetta fyrirtæki tekur við framlögum frá fólki og fyrirtækjum á vefnum og styrkir verkefni víða um heim þar sem ýmist er unnið að því að endurreisa vistkerfi sem hefur hnignað ellegar að binda fyrst og fremst kolefni. Verkefninu sem átti að vinna að í Bakkakoti hefur nú verið fundinn staður á Seljasandi vestan Skriðufells í Þjórsárdal.

Í landi Stóru-Drageyrar átti í öðru lagi að halda áfram með skógræktarverkefni sem þar hafa staðið um hálfa öld, nú síðast í samvinnu við alþjóðlega fyrirtækið Land Life sem hefur höfuðstöðvar í Hollandi. Land Life starfar á svipuðum nótum og Mossy Earth en leggur jafnframt mikla áherslu á að skógræktarverkefnin styrki samfélög fólks á viðkomandi svæði. Gróðursetja átti í sumar í hlíðum Dragafells í framhaldi af eldri skógrækt, meðal annars birki ofan til í landinu. Sveitarfélagið leit svo á að þarna væri ekki heimil gróðursetning og vísaði í aðalskipulag. Sú túlkun er ólík túlkun Skógræktarinnar á skipulaginu og þann ágreining þarf að leysa. Nú er unnið að því ásamt Land Life að ákveða framhald þeirra verkefna sem hófust í fyrra með gróðursetningu á Stóru-Drageyri og mögulega verða þau sett upp annars staðar.

Í þriðja lagi óskaði Skógræktin eftir afstöðu sveitarstjórnar um hvort krafist yrði framkvæmdaleyfis vegna áforma um skógækt á jörðinni Vatnshorni í Skorradal. Á fundi 24. maí sl. taldi skipulags- og byggingarnefnd þá framkvæmd ekki í samræmi við aðalskipulag Skorradalshrepps þar sem svæðið væri ekki skilgreint sem skógræktarsvæði. Þar hafði verið gerð áætlun um útbreiðslu birkiskógar næst friðuðu birkiskóglendi Vatnshornsskógar en gróðursetningu til kolefnisbindingar með öðrum tegundum austar í Vatnshornslandi.

Á næstu mánuðum verða þessi mál öll skoðuð áfram með sveitarfélaginu og vonast Skógræktin til að hægt verði að ná góðri niðurstöðu í góðri sátt.

Nýtt fjármagn – stækkandi þjóðskógar

Skógræktin á nú í samstarfi við á þriðja tug aðila, innlendra og erlendra, sem vilja leggja fé í skógræktarverkefni hér á landi með ólíkum markmiðum, allt frá endurheimt birkiskóglendis upp í hraðvaxna kolefnisskóga. Ríkið hefur falið stofnuninni umsjón með um fimmtíu jörðum víða um land í því skyni að þar yrði ræktaður skógur en skort hefur fjármagn til þeirra verkefna lengi. Skógar friðaðir eða ræktaðir á þessum jörðum kallast þjóðskógar samkvæmt skógræktarlögum. Með nýju fjármagni, bæði frá ríkinu og úr nýjum áttum, getur Skógræktin nú hraðað stækkun þjóðskóganna, ýmist með því að fylla í eyður í eldri verkefnum eða með því að efna til nýrra.

Heildarbinding landsins er hagtala

Þessi verkefni styðja við loftslagsmarkmið Íslendinga því öll kolefnisbinding á Íslandi telst á endanum þjóðinni til tekna í alþjóðlegu loftslagsbókhaldi. Heildarbinding á Íslandi er hagtala líkt og heildarframleiðsla á mjólk, fiski, lambakjöti, áli eða annarri framleiðslu. Kolefni bundið á Íslandi fyllir heildarmengi kolefnisbindingar á Íslandi, burtséð frá því hver kann að eiga skilgreindar kolefniseiningar eða sýsla með þær á móti losun sinni, rétt eins og framleidd mjólk fyllir heildarmengi mjólkurframleiðslu á Íslandi, óháð því hver framleiddi, keypti, seldi eða drakk mjólkina. Spurningunum hvað er mikil mjólk framleidd á Íslandi og hvað er mikið kolefni bundið á Íslandi er því svarað á sama hátt með einni heildartölu:

  • Árleg framleiðsla á mjólk á Íslandi: ∼150.000 t
  • Árleg CO2-binding skóga á Íslandi: <500.000 t

Skylt efni

Tenglar

Frétt: Pétur Halldórsson og Hreinn Óskarsson