Rauðgreni í Grundarreit brotnaði ofan snjólínu í einhverju veðranna. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson
Rauðgreni í Grundarreit brotnaði ofan snjólínu í einhverju veðranna. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Grein eftir Þröst Eysteinsson

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Þegar voraði árið 2020 og fólk fór að skoða sig um í skógum staðfestist það sem margir óttuðust að mikið var af brotnum trjám eftir veturinn á öllu norðanverðu landinu. Nokkuð var einnig á Austurlandi og jafnvel á Suðurlandi.

Í fréttum Veðurstofunnar um tíðarfar veturinn 2019-2020 stendur um desember:

Kramið blágreni kemur undan snjó við Botnsvatn. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson„Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fylgdu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum.“

Þetta var mikill snjór. Í fréttinni segir jafnframt:

„Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á norðanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Úrkoman á Akureyri mældist meira en þrefalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur þar í desembermánuði frá upphafi mælinga.“

Aspir komnar í 5-6 m hæð stóðu varla upp úr snjónum að Svanshól í Bjarnarfirði á Ströndum og enn var snjórinn ekki horfinn 26. júní. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonÁfram bætti í snjóinn og um tíðarfar janúar er sagt:

„Janúar var mjög illviðrasamur. Meðalvindhraði var óvenju hár og sá hæsti síðan í febrúar 2015. Illviðrisdagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið. Úrkoma var vel yfir meðallagi um mest allt land. Mjög snjóþungt var á Vestfjörðum …“.

Snjórinn lagði þessa 120 ára gömlu bergfuru í Grundarreit að velli. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonUm febrúar er sagt:

„Febrúar var fremur kaldur um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þ. 14. þegar mikið austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst.“

Bæld og brotin stafafura við Húsavík. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonOg um mars:

„Mars var fremur kaldur og tíð óhagstæð. Vindhraði var vel yfir meðallagi, illviðri tíð og töluverðar truflanir voru á samgöngum. Mjög snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum.“

Niðurstrípuð stafafura á Hólasandi. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonLoks þetta um apríl:

„Mikið norðaustan illviðri gekk yfir landið dagana 4. til 5. apríl og er það í flokki hinna verstu í apríl.“

Ljóst er að blotasnjór, fannfergi og ísing leggst ekki síður á tré en raflínur. Því urðu fyrstu skemmdirnar strax í veðrinu 10.-11. desember. Eftir óveðrið fraus sá blauti snjór og myndaði harðfenni sem hóf að síga. Hann hékk líka sem klaki á greinum trjánna og var þar enn þegar óveðrin skullu á í janúar. Snjór hélt svo áfram að hlaðast upp í janúar, febrúar og mars. Ekki hlánaði að ráði fyrr en um miðjan apríl. Talað var um mesta snjóavetur síðan 1995 eða jafnvel 1949.

Veðrið 14. febrúar sem olli skemmdum á Suðurlandi braut allmörg tré, ekki síst á Selfossi. Rúsínan í pylsuendanum var svo veðrið 4. til 5. apríl. Í upphafi þess veðurs gerði enn mikinn blotasnjó sem festist við tré og fraus þar þegar kólnaði. Víða var þannig ástatt í skógum að toppar trjáa stóðu upp úr fannfergi vetrarins og í því veðri brotnuðu þeir hreinlega af við snjólínuna.

Í viðbót má síðan geta þess að illviðrin í janúar voru sum úr suðvestri og báru þau með sér mikla seltu yfir allt landið. Við það skemmdust nálar á stafafuru og skógarfuru og roðnuðu síðan þegar voraði. Var ástandið sérstaklega áberandi á Austurlandi þar sem slíkar nálaskemmdir eru sjaldgæfari en á Suður- og Vesturlandi.

Í desemberveðrinu fór birki einna verst. Það sligaðist og brotnaði. Harðfrosinn sígandi snjór reif greinar af trjám fram eftir öllum vetri og kramdi ung tré sem lentu algjörlega á kafi. Stafafura varð einna verst úti. Greni varð helst fyrir barðinu á aprílveðrinu og missti allt að 4 m háa toppa ofan af 8 m háum trjám.

oppar sitkagrenis sem stóðu upp úr snjónum á Húsavík brotnuðu í aprílveðrinu. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonSnjóbrot og aðrir veðurskaðar á trjám eru ekki nýnæmi á Íslandi. Ekki þarf að horfa lengra en til ársins 2012 til að finna dæmi um talsvert snjóbrot á birki eftir blotasnjó á Austurlandi. Eflaust muna margir eftir öðrum slæmum atvikum. Það er þó sérstakt við veturinn 2019-2020 að fannfergið náði til alls Norðurlands auk Vestfjarða og ekki aðeins til útsveita, eins og oft er. Þá hefur skógrækt og vaxandi útbreiðsla birkiskóga þau áhrif að nú eru fleiri og víðáttumeiri skógar sem orðið geta fyrir slíkum skemmdum en verið hefur í manna minnum.

Þó ekki sé hægt að fullyrða að skemmdirnar séu þær mestu í Íslandssögunni, þá eru þær augljóslega þær mestu sem elstu menn muna.

Myndir segja meira en orð.

 

Mörg gömul og myndarleg birkitré í Mela- og Skuggabjargaskógi í Fnjóskadal brotnuðu í kjölfar bleytuhríðarinnar 10. desember 2019. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Á Suðurlandi voru ekki sömu snjóþyngsli og fyrir norðan en ekki skorti stormana. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Blæaspir í Grundarreit sýna að þetta er ekki í fyrsta sinn sem tré afmyndast af fannfergi. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

 Ársrit Skógræktarinnar 2020