Myndatexti:

A. Göt á trjábol furu eftir sagvespu.  Götin myndast þegar fullorðin sagvespan skríður út úr furunni eftir að hafa þroskast þar.
B. Sagvespa
C. Þráðormar af ættkvíslinni Steinernema


Sagvespa (Sirex noctilio (Fabricius)) er á góðri leið með að leggja furuskógrækt í Suður Afríku í rúst.  Vespan, sem upprunnin er við Miðjarðarhaf, verpir í furutré og seytir eitruðu slími og sveppum inn í tréð.  Lirfa vespunnar nærist á slíminu en furan þolir það ekki og deyr.  Þar sem skemmdirnar eiga sér stað innan barkar trésins er ómögulegt að nota hefðbundnar úðunaraðferðir til varnar pestinni.  Þær innfluttu furutegundir sem eru undirstaðan að nytjaskógum Suður-Afríku virðast allar ámóta næmar fyrir skemmdum af völdum vespunnar, þ.á.m. Pinus radiata (geislafura), P. patula, P. taeda, P. elliotti, P. pinaster, P. canariensis og P. pinea. Vespan hefur áður valdið gífurlegu tjóni á gróðursettum furuskógum í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Brasilíu frá því hún nam þar land á síðasta áratug.  Skógræktaryfirvöldum er því talsverður vandi á höndum þar sem líklegt er talið að vespan geti eytt allri furu í Suður Afríku og breiðst víðar út um álfuna. Um leið myndi hún kippa stoðunum undan blómlegum skógariðnaði í Suður-Afríku sem byggist að mestu á ræktun fyrrnefndra furutegunda og skapar um leið 160 000 störf.

Til þess að halda plágunni niðri er nú reynt að smita furutré með þráðormum sem eru sníkjudýr á vespunni.  Þráðormarnir fara inn í lirfu vespunnar þar sem þeir á endanum gera kvendýr vespunnar ófrjó og vespan verpir eggjum sem eru full af þráðormum.  Vonast er til að þessar aðgerðir dugi til að halda plágunni niðri og bjarga þar með furuskógum Suður Afríku.  Ólíklegt er þó talið að takist að eyða vespunni alveg.

Byggt á Sunday Times (Johannesburg)  og
Tree Protection Co-Operation Programme, South Africa, ?Sirex Woodwasp? (bæklingur)

Um þráðorma
Þráðormar (Nematoda) eru afar smávaxin dýr sem láta lítið fyrir sér fara en má finna í svo til öllum vistkerfum, jafnvel í hverum og jöklum.  Nú þegar eru þekktar meira en 15 000 tegundir þráðorma en trúlegt er að heildarfjöldi tegunda sé mun meiri eða að minnsta kosti hálf milljón. 
Margar tegundir þráðorma lifa samlífi með skordýrum.  Þetta samlífi er á ýmsa vegu allt frá því að vera gistilífi til sníkjulífs og það eru ófáar tegundir þráðorma sem lifa sníkjulífi á skordýrum.  Þeir þráðormar þykja spennandi kostur til lífrænna varna og eru nú þegar notaðir á nokkrum sviðum ræktunar með góðum árangri.  Meðal annars hafa þeir verið notaðir með góðum árangri í gróðurhúsum hérlendis.
Erlendis eru þeir einnig notaðir utanhúss en sá galli er á gjöf Njarðar að virkni flestra þráðorma til að sýkja skordýr er lítil sem engin fari jarðvegshiti undir 20°C.  Nokkrar tegundir/stofnar eru þó virkar við lægri hita en af þeim tegundum sem eru notaðar, er einungis ein tegund (Steinernema feltiae) sem hefur einhverja virkni fari jarðvegshiti undir 10°C.  Þetta takmarkar mjög notkun þeirra í ræktun utandyra.  Þar við bætist að til þess að ná hámarksvirkni þarf að dreifa þráðormum að hausti og þeir þurfa að vera virkir yfir vetrartímann.  Því er mikill áhugi á að finna kuldaþolnari stofna enda eru sníkjuþráðormar gjarnan notaðir til að verja verðmæta uppskeru, eins og til dæmis jarðaber og þau eiturefni sem nú eru notuð eru þrávirk og hættuleg.  Ekki eru neinar heimildir til um það að hérlendis hafi verið gerð athugun á því hvort þráðormar sem sýkja skordýr finnist í íslenskum jarðvegi.  Slíkt er þó mjög áhugavert, því ætla mætti að hérlendir þráðormastofnar séu aðlagaðir lágum jarðvegshita.  Á vegum Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, var gerð lítil forkönnun sem miðaði að því að kanna hvort þráðormar fyndust í jarðvegi hérlendis.  Niðurstöður hennar sýna að hér finnast þráðormar sem sýkja skordýr.  Full ástæða er til þess að kanna betur útbreiðslu sníkjuþráðorma hérlendis og ekki síður að rannsaka virkni þeirra við lágan hita.  Ekki er ólíklegt að hérlendir stofnar sníkjuþráðorma séu aðlagaðir lágum jarðvegshita og slíkir stofnar gætu verið afar verðmætir við að halda niðri vágestum á borð við sagvespuna, þegar og ef slíkir myndu berast hingað til lands.

Edda S. Oddsdóttir, Mógilsá