Morgunblaðið, mánudaginn 22. nóvember, 2004

 Næsta skref í íslenskri skógrækt að finna markað fyrir grisjunarvið.

- Viðarkynding raunhæfur kostur í dreifbýlinu?

 Nýlega var kynnt alþjóðlegt þróunarverkefni í nýtingu viðar sem orkugjafa til húshitunar. Ísland, Finnland og Skotland standa saman að verkefninu, sem er hluti af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP).

 Á Íslandi er þörf á markaði fyrir grisjunarafurðir skóganna. Tilgangur verkefnisins hér á landi er að gera viðarkyndingu að raunhæfum valkosti á lághitasvæðum, einkum í dreifbýli. Með því er vilji til að slá nokkrar flugur í einu höggi, þ.e. lækka orkukostnað neytenda, stuðla að grisjun ungskóga og gera trén sem eftir standa verðmætari, fjölga atvinnutækifærum í dreifbýli og nýta umhverfisvæna orku.

 Loftur Jónsson skógfræðingur og verkefnisstjóri íslenska hlutans var einn þeirra sem kynnti verkefnið. Hann segir eldivið að vissu leyti vera framandi fyrir mörg okkar. "Við erum vön rafmagni eða hitaveitu og okkur hættir til að halda að svona hafi þetta verið um langan aldur, sem er alls ekki rétt. Í sögubókum stendur að við bjuggum nánast neðanjarðar í torfbæjum og kveiktum í taði til að halda á okkur hita, en þannig var það ekki í upphafi. Ísland var viði vaxið milli fjalls og fjöru við landnám. Skógurinn var eflaust ein meginástæðan fyrir því að landið byggðist. Skógarafurðir voru drjúgur hluti af íslensku hagkerfi þeirra tíma, bæði í smíðar en einkum sem eldsneyti og stóðu algjörlega undir orkunotkun Íslendinga á fyrstu öldum. Hér er átt við timbur til húshitunar og til iðnaðar, þ.e. rauðablásturs og kolagerðar. Skógræktarmönnum hættir til að benda eingöngu á sauðkindina og kenna henni um skógareyðinguna. Skógur var höggvinn til eldsneytis og ruddur til beitilands. Sauðfjárbeitin í kjölfarið sá til þess að nýir græðlingar náðu ekki að festa rætur."

 Þrjóska, jákvæðni og þekking

 "Við getum ræktað skóga á Íslandi" heldur Loftur áfram. "Við höfum lært á seinustu öld hvernig skuli rækta skóg og okkur hefur tekist mun betur til en nokkurn hafði órað fyrir. Það er að þakka bæði ótrúlegri þrjósku og fáránlegri jákvæðni samfara aukinni vísindalegri þekkingu á trjám og náttúrunni yfirleitt. Við höfum tæki og tól, gróðrarstöðvar sem framleiða úrvalsplöntur, við vitum hvaða kvæmi við þurfum að nota o.s.frv. Núna þurfum við að huga að framhaldinu. Við þurfum markað fyrir timbrið. Skógræktin á ekki eftir að sækja á nema hún fari að skila tekjum. Hún verður að gera meira en að sjá landsmönnum fyrir útivistarsvæðum. Ég held að þjóðin vilji sjá að þeir peningar sem hið opinbera leggur til skógræktar skili einhverjum seljanlegum afurðum.

Um níu tíundu af heimilum landsins eru kynt með jarðhita. Hann er þó ekki alls staðar og á þau svæði ætlum við að einblína og athuga hvort kynding með eldiviði geti verið raunverulegur valkostur, þ.e.a.s. að kynding með eldiviði sé ódýrari valkostur en olía eða rafmagn. Norski landbúnaðarráðherrann hefur t.d. verið að hvetja landa sína til að nota eldivið til að lækka útgjöld heimilanna en í því mikla raforkulandi sem Noregur þó er, lækkar kyndingarkostnaður um helming ef notaður er eldiviður í stað rafmagns.

 Þegar tekist hefur að búa til markað fyrir grisjunarafurðir er kominn hvati að grisjun sem stuðlar að hraustari og betur hirtum skógi. Þetta leiðir til hærra verðs á lokaafurðum skógarins, þ.e.a.s. bolviði til sögunar. Grisjunin minnkar ennfremur verulega áhættu á áföllum sem skógurinn kann að verða fyrir, auk þess sem skógurinn lítur betur út og hefur því meira útivistargildi.

 Annað markmið verkefnisins snýr að atvinnusköpun í dreifbýli. Framleiðsla á viðareldsneyti er gjörólík raforkuframleiðslu. Við stóriðjuframkvæmdir er mikill fjármagnskostnaður og mikil uppbygging á sér stað á stuttum tíma. Vinnuafl við slíkar framkvæmdir eru að mestu farandverkamenn og því skila þær sér ekki nema að takmörkuðu leyti í viðkomandi byggðarlög. Eldiviðarkynding hefur hins vegar lágan fjármagnskostnað í samanburði við virkjanaframkvæmdir og jafnari þörf á vinnuafli heima í héraði við hráefnisöflun. Fjármagn ætti því að haldast betur inni á svæðinu og einnig atvinnutækifæri.

 Varðandi kolefnisbúskap skal bent á að viður er grænn orkugjafi og kolefnishlutlaus. Ef þeir sem kynda með olíu skiptu yfir í við myndu þeir bæta kolefnisbúskap þjóðarinnar."

 

"Fyrsta skrefið í verkefninu er að gera hagkvæmniathugun á eldiviðarnotkun á Íslandi. Enn fremur að semja fræðslu- og kynningarefni fyrir skógarbændur og neytendur um eldiviðarnotkun og framleiðslu. Við munum senda skógarbændur og skógarverkamenn til Finnlands á námskeið til að læra rétt handbrögð og tækni. Við ætlum að vinna að framgangi eldiviðar í ríkiskerfinu, því ef þetta á að verða raunverulegur valkostur verður hann að njóta sömu kjara og önnur orka til húshitunar, sem er niðurgreidd að mestu af ríkinu en einnig af orkufyrirtækjum. Þá viljum við stofna til alþjóðlegs tengslanets í sambandi við græna orku og síðast en ekki síst ætlum við að setja upp eitt stykki nútímalegan kurlkyndara sem verður staðsettur í Skógræktinni á Hallormsstað og verður til sýnis almenningi. Þangað koma um 20 þúsund gestir á ári og hann verður því vel staðsettur til að sýna fólki fram á að þetta sé hægt."

 Áherslur þjóðanna þriggja sem að verkefninu standa eru mismunandi, enda aðstæður ólíkar. Í Finnlandi framleiðir skógurinn um 20% af þeirri orku sem þar er notuð. Finnsku þátttakendurnir koma fyrst og fremst að verkefninu sem ráðgjafar. Skotland hefur gríðarlegra hagsmuna að gæta. Þar er orkuverð hátt og dreifikerfi raforku of lítið til að anna fyrirsjáanlegri orkunotkun.

 Íslensku þátttakendurnir í verkefninu eru Héraðsskógar sem ber jafnframt ábyrgð á íslenska hluta verkefnisins, Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og leggja þessir aðilar fjármagn og vinnu til verkefnisins. Auk þess eru Orkusjóður, NPP, Byggðastofnun og Framleiðnisjóður landbúnaðarins fjárhagslegir bakhjarlar.

 steinunn@mbl.is