(mynd: Hreinn Óskarsson)
Niðurskurður til verkefnisins dreginn til baka að hluta
Niðurskurður til landbótaverkefnisins Hekluskóga hefur verið dreginn til baka að hluta með þriggja milljóna króna viðbótarframlagi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. „Þetta er uppbót,“ segir Hreinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Hekluskóga og skógarvörður á Suðurlandi. Viðbótarféð renni óskipt til ræktunarstarfsins. Nú eru gerðar tilraunir með að köggla birkifræ með mold og kjötmjöli.
Fjárveiting hins opinbera var 29,4 milljónir á fjárlögum ársins 2013 en var lækkuð um tíu milljónir á núgildandi fjárlögum, niður í 19,4 milljónir. Upphæðin hefur nú verið hækkuð í 22,4 milljónir. Aukaframlagið mun vera fé sem til var í sjóði vegna græna hagkerfisins. Hreinn segir þetta gleðilegt og jafnvel þótt ekki sé auðvelt að kaupa fleiri trjáplöntur með svo stuttum fyrirvara nýtist þetta fé til að fjölga þeim plöntum sem gróðursettar verða í sumar.
Mikið sjálfboðastarf
Stefnt er að því að gróðursetja um 260.000 trjáplöntur á vegum Hekluskóga í sumar, um 250.000 birkiplöntur og 10.000 af reynivið. Á vegum Hekluskóga hafa verið gerðir um 200 samningar við landeigendur sem sjá sjálfir um að gróðursetja hátt í helminginn af þeim trjáplöntum sem settar eru niður undir hatti Hekluskóga. Þetta gera landeigendur endurgjaldslaust. Hinn helminginn gróðursetja verktakar en stór hluti þeirra eru hópar frá íþróttafélögum. Hver hópur vinnur að jafnaði einn dag við útplöntun og setur niður um 10.000 plöntur. Sömuleiðis vinna sjálfboðaliðahópar mikilvægt starf. Þar má nefna samtök eins og Ferðaklúbbinn 4x4 og ferða- og útivistarfélagið Slóðavini sem er áhugafélag um ferðalög á mótorhjólum. Slóðavinir verða einmitt við gróðursetningu um næstu helgi og bæta þá við svokallaða mótorhjólaskóga sem eru á löngum kafla norðan við þjóðveginn í átt að Hrauneyjum, rétt innan við Sultartangavirkjun. Þetta er þriðja árið sem mótorhjólafólk leggur fram krafta sína til Hekluskógaverkefnisins en ein samtaka þeirra, Slóðavinir, hafa unnið lengur að verkefninu.
Tré fyrir flöskur og dósir
Í spjalli við vefinn skogur.is nefndi Hreinn Óskarsson líka að á hverju ári bærist dágóð upphæð frá Endurvinnslunni til Hekluskógaverkefnisins. Þegar flöskum og dósum er skilað til Endurvinnslunnar getur fólk valið um nokkur verkefni sem það lætur peningana renna til í stað þess að taka við þeim. Hekluskógar eru eitt þessara verkefna. Á síðasta ári nægði upphæðin frá Endurvinnslunni til að gróðursetja um 4.000 trjáplöntur. Hreinn nefnir líka að í sumar verði hópar unglinga að störfum í Hekluskógum á vegum Landsvirkjunar undir kjörorðunum „Margar hendur vinna létt verk“. Hópar erlendra sjálfboðaliða komi líka til starfa eins og undanfarin sumur, að minnsta kosti þrír hópar þetta árið.
Þá eru Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd með skika til uppgræðslu og umsjónar í Þjórsárdal og eins er með Ferðaklúbbinn 4x4 áðurnefndan. Hópur sem kallast Mál- og landverndunarfélagið Þjóðhildur sér um að laga stíga kringum Stöng, gróðursetja trjáplöntur og fleira. Enn fremur má nefna Lions-menn á Hellu, frímúrarastúkur og fleiri og fleiri sem leggja lið því mikilvæga verkefni að endurheimta birkiskóga í nágrenni Heklu.
Gróðursett vor og haust
Hreinn segir að gróðursetning hefjist með frystum trjáplöntum strax í lok apríl en svo er farið yfir í bakkaplöntur þegar kemur lengra fram á vorið. Um 210.000 plöntur verða gróðursettar nú í vor og um 50.000 í september og jafnvel fram í október.
Kjötmjölið gefur góða raun
Notkun kjötmjöls er snar þáttur í starfi Hekluskóga. Að sögn Hreins er kjötmjölið frábært efni til landgræðslu af þessum toga og á þessum slóðum gefur það ekki síðri raun að dreifa kjötmjöli en sú hefðbundna aðferð að dreifa grasfræi og áburði enda er mjög mikið af fræi í vikrinum sem spírar þegar næringarríku kjötmjölinu er dreift yfir gróðurlaust landið. Kjötmjölið kemur af stað kröftugu lífkerfi og Hreinn segir að landið sé gjarnan yfir að líta eins og besta tún fáeinum árum eftir að kjötmjölinu er dreift. Næringin úr mjölinu endist gróðrinum í um það bil þrjú ár. Þá er lag að koma inn með trjáplöntur og gróðursetja birki og reynivið. Um 150 tonnum af kjötmjöli verður dreift á svæði Hekluskóga í sumar.
Tilraun með birkifræköggla
Sem fyrr segir hefur það svipuð áhrif til landgræðslu á vikursöndum Heklusvæðisins að dreifa kjötmjöli og ef dreift er grasfræi og tilbúnum áburði. Þess vegna er haldið áfram tilrauna- og þróunarstarfi á vegum Hekluskóga. Alltaf er unnið áfram á eldri uppgræðslusvæðum en líka unnin ný svæði með kjötmjölinu. Í fyrrahaust söfnuðu velunnarar verkefnisins birkifræi og sendu Hekluskógum, meðal annars gegnum Endurvinnsluna. Þessu fræi verður í sumar blandað saman við kjötmjöl og gróðurmold. Með því að dreifa slíkri blöndu fær fræið gott vegarnesti til að spíra og róta sig. Í kjötmjölinu er mikil næring og með moldinni fæst m.a. svepprót sem örvar vistkerfið af stað. Og nú eru gerðar tilraunir með að köggla þessa góðu blöndu. Þá er blandan unnin líkt og gras- eða viðarkögglar. Ef í ljós kemur að fræið þolir þessa meðferð verður auðveldara að dreifa blöndunni og mögulegt að nota til þess dráttarvélar og áburðardreifara. Allt miðar þetta að sama marki, að bæta árangur birkisáninga beint í jörð. Þegar köggullinn lendir leysist hann fljótlega upp og þá verður áburður, mold og fræ á sama blettinum sem eykur mjög líkurnar á að hraust planta komi upp af fræinu.