Blágresið blíða. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir
Stýrihópur kom saman til fundar í gær
Stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins kom saman í gær á fundi hjá Capacent í Reykjavík. Þar var farið yfir stöðu mála í þeirri greiningarvinnu sem nú fer fram til undirbúnings að sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt.. Í þessari vinnu er lögð áhersla á gott samráð við alla sem hagsmuna eiga að gæta í skógrækt og skyldum málum. Sömuleiðis að starfsfólk þeirra stofnana sem sameina á taki virkan og lýðræðislegan þátt í undirbúningnum.
Í stýrihópnum sitja framkvæmdastjórar allra Verkefnanna ásamt skógræktarstjóra en fundi hópsins sitja líka fjármálastjóri Skógræktar ríkisins, framkvæmdastjóri Hekluskóga og forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsár, ásamt Arnari Jónssyni ráðgjafa sem stýrir þessu undirbúningsstarfi fyrir hönd Capacent. Á fyrsta fundi stýrihópsins var ákveðið að skipa Pétur Halldórsson ritara hópsins og fela honum að flytja tíðindi af undirbúningsstarfinu.
Á fundinum í gær var fulltrúum greint frá starfi þeirra þriggja greiningarhópa sem skipaðir voru fulltrúum starfsmanna og falið að fjalla um innri mál nýrrar stofnunar, ytri mál hennar og fagleg mál. Einn hópanna hefur nú þegar hist tvisvar, annar hittist öðru sinni í dag og sá þriðji á mánudag. Væntanlega þurfa þeir allir að halda þriðja fundinn til að ljúka verkinu. Tíu starfsmenn sitja í hverjum hópi og var reynt að hafa hópana sem mest blandaða. Þegar greiningarhóparnir hafa lokið störfum gera hópstjórar þeirra grein fyrir niðurstöðunum á fundi með stýrihópnum. Arnar Jónsson ráðgjafi segir að á fundum sem þessum komi ýmislegt gagnlegt fram og þess megi vænta að þeir hlutir sem komi oftast upp í hópunum verði ofarlega á verkefnalista nýrrar stofnunar.
Næstu vikur verða einnig haldnir vinnufundir með hagsmunaaðilum og í stýrihópnum er samstaða um að gefa þurfi Landssamtökum skógarbænda (LSE) mjög gott rými, bæði til að upplýsa skógarbændur um þær hugmyndir sem uppi eru og að fá fram hvað helst brennur á þeim. Haldinn verður sérstakur vinnufundur með LSE en einnig með fulltrúum skógræktarfélaganna í landinu. Skógræktarfélag Íslands verður beðið að senda fulltrúa sem myndi góðan þverskurð af aðildarfélögum þess.
Í næstu viku byrja ráðgjafar Capacent að taka viðtöl við alla starfsmenn stofnananna. Starfsmönnum verður send starfsgreining og þrjár grunnspurningar með nokkrum undirspurningum þannig að fólk komi ekki alveg óundirbúið á fundina með ráðgjöfunum. Ekki verða skrifaðar skýrslur í þessum viðtölum eða nokkuð tekið niður orðrétt eftir fólki. Aðeins verða teknir niður punktar um þau mál sem á starfsfólkinu brenna helst, viðhorf þeirra og væntingar. Þessum punktum verður svo safnað í púkk, skyldar hugmyndir flokkaðar saman og á endanum lögð fram niðurstaða allra þessara viðtala með orðalagi ráðgjafanna. Ekkert verður því hægt að rekja til einstakra starfsmanna. Stefnt er að því að ljúka þessu fyrir sameiginlegan stefnumótunarfund með öllum starfsmönnum sem haldinn verður í Reykjavík 9. mars. Hann verður á þjóðfundarformi.
Öll þessi vinna nýtist vel næstu vikur og mánuði við skipulag og mótun hinnar nýju stofnunar. Lögð er áhersla á að starfið sé sem lýðræðislegast og vandað til verka. Mikilvægt er að breytingarnar taki sem stystan tíma og sá óvissutími sem þeim óhjákvæmilega fylgir verði sem stystur. Næsti fundur stýrihópsins er ráðgerður þriðjudaginn 23. febrúar.