Töfrastaðir, umhverfisfræðslumiðstöð í Ölfusi
Töfrastaðir eru félagsskapur sem fékk úthlutað átta hektara landi við Þorlákshöfn fyrir verkefnið Sandar suðursins. Verkefninu er ætlað að tengja fólk náttúrunni og stuðla að aukinni umhverfisvitund. Haldnar verða fræðsluhátíðir, viðburðir og svæðið hannað til að kenna gestum á meðan þeir njóta umhverfisins. Á kennslusvæðum verður hægt að fræðast um fjölbreyttar aðferðir við ræktun.
Draumur þeirra sem að Töfrastöðum standa er að kenna grunnskólabörnum umhverfisvitund og koma upp kennslumiðstöð um umhverfismál þar sem lögð verði áhersla á landgræðslu og skógrækt. Fjallað er um málið á vefmiðli Morgunblaðsins, mbl.is og er umfjöllunin á þessa leið:
Mörður Gunnarsson Ottesen, talsmaður Töfrastaða, segir að á svæðinu eigi gestir að geta gengið um og lært af umhverfinu með skipulögðum hætti. „Töfrastaðir er hópur fólks sem hefur áhuga á samfélagsuppbyggingu, vistrækt og endurvinnslu þess sem samfélagið lætur frá sér. Við vorum áður á Torfastöðum þar sem Býli andans starfar og rekur þar svitahof. Verkefnið nú er að koma að samfélagsmyndun og kennslu í vistrækt sem er hönnunaraðferð þar sem hannað er í takt við náttúruna,“ segir Mörður og bætir við að Töfrastaðir vilji ekki dvelja í gagnrýni á ástand umhverfismála heldur vinna í lausnum.
Land að láni í tvö ár
Allt starf Töfrastaða er unnið af sjálfboðaliðum sem flestir eru erlendir. „Ölfus styrkir okkur með því að lána okkur landið. Það fyrirkomulag er til reynslu í tvö ár. Við höfum einnig fengið afnot af fjórum kennslustofum hjá sveitarfélaginu. Ölfus er að þróast í umhverfisvænt sveitarfélag sem rekur meðal annars grænfána leikskóla og skóla,“ segir Mörður og bætir við draumurinn sé að kenna grunnskólabörnum umhverfisvitund og koma upp kennslumiðstöð um umhverfismál þar sem lögð verði áhersla á landgræðslu og skógrækt.
Erfitt er að fá íslenska sjálfboðaliða til starfa að sögn Marðar. Um 200 manns komi að verkefninu og af þeim séu um 20 virkir.
„Umhverfisvitund á Íslandi er ekki næg og lítil þekking á vistrækt. Það útskýrir að einhverju leyti að 80% af sjálfboðaliðunum eru af erlendu bergi brotnir. Innflytjendur vilja gera eitthvað fyrir umhverfið, það telst heilbrigð skynsemi í flestum hlutum heims.“
Góðgerðarmaður ríkisins
Áhugi Marðar á vistrækt kviknaði í baráttu hans við erfið veikindi.
„Ég náði betri heilsu með athafnakakói, breyttu mataræði og andlegri vinnu. Ég hitti fólk í hippalíki sem hjálpaði mér, fólk með fræðilegan grunn sem klæðir sig eins og hippar. Ég var mikið kvalinn og tók þá ákvörðun að ef þessar kvalir sem ég leið hefðu einhvern tilgang þyrfti ég að gera gagn í heiminum. Ég er öryrki og get ekki unnið hefðbundna vinnu en ég get gert gagn þegar kemur að því að upplýsa fólk um vistræna lífshætti. Ég get því kallað mig ríkisstyrktan góðgerðarmann,“ segir Mörður brosandi.
Töfrastaðir eru með viðburði og námskeið í allt sumar. Mörður segir að námskeiði í gerð útieldhúsa og krafteldstæða sé nýlokið og 11 daga grunnnámskeið í vistrækt hefjist á morgun, þann 7. júlí.
Norræna vistræktarhátíðin
Norræn vistræktarhátíð verður haldin á landi Töfrastaða 20. til 23. júlí. „Þetta er sjöunda hátíðin og í fyrsta skiptið sem hún er haldin á Íslandi. Fjölmargir fyrirlestrar verða í boði gesta á hátíðinni. Allt frá því að tala við plönturnar til fræðilegrar umfjöllunar. Það myndast mikill samhugur meðal þátttakenda sem eru að vinna að umhverfismálum og það er þessi tenging jafningja sem er svo mikilvæg. Jafningar eru í raun þeir sem eru að byrja og þeir sem eru búnir að upplifa margt. Hvorirtveggju eru komnir til þess að upplifa eitthvað nýtt og deila því sem þeir kunna,“ segir Mörður sem vill benda á að forskráningu á hátíðina lýkur 10. júlí. Verði sé haldið í lágmarki og matur innifalinn alla dagana.
Í einni vinnustofunni verður kennt að búa til villisoð og kjötsoð. Sjálfboðaliðar sjái svo um að ganga á milli gesta og bjóða þeim soðið á meðan á hátíðinni stendur.
Sápukúlueinangrun
„Það verða margir áhugaverðir fyrirlestrar og kennsla í boði. Kennsla í að búa til metangas úr jarðgerð eða skít og kolagerð sem dæmi. Nytjagarðar fyrir tré verða kynntir og vinnustofur um hvernig á að tengjast umhverfinu og náttúrunni og læra að upplifa hana. Haldinn verður fyrirlestur um sápukúlubyggingu þar sem sápukúlur er notaðar til einangrunar. Þar er sápukúluvél tengd sólarrafhlöðu. Þetta er tilraun í Póllandi þar sem sápukúlurnar einangra gróðurhús,“ segir Mörður og bætir við að kynning verði á nytjajurtum sem finnast á svæðinu og kynning á íslenskri vistrækt. Þetta er einungis brot af því sem boðið verður upp á segir Mörður.
Kakóhugleiðsla á Gauknum
Eftir að Norrænu vistræktarhátíðinni lýkur tekur við næsta verkefni. „Við verðum með námskeið fyrir verðandi kennara í vistfræði. Þrír kennarar eru á Íslandi með nægjanlega djúpa þekkingu á vistrækt til að kenna hana en eftir námskeiðin munum við hafa kennara með mismunandi áherslur og bakgrunn.“
Töfrastaðir ætla að kynna Sanda suðursins á Gauk á Stöng næstkomandi laugardag.
„Kynningin verður að degi til og kakóhugleiðsla í kjölfarið. Um kvöldið verða svo tónleikar á Gauknum,“ segir Mörður fullur tilhlökkunar.
- Umfjöllunin á vefnum mbl.is