Gamall flagmór gróinn upp 50 árum eftir að skógrækt hófst í Kjarna við Akureyri. Frjósemi skógarbotnsins hefur margfaldast og skógurinn hefur skapað skilyrði til fjölbreyttrar útivistar.
200 hektarar eftir og kostar eins og eitt einbýlishús
Skógræktarmál voru rædd í tæpar 40 mínútur á fundi bæjarstjórnar Akureyrarbæjar þriðjudaginn 3. febrúar. Njáll Trausti Friðbertsson bæjarfulltrúi (D) vakti máls á því að enn væri ólokið gróðursetningu í græna trefilinn svokallaða sem skipulagður var á sínum tíma í kringum byggðina á Akureyri. Njáll Trausti leggur til að verkinu verði lokið á sjö árum enda kosti það ekki nema eins og eitt einbýlishús og árlegt framlag yrði á við verð jepplings. Ávinningurinn yrði meira skjól í bænum, útivistarsvæði fyrir öll bæjarhverfi, kolefnisbinding og tekjur af skóginum þegar tímar líða.
Njáll Trausti rakti í stuttu máli sögu trjáræktar á Akureyri sem hófst fyrir alvöru með stofnun trjáræktarstöðva um aldamótin 1900. Upp úr miðri öldinni hefði verið ráðist í skógrækt sunnan bæjarins þar sem nú er Kjarnaskógur. Sú skógrækt hefði verið skilgreind sem nytjaskógur til að byrja með en um 1970 hefði verið farið að líta meira á skóginn sem vettvang til útivistar. Um 1980 hefði fyrst verið minnst á hugmyndina um grænan trefil utan um alla byggðina. Mest hefði verið unnið að gróðursetningu í trefilinn á 9. og 10. áratug liðinnar aldar þegar settar voru niður trjáplöntur í Hamra- og Naustaborgir norðan Kjarnaskógar og Eyrarlandsháls þar fyrir ofan til norðvesturs. Norðan Glerár væri enn eftir að gróðursetja í um 200 hektara lands sem skipulagðir voru sem hluti af græna treflinum í upphafi.
Hér sést græni trefillinn á Akureyri. Mismunandi grænt er það sem þegar hefur verið gróðursett en beinhvítt það sem skipulagt hefur verið til trjáræktar. Ekki er víst að það sé enn allt tiltækt og því er talað um að eftir séu um 200 hektarar. Kort: Norðurlandsskógar/Bergsveinn Þórsson
Skógur bætir veðurfar
Hugmynd Njáls Trausta er sú að gróðursetja megi í það sem eftir er á sjö árum. Heildarkostnaður sé 40-60 milljónir en við sjálfa gróðursetninguna bætist kostnaður við stígagerð og aðra útivistaraðstöðu. Að ljúka við gróðursetningu kosti því ekki nema eins og eitt einbýlishús og framlag bæjarins andvirði eins jepplings á ári. Þá minnti Njáll Trausti á veðurfarsáhrif skógræktar sem hann hefði lengi haft áhuga á og vísaði til orða Haraldar Ólafssonar veðurfræðings sem telur uppvaxandi trjágróður í Reykjavík ástæðuna fyrir því að nú mælist þar minni meðalvindur en fyrir nokkrum áratugum öfugt við Keflavíkurflugvöll þar sem meðalvindur er óbreyttur. Það sama geti átt við um Akureyri og trjárækt ofan Gilja- og Síðuhverfa myndi til dæmis minnka vindálagið af suðvestanáttinni sem kemur ofan af Glerárdal. Leggur Njáll Trausti til að sett verði upp veðurstöð til að kanna veðurfarsbreytingar í takt við vöxt skógarins. Skjólið sem skógurinn gefur geti hækkað lofthita í byggðinni, jafnvel um eina til eina og hálfa gráðu.
Nýleg mynd af hluta Kjarnaskógar með Akureyri í baksýn, séð til norðurs. Mynd: Skógræktarfélag Eyfirðinga
Árangurinn fljótur að koma í ljós
Fram kom í máli Njáls Trausta á bæjarstjórnarfundinum að frá því um 1950 hafa verið gróðursettar um tvær milljónir trjáplantna í bæjarlandi Akureyrar. Hann benti á það hversu áberandi skógurinn sem gróðursettur var frá því upp úr 1980 og til aldamóta væri þegar orðinn. Fljótlegra væri en mörgum sýndist að rækta upp skóg sem hefði áhrif. Auk veðurfarsáhrifanna fengju íbúar allra hverfa bæjarins betri aðgang að útivistarsvæðum í nágrenni sínu og í fyllingu tímans gæti slíkur útivistarskógur líka gefið af sér tekjur með skógarhöggi. Þar fyrir utan væri skógrækt umhverfismál og á einum hektara nytjaskógar byndust 4-7 tonn af koltvísýringi árlega.
Að síðustu þakkaði Njáll Trausti frumkvöðlunum sem hófu skógræktarstarfið á Akureyri af litlum efnum um miðja síðustu öld enda gætu líklega fáir bæjarbúar hugsað sér Akureyri án skógarins í Kjarna og Naustaborgum. Hann beindi því til þeirra nefnda sem vinna að skipulagi, umhverfismálum og framkvæmdamálum í bænum að huga að þessum málum í þeirri vinnu sem fram undan væri við nýtt aðalskipulag eftir 2018 þannig að hugsað væri til framtíðar í anda frumkvöðlanna um miðja síðustu öld.
Góðar undirtektir annarra bæjarfulltrúa
Nokkrir aðrir bæjarfulltrúar tóku til máls á fundinum og virtist sem einhugur væri um þessi efni. Ingibjörg Ólöf Isaksen (B) sagði að ákveða þyrfti hvort leggja ætti áhersluna á nytjaskóg eða útivistarskóg og ræddi einnig um þann möguleika að verkefnið gæti notið stuðnings Landgræðslusjóðs. Sóley Björk Stefánsdóttir (V) taldi að vel mætti samþætta nytja- og útivistarskóg en jafnframt þyrfti að huga að endurheimt vistkerfa eins og votlendis og náttúrlegra birkiskóga. Dagur Fannar Dagsson (L) vildi hugsa verkefnið upp á nýtt í ljósi breytinga eins og friðlýsingar Glerárdals, hugsanlegrar virkjunar á Glerárdal og fleiri þátta. Einnig þyrfti að huga að trjárækt í skipulagi, meðal annars til að draga úr vindstrengjum í íbúðabyggðinni. Gunnar Gíslason (D) minnti á að skógrækt væri þolinmæðisverkefni og framtíðarsýnin þyrfti að vera skýr.