Kryddkvörn, hveitiskeið og snagi
Kryddkvörn, hveitiskeið og snagi

Skógaruppeldi sem tengir saman skógarhirðu og -nytjar

Fyrsta formlega framhaldsnámskeiðið í tálgun var haldið í byrjun nóvembermánaðar í Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi undir heitinu „Vistsporin stigin í eldhúsinu“. Námskeiðið var haldið á grundvelli samstarfssamnings um fræðslumál á milli Skógræktar ríkisins og Lbhí.

Fræðsla sem þessi er í raun „skógaruppeldi“ enda kennir hún fólki að tengja saman skógarumhirðu og skógarnytjar með því að breyta grisjunarefninu í nytjahluti með tálgunartækninni og nýtingu fersks viðar úr skóginum.

Námskeiðið kallast „Vistsporin stigin í eldhúsinu“. Það er fyrsta formlega framhaldsnámskeiðið í tálgun sem gerir ráð fyrir að þátttakendur hafi annað hvort sótt grunnnámskeið í tálgun eða námskeiðið „húsgagnagerð úr skógarefni“ sem margir hafa sótt á undanförnum árum.

Á námskeiðinu á Reykjum var sérstaklega unnið að gerð eldhúsáhalda úr tré sem geta auðveldlega leyst af hólmi ýmis algeng áhöld úr plasti. Tréáhöldin eru innlend framleiðsla úr innlendu hráefni framleidd með visthæfum aðferðum en plastáhöldin eru yfileitt innflutt. Af þeim hlýst mengun, bæði við framleiðsluna, notkun þeirra og þegar þeim er fargað, sérstaklega ef urðað er.

Efni í tréáhöldin er líka auðvelt að finna í næsta nágrenni, ef ekki í garðinum heima þá hjá skógræktendum eins og Skógrækt ríkisins, skógræktarfélögum, umhverfisdeildum sveitafélaga, jafnvel á gámastöðvum og hjá fólki, fyrirtækjum eða öðrum sem eiga skóg.

Á námskeiðinu í byrjun nóvember unnu þátttakendur að gerð ýmiss konar eldhúsáhalda sem gætu nýst þeim sjálfum heima eða til að gefa. Unnið var úr ferskum reynivið, ösp, furu, lerki og víði.

Eins og venjulega var fjallað um þurrkaðferðir, umhirðu bitáhalda og tengingu skógarhirðunnar við sjálfbærni og náttúrutengdan lífsstíl.

Leiðbeinandi var Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri Lesið í skóginn.






Texti: Ólafur Oddsson og Pétur Halldórsson
Myndir: Ólafur Oddsson