Birkikemba er lítið fallegt fiðrildi en veldur miklum skemmdum á birki fyrri hluta sumars.
Birkikemba er lítið fallegt fiðrildi en veldur miklum skemmdum á birki fyrri hluta sumars.

Birki víða brúnt af völdum birkikembu

Víða ber nú mjög á brúnleitu birki á höfuð­borgarsvæðinu og víðar. Sökudólgurinn er birkikemba sem herjar á birkið en þess má vænta að trén nái sér fljótlega og verði græn á ný enda fara lirfur kembunnar að púpa sig.

Rætt var um birkikembu við Eddu S. Odds­dóttur, forstöðumann Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá, í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag. Þar kemur fram að birkikemba sé lítið fallegt fiðrildi sem sé nýr landnemi hér á landi og hafi fyrst fund­ist hér árið 2003. Fiðrildin klekjast út á vorin og verpa í ung laufblöð birkitrjáa. Lirfan getur valdið miklu tjóni sem því miður er lítið hægt að gera við vegna þess að lirfan kemur sér fyrir mlli laga áí laufblaðinu þannig að eitur nær ekki til hennar. Edda segir að lirfan éti laufblaðið innan frá, skiji eftir sig bæði undir- og yfirlagið þannig að þau verða eins og hol að innan. Enn fremur segir:


Fiðrildið hefur fundist víða á Suður- og Suvesturlandi en enn þá er ekki vitað hvernig það nákvæmlega hagar sér hér á landi. 

„Birkið okkar er líka kannski ekki það heppilegasta. Það er líka búið að vera einangrað í aldir og er ekki með allar þær varnir sem að sumar aðrar birkitegundir hafa gagnvart bæði beit og ekki síður gagnvart skordýrum.“

Lirfan er núna að fara á púpustigið og þau blöð sem vaxa á trjánum eftir það skemmast ekki. 

„Þannig að birkið mun að hluta til jafna sig aftur og verða aftur grænt  við höfum séð það undanfarin ár að það hefur gerst.“

Dularfulla kembulirfan

Síðastliðið haust fundust lifandi lirfur  í birkilaufi  -  sem er mjög óvenjulegt því yfirleitt eru þær löngu komnar á púpu­stigið á haustin.

„Þannig að við vitum ekki alveg hvort þetta eru einhverjar svona skepnur sem eru seinar til eða hvort þetta er hrein­lega önnur tegund það er eitthvað sem við viljum gjarnan komast að.“

„Við eiginlega vonumst eftir því að finna aftur lirfur í haust því okkur gekk ekki að púpa þeim í fiðrildi í fyrra til þess að geta greint þær því það er ekki hægt að greina lirfurnar sjálfar.“

„Þannig að þetta er dularfulla kembulirfan?   Þetta er dularfulla kembumálið.“