Mikið er rætt um breytingar á náttúrunni vegna hlýnandi veðurfars af völdum loftslagsbreytinga. Í vefútgáfu breska blaðsins Independent er sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var af svokölluðu Phenology Network í Bretlandi. Markmið þeirra er að skrá hvernig náttúran hagar sér á mismunandi árstíðum og í samhengi við loftslag.
Þar er sagt frá því að loftslagsbreytingar hafi mikil áhrif á það hvenær árstíðaskipti verða og það getur haft mikil áhrif á landslag og fleiri þætti. Í Bretlandi hrygna froskar í október, eik laufgast þremur vikum fyrr nú en fyrir 50 árum og þúsundir hunangsflugna höfðu sést í lok janúar á þessu ári. Vísindamenn tóku einnig eftir því að fólk byrjaði fyrr að slá grasflatir sínar. Allt þetta bendir til þess að vorið sé á ?undan áætlun? í ár í Bretlandi. (Mynd: Þiður (Capercaillie), stórvaxinn ættingi rjúpunnar).
Athuganir af þessum toga eru unnar af hundruðum rannsakenda um allt Bretland og upplýsingar þeirra safnast í mikinn gagnabanka sem nær yfir þrjár aldir af mælingum. Vísindamennirnir reikna með að vorið byrji sex dögum fyrr fyrir hverja hitagráðu að meðaltali.
Það er hinsvegar mismunandi hvernig mismunandi tegundir bregðast við þessum breytingum. Sem dæmi má nefna að fyrir hverja aukna hitagráðu þá laufgaðist eik tíu dögum fyrr en annars, samanborið við fjóra daga hjá aski, tegundinni sem helst keppir við eikina um rými.
Síðan hefur það áhrif á aðra þætti náttúrunnar þegar trén laufgast fyrr, t.d. þarf fiðrildislirfa að þroskast fyrr vegna þess að hún þarf að næra sig á nýútsprungnu laufi. Þetta getur síðan haft áhrif á farandfræði fuglanna sem nærast á lirfunum.
Það er ekki víst að breytingar verði átakalausar þar sem hætt er við að mismunandi tegundir dýra og jurta tapi þeim takti sem þær eru í og flókið ferli náttúrunnar gæti farið alvarlega úr skorðum samkvæmt mati sérfræðinganna sem að rannsókninni standa. Miklar breytingar geta orðið ef spár um hækkun hitastigs á jörðinni ganga eftir. Þar er gert ráð fyrir hækkun hita á bilinu 2 til 6 gráður.
Það er heitara nú en nokkru sinni á síðustu þúsund árum. Níu af tíu heitustu árunum hafa orðið nú síðast áratuginn. Beykiskógar Englands gætu horfið og þá einnig fuglar svo sem snjótittlingur og hinn skoski þiður (Capercaillie), sem er af ætt rjúpna. Þessir fuglar gætu fært sig til vegna þess að þeir velja sér kaldara búsvæði.
En hvað er af snemmbæru vori að segja hér á Íslandi? Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Eva G. Þorvaldsdóttir, forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur voru spurð að þessu á Vísir.is fyrir Páska. Þau segja vorið koma fyrr á hverju ári:
"Við höfum tekið eftir því undanfarin fimm eða sex ár að vorkoman er alltaf fyrr á ferðinni," segir Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Hann segir aðeins farið að örla á brumi hjá sumum trjátegundum.
Eva G. Þorvaldsdóttir, forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, segir vorplöntur vera komnar miklu fyrr af stað en áður var talið eðlilegt. Þetta sjáist á vorlaukum sem þegar séu farnir að blómgast og þá séu krókusarnir komnir á skrið, svo og vorboðinn og skógarblámi.
Eva bendir á að blómgun nú sé þremur vikum fyrr á ferðinni ef litið sé á blómgunartölur frá árinu 2002. Hún segist þó ekki hafa áhyggjur af þróuninni, það verði bara að taka henni. Að mörgu leyti sé hún ánægjuleg fyrir ræktunarfólk því hægt sé að prófa suðlægari tegundir, hins vegar sé það erfitt vegna þess að alltaf geti komið frostakafli. Einnig sé neikvætt að hafa ekki snjó á veturna þar sem hann hlífi plöntunum. Þá hafi umhleypingar áhrif á plöntur þegar jarðvegur er auður og litlar plöntur lyftist upp.
Aðalsteinn hefur svipaða sögu að segja og telur að hlýrri vetur auki hættuna á skemmdum á trjágróðri vegna vorhreta en á síðustu tveimur vorum urðu skemmdir á sumum trjátegundum. Hins vegar segir Aðalsteinn að á móti komi að sumrin séu löng og mun hlýrri en áður sem geri skemmdum trjágróðri kleift að jafna sig.
Hann segir breytingar í veðurfari geta haft áhrif á framtíðarval á trjátegundum til ræktunar þar sem ákveðnar trjátegundir eins og rússalerki og síberíulerki fari halloka.
Aðalsteinn segist ekki hafa áhyggjur af þróun veðurfars fyrir trjágróður á Íslandi þar sem aðlögunargetan sé mikil hjá trjágróðrinum og í skógræktinni. Örlítil hækkun á hita sé bara til að bæta lífsskilyrði trjánna. "Séð frá þessu mjög þrönga sjónarhorni skógræktarinnar þá er gott að það hlýni," segir Aðalsteinn.
Heimildir: Vefsíða Independent og visir.is